Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 18:57:53 (2995)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að hæstv. forseta fyrirgefist því það er auðvitað ljóst að í vissum skilningi hefur hæstv. utanrrh. rænt völdum í sjútvrn. a.m.k. í þessu máli og keyrt þar vilja sinn yfir hæstv. sjútvrh. Það verð ég að segja, hæstv. forseti, að ég dáist að ósvífni hæstv. utanrrh. í málflutningi hér. Hún er með ólíkindum, mér liggur við að segja snilldarleg ósvífni af hálfu hæstv. utanrrh. Að koma hér eftir allt sem á undan er gengið í þessu máli og segja það blákalt að það hafi aldrei staðið annað til en skipti á veiðiheimildum. Allt annað sé rugl. Er hæstv. utanrrh. virkilega að ætlast til að við föllum fyrir því og trúum því þar með að þetta hafi allt verið misskilningur og rugl? Allt talið í hæstv. sjútvrh. um nauðsyn þess að tryggja gagnkvæmni í veiði, fundir í utanrmn., fundir í sjútvn., baknefnd hagsmunaaðila í sjávarútvegi og hálfs árs stopp í viðræðunum, allt misskilningur, allt rugl segir utanrrh. Stóð aldrei til annað en skiptast á veiðiheimildum. Þetta var allt frágengið í vor. Málið er auðvitað það, hæstv. utanrrh., að menn eru ekki svo skyni skroppnir að þeir viti ekki að til þess að veiða þurfti að skiptast á veiðiheimildum en menn töldu að jafnframt ætti að tryggja að um raunveruleg skipti á afla yrði að ræða. Nú er hæstv. utanrrh. að reyna að segja okkur að það hafi aldrei staðið til. Og það er ekki bara viðtalið við hann 1. des. í Morgunblaðinu sem er auðvitað rýtingur í bakið á sjútvrh. Hann er í raun og veru að segja að það hafi allir verið hafðir að fíflum í hálft ár. Og þá væntanlega viljandi. Og svo tekur hann til þess gamalkunna bragðs, sem hann hefur áður gert, hæstv. utanrrh., að taka sér einkarétt á staðreyndunum, ,,vi alene ved`` sögðu dönsku kóngarnir. Hæstv. utanrrh. þarf að læra þessa setningu, hann einn veit, hann hefur einkaleyfi á staðreyndunum og er þess umkominn að slá til hliðar málflutningi allra annarra af því að hann hefur útgefið af guði almáttugum einkaleyfi á staðreyndum.