Afgreiðsla fjárlagafrumvarps

74. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 14:15:31 (3197)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér hefur komið fram ein spurning frá hv. 1. þm. Norðurl. e. og hún er sú hvort hægt sé að hafa 2. umr. um fjárlög á morgun. Skýringin er sú að þingmaðurinn hyggst skila nál. og trúlega flytja ræðu við 2. umr. og telur sig þurfa einhvern undirbúningstíma til þess að inna þetta verk af hendi frá því að seinasti fundur er haldinn í fjárln. og áður en 2. umr. fer fram. Það er raunverulega þetta sem snýr að forseta, aðeins þetta. Ætlar forsetinn að tryggja það að fjárln. haldi fund það tímanlega áður en aðalumræðan fer fram að hægt sé að ætlast til þess að fulltrúar minni hlutans geti sinnt því verki að skila nefndaráliti og búa sig undir ræðuflutning?
    Ef ætlunin er að leggja þessi gögn fram í kvöld þá hefur hæstv. forseti greinilega hugsað sér að ráðstafa tíma hv. 1. þm. Norðurl. e. í nótt til að vinna verkið og undan því virðist hann kvarta. Ég vil eindregið hvetja forseta til þess að kalla fyrir sig formann fjárln. og fá við þessu svör því að það er náttúrlega alveg dæmalaust að hæla nefndinni fyrir störf héðan úr ræðustólnum ef það liggur fyrir að hún er ekki búin að komast að niðurstöðu hvað hún ætlar að leggja til við umræðu sem á að fara fram á morgun. Þá er stórt og mikið að. Það er náttúrlega bara eins og hver önnur skrautsýning að yfirheyra hæstv. heilbr.- og trmrh. á sunnudegi um hvað hann ætli að gera. Það er nefndin sem á að ákveða að leggja til við þingið hvaða peninga þessi hæstv. ráðherra á að fá. Það er ekki ráðherrans að tilkynna þinginu hvaða peninga hann vill fá. Svo einfalt er það mál. ( Gripið fram í: Er það skrautsýning?) Skrautsýning. Sumir hafa lag á því að haga sínum klæðaburði í samræmi við jólin þannig að það minnir helst á skrautsýningu.