Ný staða í EES-málinu

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 14:17:54 (3103)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Þegar miklir atburðir gerast eiga litlir karlar að þegja, eins og skáldið sagði, sællar minningar. Ef menn hafa ekki gefið sér tíma áður til að hugsa um okkar stöðu eins og hún nú er hljóta þeir að gera það og forðast allt fljótræði. Í mínum huga er alveg ljóst að stjórnarskrá íslenska lýðveldisins yrði brotin ef drögin að Evrópsku efnahagssvæði yrðu samþykkt eins og þau nú eru. Til þess fær enginn maður mig og vonandi ekki aðra þingmenn.
    Frá því að Björn Guðmundsson prófessor sendi utanrmn. álit sitt í þessu efni í júlí sl. hefur hann haldið áfram rannsóknum sínum og einkum skoðað frekar norrænan rétt. Þetta hefur leitt til þess að hann telur sig ekki lengur í vafa um að samningurinn um EES brjóti í bága við íslensku stjórnarskrána. Hann hefur í dag leyft mér að hafa þetta eftir sér hér á hinu háa Alþingi sem sýnir eindregna skoðun hans.
    Hann hefur áður skýrt málið fyrir hv. utanrmn. og þarf ekki frekar að eyða að því orðum. En það hafa raunar margir aðrir greint frá því í hv. utanrmn. að það sé um stjórnarskrárbrot að ræða ef þessu heldur fram. Raunar held ég að svo horfi nú ekki lengur. Ég held að menn séu búnir að átta sig á málalokum.