Stjórnarskipunarlög

67. fundur
Mánudaginn 30. nóvember 1992, kl. 15:12:39 (2842)

     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegur forseti. Við 1. umr. um það mál sem hér liggur fyrir nú, 30. mál þingsins, fjallaði ég nokkuð um það hvers eðlis þetta frv. er og mun ég ekki endurtaka það sem þar var sagt. Hins vegar langar mig til að fjalla nokkuð um þær breytingar sem hafa orðið á málinu af hálfu minni hluta stjórnarskrárnefndarinnar svo og þær fullyrðingar sem hér hafa verið látnar falla um að fulltrúar stjórnarflokkanna hafi í umræðum um málið sýnt vantrú á hæfni þjóðarinnar til að fjalla um málefni hennar í þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Ég vil fyrst taka fram að við 1. umr. benti ég á að þetta frv. til stjórnskipunarlaga væri alls ekki frv. um að efla vald almennings og þjóðarinnar yfir sínum málefnum. Frv. er tvískipt. Annars vegar er verið að tala um að vísa málefnum til þjóðarinnar til samþykktar eða synjunar og er þá atkvæðagreiðslan bindandi. Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá er afsal fullveldis óheimilt og óframkvæmanlegt nema slíku máli sé vísað til þjóðarinnar samkvæmt 79. gr. og þar af leiðandi fær hún að fjalla um það samkvæmt núgildandi stjórnarskrá. En seinni málsgrein frv. er raunar kjarni málsins. Þar er verið að heimila minni hluta Alþingis að vísa til atkvæðagreiðslu allra kosningabærra manna í landinu frv. til laga eða þingsályktunum. Jafnframt er skýrt og skorinort sagt að úrslit atkvæðagreiðslunnar séu ráðgefandi en ekki bindandi. Með öðrum orðum er ekki verið að vísa úrskurði mála til þjóðarinnar heldur er verið að veita minni hluta á Alþingi mikið vald til að koma fram sínum málum með því að hér er gerð tillaga um að þeir geti vísað hvaða frv. til laga og hvaða þáltill. sem er til þjóðarinnar.
    Slíkt vald er óeðlilega mikið. Á þetta benti ég við 1. umr. málsins og tók það sérstaklega fram að það væri ekkert í þessu frv. sem benti til þess að flm. þess ætluðu að flytja eitthvert vald til almennings í landinu. Svo virðist sem flm. frv. hafi tekið mark á þessari ábendingu því að nú er á þskj. 303 gerð brtt. við frv. þar sem segir svo: ,,Fjórðungur alþingiskjósenda`` --- og koma þeir loks til sögunnar --- ,,getur óskað eftir því að fram fari ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um einstök málefni.``
    Þetta gengur þó ekki lengra en svo að þarna er verið að tala um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel því að það mál sem hér er til umræðu fjalli alls ekki um að færa vald til þjóðarinnar heldur fyrst og fremst að færa minni hluta Alþingis vald.
    Það fer ekki milli mála að þetta frv. dregur mjög verulega úr þingræðinu og er þar af leiðandi tímamótaplagg í sögu lýðræðisins ef það verður samþykkt. Það breytir í grundvallaratriðum þeirri málsmeðferð sem hér hefur verið viðhöfð. Þá er ástæða til að varpa þeirri spurningu til þeirra sem hafa einkum og sér í lagi stutt þetta frv. hvort þingræði flokkist ekki undir lýðræði. Það væri kannski rétt að varpa þeirri spurningu sérstaklega til hv. 2. þm. Vestf. hvort hann flokki ekki þingræði undir lýðræði. Mér fannst málflutningur hans áðan vera með þeim hætti að efast mætti um það.
    Ég tel því að að uppruna til sé tilgangur þessa frv. sá að færa óeðlilegt vald í hendur minni hluta Alþingis og að þær breytingar sem fram hafa komið séu viðurkenning á þessari gagnrýni en bæti frv. ekki nema að litlu leyti og full ástæða sé til að vísa þessu frv. til ríkisstjórnarinnar til nánari skoðunar. Ég vil ekki fortaka að ekki sé nauðsynlegt að koma á einhverjum ákvæðum um það hvernig megi krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru ekki mín orð og ber ekki að skilja orð mín þannig. En ég tel að þetta plagg sem hér hefur verið lagt fram, jafnvel með þeim breytingum sem þar eru lagðar til, sé allsendis ófullnægjandi og ekki ástæða til að samþykkja það.