Sjávarútvegssamningur Íslands og EB

63. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 11:41:53 (2707)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Formsins vegna hefði verið réttara að beina fyrirspurninni til hæstv. utanrrh. sem fer með þessa samninga. Af þessu tilefni er rétt að taka það fram að um öll meginatriði í þessum samningum um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum hefur þegar verið samið í nótuskiptunum frá síðasta vori. Það sem verið er að fjalla um nú er hvernig staðið verður að útfærslu á öllum þeim meginatriðum sem búið er að festa með nótuskiptunum frá því í vor.
    Við höfum eðlilega sett fram kröfur af okkar hálfu hvernig að því skuli staðið, m.a. hversu mörg skip eigi að vera, hvernig staðið verði að eftirliti, hvernig staðið verði að vigtun, hvers konar skip megi vera í veiðum og hvernig staðið verði að mati á því að um gagnkvæmni verði að ræða þegar til lengri tíma er litið, á nokkrum árum eins og hv. 8. þm. Reykn. fjallaði hér um. Evrópubandalagið hefur sett fram fjölmargar kröfur þar á móti af sinni hálfu um verksmiðjuskip, að mega blanda saman veiðiferðum og draga úr eftirliti. Allt eru þetta atriði sem eru til umfjöllunar og þó að hér sé um útfærsluatriði að ræða eru það allt auðvitað mikilvæg atriði. Fundir um þessa samninga eru að hefjast í dag og standa á morgun líka. Fulltrúar Íslands þar hafa vitaskuld umboð til þess að ljúka þessum samningum. Það verður ekkert sagt um það hér og nú hvort það tekst. Það fer eftir því hvernig okkar viðmælendur bregðast við. Við væntum þess vitaskuld að hægt verði að ljúka viðræðunum og leggja málið fyrir þingið í framhaldi af því.
    Á þessu stigi hygg ég að það verði ekki meira um þetta að segja. Með umræðum á Alþingi grípum við ekki fram fyrir hendurnar á samningamönnum okkar sem í dag og á morgun eru vonandi að ljúka þessum samningum. Um það getum við ekkert sagt fyrr en fundunum er lokið.