Kostnaður við löggæslu á skemmtunum

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 11:25:54 (3263)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Á dagskrá fundarins eru sex fyrirspurnir. Fyrsta fsp. er um flutning á rekstri grunnskóla til sveitarfélaga. Fsp. gengur út á það hvaða skoðun ráðherra hafi á þeim tilflutningi.
    Hefði hæstv. menntmrh. svarað þeirri fsp. eins og hæstv. dómsmrh., þá hefði hann sagt: Málið er í athugun.
    Í öðru lagi er á dagskrá fundarins fsp. um Námsgagnastofnun þar sem spurt er: ,,Hvernig stendur á því að fé til Námsgagnastofnunar er skorið niður meira en til annarra stofnana?`` Þá hefði hæstv. menntmrh. getað komið í stólinn og svarað ef hann hefði farið í fótspor dómsmrh. og sagt: Af því bara.
    Í þriðja lagi er spurt um menntamálaráð, hvernig stendur á því að ekki hafi verið lagt fram frv. um menntamálaráð. Hæstv. menntmrh. hefði þá svarað ef hann hefði farið í fótspor dómsmrh.: Frv. um menntamálaráð verður lagt fram næstu daga. Málið er í athugun.
    Með öðrum orðum, ef hæstv. ráðherrar komast upp með að haga sér eins og hæstv. dómsmrh. gerði hér áðan þá er verið að eyðileggja fyrirspurnatímann. Því er alveg óhjákvæmilegt að forsetarnir taki á þessu máli alveg sérstaklega eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. benti áðan á.