Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 23:51:05 (3011)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég kynnti mér þá dagskrá sem liggur fyrir varðandi næsta fund og áttaði mig á því að þar er eitt mál ekki enn komið á dagskrá sem hefur legið alllengi fyrir þinginu. Það er frv. til laga um breytingu á jarðalögum, nr. 65/1976, með síðari breytingum, 246. mál. Ég hef því leyft mér að leggja fram ályktun að dagskrá fyrir 70. fund Alþingis sem er á þann veg að þar eru öll þau mál inni sem ætlunin var að hafa inni og þetta mál þar að auki.
    Ástæðan fyrir því, herra forseti, að ég sæki það að þetta mál sé sett á dagskrána er sú að í allshn. hefur átt sér stað vinna í þeim frumvörpum sem varða EES, m.a. frv. til laga um breytingar á ýmsum lögum er varða réttarfar, atvinnuréttindi og fleira vegna aðildar að samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Í þessu frv. er kafli sem fjallar um lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna. Við hann hefur komið mjög stuttorð breytingartillaga úr dómsmrn., sem er ættuð úr landbrn., hugsuð þó til að styrkja það að Íslendingar hafi meira vald varðandi þær fasteignir sem hér eru, fyrst og fremst jarðir.
    Fyrir þinginu liggur frv. til jarðalaga sem mjög hefur verið rætt í fjölmiðlum. Það er aftur á móti á allt annan veg en hv. þm. Geir H. Haarde og hæstv. fjmrh. lögðu til þegar þeir fjölluðu um þessi mál. Ég efa að það sé mikil vissa fyrir því að slíkt frv. hafi meiri hluta á þinginu en ég tel nauðsynlegt að fá umræðu um það mál áður en allshn. afgreiðir út úr nefnd frv. til laga um breytingar á lögum er varða réttarfar, atvinnuréttindi o.fl. því að þessi mál eru nátengd. Jarðir eru fasteignir og því er nauðsyn að fá viðhorf þingsins til þessa jarðafrv. og hvort einhver alvara er í því máli. Mér sýnist að það geti varla verið. Ég segi fyrir mig að mér finnst það mannréttindaskerðing fyrir Íslendinga verði það samþykkt og tel þess vegna nauðsyn að fá þetta fram. Ég held að menn verði að gera sér grein fyrir því að það hefur enginn komið fram með neitt það sem girðir fyrir að útlendingar geti keypt land eins og þeir vilja í landinu ef við göngum í EES.
    Tillagan liggur fyrir, herra forseti, og ég vænti þess að hún verði borin undir atkvæði.