Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 15:05:32 (2661)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel einboðið í framhaldi af þessum umræðum að málinu verði frestað og menn hinkri aðeins með afgreiðslu á því. Ég vil leyfa mér að mælast til þess við hæstv. forseta. Málið er mjög illa fram lagt og það er ekki sök iðnn., það er ríkisstjórnin sem leggur málið fram. Það er ríkisstjórnin sem á að útbúa málið þannig að það sé aðgengilegt fyrir allan þingheim. Það sem iðnn. gerir í þessu máli er að hún fer mjög vandlega yfir það. Málið er lesið frá orði til orðs í nefndinni og niðurstaðan verður sú að nefndin finnur það út fljótlega að í því eru mjög örlagaríkar villur og sumir textar frv. eru orðaðir með þeim hætti að það er ekki boðlegt. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir las upp brtt. nefndarinnar áðan. Mér hefði þótt vænt um ef hún hefði lesið upphaflegu tillögu ríkisstjórnarinnar. Ég ætla að lesa hana upp, með leyfi forseta:

    ,,Óheimilt er að koma í veg fyrir að einstaklingur, sem eignast hefur hálfleiðara en hefur enga vitneskju um né gildar ástæður til að ætla að rétturinn njóti verndar, hagnýti sér hann í atvinnuskyni. Sé aftur á móti um að ræða atferli sem á sér stað eftir að einstaklingur hefur fengið vitneskju um eða hefur gildar ástæður til að halda að hálfleiðari njóti verndar samkvæmt lögum þessum, skal beiðni rétthafa úrskurða honum sanngjarnar bætur.``
    Við marglásum þessa setningu í nefndinni. Niðurstaðan varð sú að ég hygg að tveir menn í nefndinni, sem báðir hafa verið ritstjórar eins virðulegasta og besta blaðs sem gefið hefur verið út á Íslandi, Þjóðviljans, settust yfir það að reyna að setja saman skiljanlega setningu og niðurstaðan varð svo sú sem hv. 14. þm. Reykv. las upp áðan.
    Nú kann það vel að vera, engu að síður, að þrátt fyrir þessar tilraunir sé staðan þannig að menn átti sig ekki á þessu. Ég kæri mig ekki um að standa að því að knýja í gegn mál sem þingmenn í stórum stíl segja að þeir ráði ekki við og treysti sér ekki til að afgreiða. Ég skil þá vel. Ég segi fyrir mig, hvað sem um aðra nefndarmenn er að segja, að það tók mig langan tíma að fara yfir þetta mál og reyna að setja mig inn í forsendur þess.
    Það er alveg ljóst að sú tækni sem hér er verið að tala um hefur ekki verið nýtt á Íslandi. Hins vegar getur vel komið til þess einhvern tímann, fyrr en seinna, að tækni af þessu tagi verði til á Íslandi. Það getur komið til þess fyrr en seinna að hér verði til fyrirtæki sem verða að einhverju leyti samvinnufyrirtæki Íslendinga og útlendinga á sviði rafeindaiðnaðar þar sem þessi tækni er notuð.
    Af hverju kemur frv. upp núna á þessu þingi og reyndar því síðasta líka ef ég man rétt? Það er t.d. af þeirri ástæðu að talsverð umræða hefur farið fram, eins og kunnugt er, um fríiðnaðarsvæði, að stofnað verði til fríiðnaðarsvæðis á Íslandi. Það er rætt um það að inn á fríiðnaðarsvæði kæmi sennilega einna helst starfsemi iðnaðarframleiðslu af einhverju tagi sem byggir ekki á þeim hefðbundnu auðlindum sem við þekkjum, lands eða sjávar, heldur á þekkingunni einni og á samvinnu við erlend fyrirtæki af ýmsum toga. Til þess að þau fyrirtæki fáist til samvinnu við Íslendinga þurfa að vera til lágmarksreglur af þeim toga sem ætlunin er að setja í þessu frv.
    Í öðru lagi hefur það verið þannig að þau réttindi, sú vernd fyrir hugverk sem frv. gerir ráð fyrir, hefur um langt árabil verið unnin á vegum margra þjóða samkvæmt samþykkt sem gerð hefur verið og samningum þeirra á milli. Aðilar að þeim eru u.þ.b. 100 þjóðir. Íslendingar hafa ekki verið beinir aðilar að þessari samþykkt. En hverjir hafa verndað Ísland á undanförnum árum í þessu efni? Hverjir eru það? Það er Evrópubandalagið, án þess í raun og veru að Ísland væri aðili að þessum samningi eða Evrópubandalagskerfinu á nokkurn hátt. Ég tel að það sé óeðlilegt og óheppilegt fyrir Íslendinga að vera í þeirri stöðu að þurfa í alþjóðlegum samskiptum, ef fyrirtæki af þessu tagi vildu koma til Íslands, að vísa til Evrópubandalagsins en hafa ekki sjálfstætt verndarkerfi fyrir þann hugverkarétt sem hér er verið að tala um.
    Af þessum tveimur ástæðum m.a., virðulegi forseti, var það að ég fyrir mitt leyti skrifaði undir þetta nál. fyrirvaralaust en líka vegna þess að formaður nefndarinnar og meiri hluti hennar féllst á að taka út úr gildistökuákvæðinu tilvísunina til Evrópsks efnahagssvæðis. Hér er þar af leiðandi eingöngu um að ræða almennt umbótamál að mínu mati sem kemur aðildinni að Evrópsku efnahagssvæði ekkert við.
    Ég leyfi mér hins vegar, virðulegi forseti, í framhaldi af því sem hér hefur komið fram, að endurtaka þá ósk mína að málinu verði frestað. Auðvitað má hugsa sér að þetta verði skoðað aðeins betur á vettvangi iðnn. án þess að því sé sérstaklega vísað þangað. Það mætti líka hugsa sér að útbúa gögnin, sem fylgja frv., aðeins betur og leggja þau þá fram sem fskj. með frhnál. ef menn vilja. Það má einnig hugsa sér að menn taki rækilega rispu í þessu máli síðar í umræðum.
    Það er alveg rétt sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði áðan að það er hætt við því að ef Ísland verður aðili að Evrópsku efnahagssvæði fari það svo að hingað berist í stórum stíl alls konar hátæknileg mál sem verði óskaplega erfitt fyrir þingið að eiga við vegna þess

að hér skortir af eðlilegum ástæðum þá tækniþekkingu sem nauðsynleg er til að ráða við þessi mál. Ég spái því að það verði mikið af slíkum málum ef Íslendingar verða aðilar af Evrópsku efnahagssvæði og það muni margur maðurinn verða þreyttur hér í sölunum þegar farið verður að renna þeim málum í gegn. Sömuleiðis muni það líka gerast að margir skemmtilegir þingmenn, eins og hv. 2. þm. Vestf., muni ná sér á strik við að lyfta salnum augnablik við það að upplýsa það hvernig þessir textar eru samansettir og knúsaðir.
    Út af því vil ég líka segja að ég tel að það sé ekki aðeins nauðsynlegt að kanna hvort menn leggja fram ný fylgigögn heldur geta menn velt því fyrir sér að endurskrifa textann sem slíkan. Það má leggjast yfir hann vegna þess að það liggur ekki lífið á í dag eða morgun eða hinn að ljúka afgreiðslunni á þessu máli. Hitt vil ég líka segja að hvað sem líður aðild okkar að Evrópsku efnahagssvæði, hvað sem líður samvinnu okkar við Evrópubandalagið eða aðra slíka aðila, þá verða menn að átta sig á því að við erum að ganga inn í öld nýrra atvinnuhátta sem Íslendingar verða vonandi aðilar að. Undirstaða þeirra atvinnuhátta verður þekking. Þess vegna er ljóst, hvað þessum EES-málum líður, að við verðum að búa okkur undir það að þurfa að taka á málum af því tagi sem hér eru.
    Ég bið hæstv. forseta og þingmenn að afsaka það að ég skuli ekki blanda mér í þá skemmtan sem menn hafa haft af þessu máli á fundinum. Ég gæti svo sem hugsað mér að gera það. Það hefur satt að segja verið fróðlegt að fylgjast með því hvaða skemmtiatriði hv. þm. hafa haft í frammi í kringum þetta mál í þingsölum, í bakherbergjum og í kaffistofunni á undanförnum mánuðum. Það verður ekki endurtekið hér en væri fróðlegt að fara yfir það og festa það í þingtíðindi eins og þegar menn sáu frv. um vernd svæðislýsinga og smárása í hálfleiðurum og tóku eftir því að formaður iðnn. var rétt um það leyti að skrifa leiðara í Alþýðublaðið sem menn töldu í besta falli vera hálfa leiðara ef ekki einn fjórða eða eitthvað því um líkt. Menn sviptu þessum orðum til út og suður og sumir sögðu að þetta mál ætti örugglega að fara í aðra nefnd en iðnn. eins og það væri útbúið. Ég held að kjarni málsins sé sá að ég tel að þingið eigi að kíkja aðeins betur á þetta mál vegna þess að það er óeðlilegt að þrýsta máli af þessu tagi í gegn með þeim hætti sem þingmenn upplifa málið. Mér finnst það skynsamlegt sem fram kom hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og hv. þm. Jóni Helgasyni að menn reyni að búa með frv. stuðningsgögn svo menn geti áttað sig betur á málinu og auðvitað væri allra best ef tækist að skrifa textann svo ljóst að málið skili skilningi upp í heilabúið á hverjum þeim manni sem flettir íslenska lagasafninu í framtíðinni ef þetta verður að lögum.