Stjórnarskipunarlög

67. fundur
Mánudaginn 30. nóvember 1992, kl. 14:30:57 (2835)

     Frsm. meiri hluta stjórnarskrárnefndar (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna ummæla hv. þm. Ragnars Arnalds tel ég rétt að rifja upp fyrir hann atriði úr nefndaráliti till. til þál. um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Í tveimur tilvikum hefur verið efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu hér á landi vegna breytinga á stjórnskipan ríkisins. Árið 1918 um sambandslagasáttmálann við Dani og árið 1944 um afnám sambandslaganna og stofnun lýðveldis. Árið 1918 var framfylgt fyrirmælum í stjórnarskránni frá 1915 og þegar sambandslögin voru afnumin var það í samræmi við ákvæði í lögunum sjálfum. EES-samningnum verður með engu móti jafnað við fullveldið 1918 eða stofnun lýðveldisins 1944.``
    Auðvitað er vitað að það hafa komið fram nokkrar tillögur á hinu háa Alþingi um þjóðaratkvæðagreiðslur en þeim hefur í öllum tilvikum síðustu áratugina verið verið hafnað og má segja að þar sé komin ákveðin stjórnskipuleg hefð.
    Hv. þm. beindi einnig til mín nokkrum spurningum og atriðum. Hann gerði athugasemd um það að ég nefndi að þessi grein í frv. væri ótölusett. Það var bent á þetta sem dæmi um sérstök vinnubrögð þar sem hér er verið að tala um stjórnarskrána og því þykir ástæða til þess að vanda enn frekar til vinnubragða. Alla vega var ekki ljóst hvað þarna var átt við, hvort þetta yrði ný grein eða hvort þetta yrði viðbótargrein eins og ég nefndi áðan.
    Bæði í greinargerðinni og nefndarálitinu vegna frv. er vitnað til ítarlegra ákvæða dönsku stjórnarskrárinnar og það er varla tilviljun að vitnað er til þeirra. Það eru ítarleg ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í dönsku stjórnarskránni og mér finnst það óneitanlega nokkuð sérstakt að hv. frsm. minni hlutans telji litlu máli skipta hvað þar stendur enda þótt ég sé alveg sammála honum um það að danska stjórnarskráin þurfi ekki að vera nein fyrirmynd fyrir okkur.
    Ég vildi einnig í lokin, virðulegur forseti, skýra það sem var rætt um þáltill. ef það hefur ekki komið nógu vel fram áðan að þær fela aðeins í sér tilmæli Alþingis til ríkisstjórnarinnar.