Stjórnarskipunarlög

67. fundur
Mánudaginn 30. nóvember 1992, kl. 14:37:56 (2839)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég ætlaði ekki að hafa mörg orð um þetta mál við þessa umræðu þar sem ég gerði grein fyrir áliti Kvennalistans á þessu máli við 1. umr. og hv. frsm. minni hlutans hefur gert grein fyrir nál. sem ég skrifa undir. Ég vil þó minna á að Kvennalistinn hefur ævinlega haft það á sinni stefnuskrá að fleiri mál en hingað til verði borin undir þjóðaratkvæði og kemur það m.a. fram í till. til þál. sem flutt var á 109. löggjafarþingi 1986 um þjóðaratkvæði og María Jóhanna Lárusdóttir, Guðrún Agnarsdóttir og Kristín Halldórsdóttir fluttu. Mig langar til að lesa örlítið úr greinargerð með þeirri tillögu þar sem mér þykir mjög vel orðað það sem þar kemur fram og segir kannski meira um stefnu Kvennalistans í þessum málum en ýmislegt annað sem fram hefur komið. Í þessari þáltill. var gert ráð fyrir að tíundi hluti kosningarbærra manna eða þriðjungur þingmanna, eins og við gerum nú ráð fyrir í okkar tillögu, geti farið fram á ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál. Greinargerðin hljóðar svo en ég les einungis lítinn hluta hennar, með leyfi forseta:
    ,,Íslendingar búa við lýðræðislegt stjórnarfar eins og flestar aðrar vestrænar þjóðir. Í lýðræðishugtakinu felst að æðsta valdið sé hjá þjóðinni og allur almenningur eigi að velja um þá kosti sem fyrir liggja um skipan og þróun þjóðfélagsins.
    Fyrrum réðu Íslendingar ráðum sínum á opnu þjóðþingi þar sem teknar voru ákvarðanir er vörðuðu land og þjóð. Þegar fram liðu stundir þótti þetta form þungt í vöfum og óhagkvæmt og er stjórnarfar Íslendinga nú, eins og margra annarra þjóða, byggt á fulltrúalýðræði. Allir Íslendingar, sem hafa kosningarrétt, eiga rétt á að kjósa menn á Alþingi til að fara með stjórn samfélagsins fyrir sína hönd. Í stað þess að allir Íslendingar ráði ráðum sínum og taki sameiginlega ákvarðanir fela þeir fulltrúum sínum fullt vald til slíks. Í raun er um valdaframsal að ræða frá þjóðinni til fulltrúa hennar, alþingismanna, í ákveðinn tíma. Samkvæmt stjórnarskrá eru alþingismenn þó ekki bundnir af fyrirmælum umbjóðenda sinna í afstöðu til einstakra mála heldur eingöngu af sannfæringu sinni. Það er oft löng leið frá kjósanda til fulltrúa hans á þingi. Í almennum kosningum er kosið um fjölmörg mál í einu og þess ekki að vænta að þingmenn geti vitað um afstöðu umbjóðenda sinna í öllum málum. Það hefur því lengi tíðkast meðal lýðræðisríkja að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem kjósendur eru spurðir um afstöðu til einstakra mála, annaðhvort að ósk íbúanna, hluta þingmanna eða valdhafa. Þjóðaratkvæðagreiðsla er lifandi þáttur í stjórnarfari sumra ríkja eins og í Sviss sem byggir á langri hefð í þessum efnum. Á Norðurlöndum og víða í Evrópu hefur það færst í vöxt að slíkar kannanir fari fram í þeim málum er ætla má að skoðanir landsmanna séu skiptar. Nægir að nefna sem dæmi atkvæðagreiðslu um inngöngu Norðmanna og Dana í Efnahagsbandalagið, áframhaldandi dvöl Breta í því bandalagi og afstöðu Svía til kjarnorkumála. Hér á landi hefur engin þjóðaratkvæðagreiðsla farið fram síðan 1944 en fram að þeim tíma sex sinnum frá árinu 1908.``
    Meira ætla ég ekki að lesa úr þessari greinargerð með till. til þál. sem flutt var á 109. löggjafarþingi en mér þótti þetta góður kafli úr greinargerðinni og get ég gert þessi orð að mínum.
    Það er þess vegna fráleitt að halda því fram að Alþingi sé að framselja löggjafarvald með því að þjóðin sé spurð álits á málum þótt í sumum tilvikum sé þjóðaratkvæðagreiðsla bindandi fyrir málið. Alþingi fær vald sitt frá þjóðinni og því er verið að snúa málum á haus að halda slíku fram þegar farin er sú leið að viðhafa beint lýðræði eins og gert er þegar um þjóðaratkvæðagreiðslu er að ræða.
    Í Sviss, eins og kom hér fram í greinargerð með þáltill., er löng hefð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum og raunar falið í stjórnskipan þar. Það var á síðustu öld og í byrjun þessarar sem þetta var tekið upp fyrir alvöru og aukið verulega og það varð smátt og smátt stærri hluti af þeirri lýðræðishefð sem nú er orðin ríkjandi í Sviss. Auðvitað urðu pólitísk átök um þau atriði á þeim tíma. Auðvitað voru fordæmi fyrir því frá fyrri öldum en það var sem sagt ekki fyrr en um aldamótin sem það fer að verða ríkari þáttur í þeirra stjórnskipan. Á seinni árum eru alltaf fleiri og fleiri spurningar lagðar fyrir svissnesku þjóðina t.d. um ýmis lýðræðismál og umhverfismál og verða niðurstöðurnar ávallt framsæknari og einnig í þá veru að sérhagsmunir víkja fyrir almannahagsmunum. Mér finnst skipta verulegu máli að líta til fleiri þjóða þegar við erum að ræða það að taka upp ákvæði um þjóðaratkvæði í íslensku stjórnarskrána um fleiri mál en þar er gert ráð fyrir nú.
    Í Danmörku eru svipuð ákvæði, þ.e. ákvæði um það að minni hluti, þriðjungur þingmanna, geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu og ég veit ekki til að það hafi verið nein vandræði með þetta ákvæði. Eins og fram hefur komið í umræðunni hafa áður komið fram hugmyndir um að setja ákvæði í íslensku stjórnarskrána þess efnis að málum verði í ríkara mæli skotið til þjóðarinnar. Það getur vel verið að þingmenn hafi á því skoðun að það geti verið eðlilegra að gera það ekki nú, eins og kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv., en hún sagði að það væri allt annað mál að koma með þáltill. eins og Ólafur Jóhannesson gerði áður en koma með frv. eins og þetta sem við leggjum nú fram. Það sýnir sem betur fer að það eru fleiri sem telja að það sé eðlilegt að setja ákvæði í stjórnarskrána um þjóðaratkvæðagreiðslu og að fleiri mál séu borin undir þjóðina. En menn geta auðvitað haft skoðun á því að það sé ótímabært að gera það núna. Ég tel að það sé fyllilega tímabært og það hefði verið mjög þægilegt og gott ef þetta ákvæði væri í íslensku stjórnarskránni svo hægt hefði verið að bera það mikilvæga mál sem er nú til meðferðar í þinginu, þ.e. samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, undir þjóðina þar sem ljóst er að mjög skiptar skoðanir eru meðal þjóðarinnar um það mál. Að vísu hefur maður ekki heyrt nýlega um neinar skoðanakannanir um það efni þó

að vitað sé að a.m.k. tvær skoðanakannanir hafa farið fram um það mál eftir því sem fólk segir, þeir sem hafa verið spurðir. Ég hef ekki heyrt um niðurstöður en væntanlega sjáum við þær fljótlega ef þeim verður ekki stungið undir stól eins og niðurstöðum skoðanakannana sem voru fyrr í vetur.
    Ég ætlaði ekki, virðulegur forseti, að hafa fleiri orð um þetta mál en ég vona að þingmenn sjái sér fært að samþykkja frv. þó að það hafi auðvitað í för með sér, ef frv. verður samþykkt eftir 3. umr., að efna verður til nýrra kosninga. Það væri þá hægt að geyma 3. umr. um einhvern tíma svo ekki yrði þingrof núna fyrir jólin heldur yrði reynt að skipa þannig málum að hægt væri að samþykkja frv. með samkomulagi um tímasetningu um þingrof.