Almannatryggingar

76. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 23:16:42 (3219)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni að hér hafa gerst undur og stórmerki því að hér dettur út eftir því sem manni sýnist hver lagagreinin á fætur annarri í því frv. sem heilbr.- og trmrh. hefur talað fyrir. Mér sýnist fátt standa eftir af því nema 1. og 2. gr. frv., flest annað hefur Sjálfstfl. gert fullan fyrirvara við, nú síðast var það hv. þm. Pálmi Jónsson, 2. þm. Norðurl. v., sem benti á að það sé mikill vafi á eignarformi á Samábyrgð Íslands á fiskiskipum og það orki tvímælis hvort ríkið geti tekið sér ágóðann af þeirri sölu sem fyrirhuguð er. Þetta voru hvorki meira né minna en 174 millj. sem þarna áttu að koma.
    Áðan hrukku úr hendi ráðherra með ræðu hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur, 13. þm Reykv., 120 millj. Þetta gera samanlagt um 300 millj. kr. sem hafa farið hér eftir því sem manni sýnist á 30 mínútum. Það gera 10 millj. á mínútu sem það kostar þegar þingmenn Sjálfstfl. tala hér. Ég held að ráðherra ætti að kíkja upp í ermina og vita hvort hann hefur ekki eitthvað fleira þar. Ég vona að hann finni ekki fyrir fæðingarorlofinu a.m.k. Ég vil benda á að það eina sem mér finnst að standi eftir sé að menn eru ekki mótfallnir breytingunni á barnalífeyrinum og mæðralaununum. Annað sé eiginlega hrokkið.