Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 15:17:12 (2663)

     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil eindregið taka undir það að málinu verði frestað en jafnframt leggja áherslu á það að nefndin taki það aftur til nákvæmrar athugunar. Ég held að nefndin þurfi að fara nákvæmlega yfir þetta því mér sýnist að frv. sé skrifað á þannig máli að það ætti að vera hægt að gera það skiljanlegra ef það væri orðað öðruvísi, a.m.k. samkvæmt þeim skilningi sem ég get fundið út úr því. Ef ég vitna í síðustu mgr. 1. gr. en þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Vernd samkvæmt lögum þessum tekur ekki til hugmynda, ferla, kerfa, tækni eða upplýsinga sem svæðislýsingin hefur að geyma en teljast ekki til hennar sjálfrar.``
    Ég á dálítið erfitt með að skilja þetta en þó sýnist mér að það þýði, ef ég breyti því yfir í það orðalag sem er mér skiljanlegra, að vernd samkvæmt lögum þessum taki aðeins til þeirra hugmynda, ferla, kerfa, tækni eða upplýsinga sem svæðislýsingin hefur að geyma. Það er eins og einhver sagði að þarna sé tunna og lögin taki aðeins til þess sem inni í henni er en ekki þess sem er utan við. Þá er það aðeins það sem inni í tunnunni er sem þetta nær til. Þetta er aðeins ein málsgrein af ótal mörgum í frv. og ég held að nefndin verði að endurskoða frv. mjög rækilega til þess að hér verði ekki hreint slys í lagasetningu.