Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 21:48:35 (2808)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Virðulegi forseti. Það hefði kannski átt að vera um þingsköp. Ég bað um orðið síðdegis en fékk ekki vegna þess að menn voru á undan og mikið um svör og andsvör. Það var ekki forsetans sök. Hins vegar tók ég líka það færi að segja nokkur orð í svörum. En úr því að ég er hér kominn ætla ég að byrja á að segja að mér finnst ástæða til vegna þess hve hér er mjög fámennt og engir ráðherrar að fara að ljúka þessari umræðu eða alla vega að ljúka fundinum. Mér skilst af yfirlýsingum sem gefnar hafa verið að ekki muni eiga að klára umræðu um 30. mál heldur bara það mál sem nú er rætt um, þ.e. 29. mál., sem er náskylt. Það væri þess vegna hægt að hætta nú og ræða meira og minna um bæði málin síðar einhvern tímann ef mönnum sýnist svo. Hins vegar er ég alveg reiðubúinn að ræða efnislega um málið ef sú hugmynd er ekki talin nýtileg að hætta núna og þar með væri lokið umræðu um það mál sem nú er á dagskránni. Mér skilst á bæði ráðamönnum þingsins og formanni míns þingflokks að hugmyndin sé ekki að ræða 30. mál hvort sem er á þessum fundi. ( Forseti: Vegna orða hv. ræðumanns vill forseti taka það fram að ákveðið hefur verið að ljúka umræðunni um þetta mál, 2. dagskrármálið. Eins og nú standa sakir eru fjórir hv. alþm. á mælendaskrá.)