Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 21:45:28 (2806)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm., talsmaður meiri hluta sérnefndarinnar, varði máli sínu til þess að fjalla um stjórnarskrár nágrannaríkjanna, aðallega Norðurlanda, og túlka mál út frá því. Þar á meðal að því er snertir norska þingið og utanríkismálanefnd þess að þeir hefðu látið álitsgerðir nægja. Það má vel vera rétt, ekki ætla ég að vefengja það. Ég tel að það stafi væntanlega af því að þar hafi ekki verið uppi ágreiningur með þeim hætti sem ríkir á Alþingi Íslendinga. Það er ekkert lítill ágreiningur um þetta mál að því er varðar stjórnarskrárþáttinn. Nálægt því helmingur þingmanna metur málið augljóslega þannig að hér sé gengið á svig ef ekki alveg gegn íslensku stjórnarskránni. Það er mat nærri helmings þingheims og hefur þó ekki reynt á þetta í atkvæðagreiðslu, sem verður auðvitað það sem sker úr um. Þar greinir mig ekki á við hv. þm.
    En það er ekki mjög saman að jafna þeirri aðstöðu sem Alþingi Íslendinga býr við að því er varðar þetta stóra mál og þjóðþing hinna Norðurlandanna þar sem um er að ræða áskilinn mjög aukinn meiri hluta til þess að taka á máli sem þessu á grundvelli stjórnskipunar þeirra landa. Þingmenn og aðrir sem ég hef rætt við á Norðurlöndum og ekki þekkja til aðstæðna hér verða mjög undrandi, ég býst við að ég sé ekki einn um það, að heyra að hér eigi samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði að ganga til afgreiðslu á Alþingi út frá einföldum meiri hluta sem eigi að nægja fyrir samþykkt þessa máls.