Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 17:59:55 (2971)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég stend við það að ég lít svo á og tel að til þess séu fullgild rök að þessir samningar séu í heild sinni góðir fyrir okkur. Við höfum í flestum atriðum fengið okkar ýtrustu kröfur fram. Á þessu sviði sem hv. þm. nefndi gerðum við málamiðlun en ég tel að við höfum tryggt okkar hagsmuni með fyllilega viðunandi hætti að þessu leyti. Ég minni á að þeir sem þarna eiga helstra hagsmuna að gæta eins og forustumenn útvegsmanna á Íslandi, sem tóku þátt í lokasamningaviðræðunum, styðja þessa niðurstöðu og telja hana vera viðunandi fyrir íslenska hagsmuni og það er kannski miklu betri mælikvarði á þessa niðurstöðu heldur en mat hv. þm. þó að ég beri fulla virðingu fyrir hans dómgreind.