Efling Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðis sem miðstöðvar fræðslu á sviði sjávarútvegs

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 10:54:16 (3240)

     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svörin. Ég er ánægður með þau svo langt sem þau ná. Það er allt rétt sem talið var upp í svari hæstv. ráðherra að ný lög um háskólann, tilkoma rannsóknastofnunar, starf þessarar þróunarnefndar sem vitnað var til og aukin umsvif eða efling rannsóknastofnana á þessu svæði, allt er það í rétta átt. Sömuleiðis bindum við vonir við það að af starfi þessarar nefndar, sem tilkynnt var að færi að endurskoða sjávarútvegsfræðsluna, verði árangur og sérstaklega þá að það verði virkt að hafa hliðsjón af þeim vilja Alþingis sem hér kom ótvírætt fram í ályktun á síðasta þingi.
    Mér sýnist hins vegar veiki hlekkurinn í efndum hæstv. ríkisstjórnar vera fjárveitingarnar og þar er auðvitað sérlega bagalegt ef mikilsverð verkefni sem menn hafa verið að hrinda úr vör og undirbúa, eins og líffræðirannsóknir í Eyjafirði og rekstur skólaskipsins sem þar var að komast á legg, ná ekki fram að ganga. Því miður dugar góður vilji og nefndaskipanir og ágætar ákvarðanir í stjórnsýslunni skammt ef ekki fylgir þeim sá kraftur sem til þarf í formi nauðsynlegra fjárveitinga.
    Vissulega er Háskólinn á Akureyri að byggjast upp og fær nú aukið fjármagn milli ára sem eðlilegt er vegna þess að stofnunin er í uppbyggingu og ný ár að bætast við brautirnar á þeim tíma sem þær eru að ganga upp í gegnum námsferilinn. Þannig er það í sjálfu sér ekki endilega vísbending um að mönnum sé að miða mikið áfram umfram það sem þegar hefur verið ákveðið að það nám sem þegar hefur verið hafið það gangi upp á síðustu ár.
    Ég vil að lokum hvetja hæstv. sjútvrh. og hæstv. ríkisstjórn til þess að sinna þessum málum af alúð og ræktarsemi. Það ber öllum saman um að framtíðin liggi í þekkingu og rannsóknum og það hlýtur að eiga við ekki síður en annars staðar í okkar undirstöðuatvinnugrein, sjávarúteginum, og þarna er lag til að taka á þeim málum.