Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 00:07:48 (3019)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Það er satt best að segja ekki merkilegt svar hjá hæstv. utanrrh. að ekki sé tímabært að svara því hvað skuli með þennan samskiptasamning um sjávarútvegsmál ef ekkert verður EES-ið. Það er ekki merkilegt svar. Fæst hæstv. utanrrh. ekki til þess að gefa það upp hvað ríkisstjórnin hyggst fyrir með þennan samning og hver staða okkar Íslendinga verður með hann ef ekki verður af þessu Evrópska efnahagssvæði sem hlýtur a.m.k. að vera hægt að ræða hér sem fræðilegan möguleika við hæstv. utanrrh. þó að hann sé að sönnu heitttrúaður á að þetta framtíðarríki renni upp? Ber að skilja hæstv. utanrrh. svo, það litla sem lesa mátti í orð hans hér áðan, að ef ekkert verður af EES, þá munum við sitja uppi með þennan samning engu að síður og þessi dæmalausu eilífðarákvæði hans sem eru þannig að eftir tíu ár megi endurskoða hann en þó eingöngu þannig að áfram verði til einhver samningur í staðinn? Sitjum við t.d. uppi með EB-flotann inni í landhelginni á næsta ári hvað sem tautar og raular eftir að hafa afgreitt þennan samning þó svo ekkert yrði af samningnum um EES? Það var helst að heyra á orðum hæstv. utanrrh. hér áðan. Ég hvet hann til þess að koma og svara því alveg skýrt. Hann hlýtur að geta það.
    Varðandi svo hitt að allt sé ljóst með samningaferlið, þá er það furðulegt þegar fyrir liggja skjalfest gögn um það að hæstv. utanrrh. er alveg gersamlega í 180 gráðu mótsögn við sjálfan sig í skjalfestum heimildum sem liggja hér frammi og vitnað hefur verið til. Í plöggum utanrrn. segir annars vegar að upphafleg krafa Íslendinga hafi verið að Evrópubandalagið tæki á sig alla ábyrgðina á því hvort loðnan veiddist en í viðtali við Morgunblaðið 1. des. segir hæstv. utanrrh. að það hafi aldrei staðið til og aldrei hafi farið á milli mála að ekki væri hægt að semja um skipti á afla upp úr sjó. Er það virkilega málflutningur af þessu tagi sem á að bjóða hinu háa Alþingi í þessu máli?
    Ég hvet hæstv. utanrrh. til að reyna einu sinni að gera betur og koma og svara skýrar um leið og ég harma þau örlög hæstv. sjútvrh. að þurfa að sitja þegjandi undir þessu.