Sjávarútvegssamningur Íslands og EB

63. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 11:51:14 (2711)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það var auðvitað stórkostlegt áfall þegar það fréttist að samningamenn Íslands úti í Brussel hefðu gefið Evrópubandalaginu ádrátt um skipti á veiðiheimildum og þar með að floti Evrópubandalagsins kæmi inn í íslensku landhelgina. Þá var sagt í upphafi að eingöngu yrði um veiðar á vannýttum tegundum að ræða, fyrst og fremst langhala. Allir vita hvernig það fór. Hann breyttist í karfa á einni nóttu.
    Nú hefur frést að enn eigi að gefast upp gagnvart einu grundvallaratriðinu í þessum efnum, þ.e. spurningunni um raunverulega gagnkvæmni veiðiheimilda. Hér eigi að láta reglubundið á hverju ári 3 þús. tonn af karfa á móti óvissum 30 þús. tonnum af loðnu sem e.t.v. reynist pappírsfiskur sem við náum stundum að veiða og stundum ekki. Svör hæstv. sjútvrh. eða öllu heldur það sem hann ekki sagði olli stórkostlegum vonbrigðum. Það var helst á hæstv. sjútvrh. að heyra að það væri óhæfa að Alþingi væri að taka fram fyrir hendur á samningamönnunum með því að fjalla um þessi mál. Þeir hefðu fullt umboð og það ætti ekki að vera að trufla þeirra störf.     Ég held að það sé líka stórkostlegt áhyggjuefni í þessu máli ef Íslendingar ætla að ganga frá samningum um komandi helgi og verða þar með á undan Norðmönnum að gefast upp fyrir Evrópubandalaginu. Fari svo að þetta grundvallaratriði verði gefið eftir er ríkisstjórnin að hverfa frá því grundvallarstefnumiði Íslendinga sem allar ríkisstjórnir fram að þessari hafa virt í gegnum öll landhelgisstríð að ljá ekki máls á veiðiheimildum fyrir verðmæti. Þá hefur hæstv. sjútvrh. selt þetta grundvallaratriði í ömurlegustu hrossakaupum síðari áratuga á Íslandi, þ.e. í samkomulagi sínu við Alþfl. um sjávarútvegsmál. Það er heldur lágkúruleg niðurstaða fyrir hæstv. sjútvrh.