Ný staða í EES-málinu

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 13:57:13 (3096)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Sú staðreynd að Svisslendingar hafa fellt aðild að Evrópska efnahagssvæðinu vekur upp spurningar um framhald málsins.
    1. Hvert verður framhald þess?
    2. Er Alþingi Íslendinga eitthvað að vanbúnaði að staðfesta frv.?
    3. Hvað má búast við langri töf á því að málið verði til lykta leitt?
    Í fyrsta lagi vill svo til að í samningnum er kveðið á um hvernig með skuli fara í þessu tilviki. Það er í 129. gr. og samþykktum við hana. Þar er vikið að tveimur tilvikum. Í fyrsta lagi hvernig með skuli fara ef aðildarríki eða samningsaðildarríki getur ekki staðið við tímamörkin 1. jan. 1993. Um það segir það sem fyrirspyrjandi, hv. seinasti ræðumaður las hér áðan.
    Í annan stað er kveðið á um það hvernig við skuli bregðast ef eitthvert aðildarríkjanna fellir aðild. Þar segir, með leyfi forseta, og það á við í þessu tilviki þegar Sviss hefur fellt:
    ,,Ef eitthver þeirra`` þ.e. ríkjanna ,,fullgildir ekki samninginn skulu hinir samningsaðilarnir boða til ráðstefnu stjórnarerindreka til að meta áhrif fráviks frá fullgildingu samningsins og skoða möguleika á að samþykkt verði bókun um breytingar sem verða með fyrirvara um nauðsynlega meðferð innan lands``, þ.e. stafðestingu þjóðþinga. ,,Slík ráðstefna skal haldin jafnskjótt og ljóst er að einhver samningsaðili muni ekki fullgilda samninginn``, þ.e. nú þegar, ,,eða í síðasta lagi ef dagsetning gildistöku samningsins er ekki virt.``
    Þetta er alveg skýrt. Eitt land hefur fellt. Þá bregðumst við við eins og hér er lýst. Þetta er annað en ef eingöngu væri um að ræða tímatöf þannig að það er alveg ljóst að fram undan er að efna til slíkrar ráðstefnu, skoða möguleikana á þeim breytingum sem þarf að gera, sem eru tæknilegs eðlis eins og formaður ráðherraráðs EFTA hefur lýst, og þessarar ráðstefnu skal efna til eins fljótt og við verður komið og þetta er alveg ljóst.
    Þá er næsta spurning: Er Alþingi Íslendinga eitthvað að vanbúnaði að samþykkja það frv. sem hér liggur fyrir, frv. til laga um Evrópska efnahagssvæðið? Svarið við því er líka alveg skýrt. Í 1. gr. er heimildarákvæði um að fullgilda fyrir Íslands hönd samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og samninga EFTA-ríkjanna um eftirlitsstofnun, og dómstól og fastanefnd. 1. gr. er sú eina sem fær lagagildi strax. Síðan segir í 5. gr.:
    ,,Ákvæði 1. gr. laga þessara öðlast þegar gildi.
    Önnur ákvæði laganna öðlast gildi um leið og EES-samningurinn öðlast gildi að því er Ísland varðar.``
    Hvað þýðir þetta á mannamáli? Þetta þýðir það að samningurinn sjálfur fær ekki lagagildi fyrr en við höfum fullgilt hann með því að afhenda fullgildingarskjöl og hin ríkin öll hafa gert það. Þetta þýðir að Alþingi Íslendinga er ekkert að vanbúnaði að samþykkja þetta frv., 1. gr. þessa frv. sem mun ekki breytast vegna þess að lögin öðlast ekki gildi fyrr en fullgildingin með afhendingu fullgildingarskjala hefur farið fram. Í millitíðinni gerist það sem ég lýsti áðan að efnt verður til þessarar ríkjaráðstefnu. Þar munu menn komast að niðurstöðu um hvaða tæknilegar breytingar þarf að gera, strika út nafnið Sviss, strika út EFTA þar sem það á við og önnur þau atriði sem upp kunna að koma, ná samkomulagi um viðbótarbókun sem staðfestir þessar breytingar og leggja það fyrir þing. Um þetta snýst málið. Sú staðreynd að Svisslendingar hafa fellt aðildina breytir ekki öðru fyrir hin aðildarríkin.
    Nú vill svo til að forsvarsmenn annarra EFTA-ríkja hafa þegar lýst afstöðu sinni og hún er þessi: Pólitískur vilji þessara aðila til þess að hrinda málinu í framkvæmd er óbreyttur. Það verður farið með málið eins og hér er lýst og það er auðvitað athyglisvert að ríkisstjórnir annarra Norðurlanda, þ.e. Finnlands, Svíþjóðar, Noregs og reyndar Austurríkis líka hafa þegar samþykkt samsvarandi staðfestingarfrumvörp. Ísland er eina landið sem hefur ekki gert það. Til þess að það sé á hreinu að við höfum alla aðild að framhaldi málsins er auðvitað nauðsynlegt að við gerum það.
    Síðustu spurningunni um hvað líklegt er að þetta tefji málið mikið getum við ekki svarað nákvæmlega en það liggur fyrir að eftirfarandi gerist: Ráðherrar EFTA-ríkjanna koma saman til fundar 10. og 11. desember. Í framhaldi af því munu ráðherrar þeirra EFTA-ríkja, sem áfram lýsa vilja sínum til þess að lúka málinu, koma saman til sérstaks fundar. Við munum óska eftir því að þessi ríkjaráðstefna fari fram hið allra fyrsta. Af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins hefur verið yfir lýst því að pólitískur vilji af þeirra hálfu sé óbreyttur. Með öðrum orðum, niðurstaðan er sú að það gæti tafist um einhvern ótiltekinn tíma að samningurinn taki gildi sem hann gerir þegar öll aðildarríkin hafa afhent sín fullgildingarskjöl. En ég legg á það megináherslu, virðulegi forseti, að það er engin ástæða til þess af hálfu Alþingis Íslendinga vegna þessara kosningaúrslita í Sviss að leggja hendur í skaut. Þvert á móti er það í samræmi við íslenska hagsmuni að taka af öll tvímæli um afstöðu okkar, að staðfesta þetta frv. eins og hér hefur verið lýst þannig að ekki sé neinum vafa undirorpið hver sé vilji meiri hluta Alþingis og ríkisstjórnarinnar og við séum fullgildir aðilar að því að lúka málinu.