Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 10:26:04 (3031)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. 8. þm. Reykn. á að vera kunnugt sem þingmanni þeirra Suðurnesjamanna og kvenna að ríkisstjórnin hefur í hyggju sérstakt atvinnuátak vegna þess erfiða atvinnuástands sem er í sveitarfélögum þar. Á hinn bóginn hygg ég að það sé ekki smekklegt að gera lítið úr því átaki sem nú er verið að gera í samgöngumálum og felur í sér um 500 ársverk. Það er nú svo að verktakafyrirtæki einmitt í þeim landshluta sem hann gerði að umtalsefni hafa tekið að sér verk úti um landið þannig að það er síður en svo hægt að slá því föstu að Suðurnesjamenn verði út undan þegar við erum að ræða um þá atvinnuuppbyggingu sem þessi ákvörðun felur í sér. Þar að auki vil ég segja hv. þm. að erfiðleikar í atvinnumálum eru víðar miklir og auðvitað ekki hægt að tala um þá hluti einungis staðbundið út frá einum stað þótt viðkomandi sé þingmaður þar heldur hljótum við að tala um þau mál í heild sinni. Þannig áttum við t.d. þingmenn Norðurl. e. fund með bæjarstjórn Akureyrar út af því atvinnuástandi sem þar er og ég hygg að svo sé um þingmenn úr öðrum kjördæmum einnig að þeir ræði við fulltrúa sveitarfélaga og forustumenn í atvinnulífi um atvinnuástandið á hverjum stað þegar erfiðleikar koma upp.