Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 21:14:55 (2799)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér finnst nauðsynlegt að benda á það eftir ræðu hv. síðasta ræðumanns að hann lét þess ógetið að hæstv. þáv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, svaraði hinu opna bréfi hans. Svar hans birtist í Tímanum hinn 8. febr. 1991. Þar tók þáv. forsrh. af skarið um það að sú samningsgerð, sem yfir stóð á þeim tíma, bryti ekki í bága við íslensku stjórnarskrána. Þetta var athugað í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og í mars, nánar tiltekið hinn 5. mars 1991, var því lýst yfir í skýrslu frá þáv. ríkisstjórn að samningurinn bryti ekki í bága við stjórnarskrána. Það er því alrangt hjá síðsta ræðumanni að þetta hafi ekki verið kannað skipulega. Það kom m.a. fram í svari til hv. ræðumanns sjálfs í Tímanum sem honum var skrifað af þáv. forsrh., í opnu bréfi sem bar þá fyrirsögn að það væri ekkert að óttast við þessa samninga.
    Ég vil einnig láta þess getið, vegna ummæla hv. síðasta ræðumanns um Stefán Má Stefánsson prófessor, að til eru opinber ummæli eftir hv. þingmann þar sem hann lýsti því yfir að það væri mikils virði að fá álit manns eins og Stefáns Más Stefánssonar prófessors á þessum samningi og stjórnskipulegri stöðu hans. Hann lýsti þessu yfir, þessi ummæli eru til og til þeirra hefur áður verið vitnað í umræðum á Alþingi en þetta var á þeim tíma þegar hv. þm. gerði ráð fyrir því að prófessorinn kæmist líklega að þeirri niðurstöðu að samningurinn bryti í bága við stjórnarskrána. En eftir að prófessorinn birti álit sitt með hinum þremur öðrum sérfræðingum utanrrn. tekur hv. ræðumaður til við að hallmæla prófessornum og telja hann vanhæfan að fjalla um þetta mál.