Fjárlög 1993

78. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 21:06:22 (3295)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Núv. ríkisstjórn fór af stað eftir góðan árangur í kosningum við gífurlegan stuðning fjölmiðla þessa lands og má segja að engin ríkisstjórn á seinni árum hafi siglt annan eins óskabyr í fjölmiðlum eins og sú sem nú tók við. Það er því umhugsunarefni þegar maður kynnist því hvaða umsögn annað af tveimur dagblöðum þessa lands veitir þeirri vinnu sem hv. fjárln. hefur verið að sinna að undanförnu. Ég hygg að mjög há prósenta af starfsliði Dagblaðsins hafi kosið þá ríkisstjórn sem nú fer með völd í þessu landi. Það vita allir að mesti gáfumaðurinn á því blaði hefur af einstakri hógværð skrifað að staðaldri undir dulnefninu Dagfari í blaðið. Og ég held að það sé óhjákvæmilegt fyrir Alþingi Íslendinga að átta sig á því hvað þessi aðdáandi núv. ríkisstjórnar, sem hefur tekið að sér að skrifa í þetta blað, fræða þjóðina um störf stjórnarinnar, hefur að segja um þá vinnu sem hér hefur verið lögð á borð. Með leyfi forseta vil ég lesa upp úr pistli dagsins, fimmtudagsins 10. des. 1992:
    ,,Niðurskurður á niðurskurði.
    Ekki er ríkisstjórnin fyrr búin að tilkynna niðurskurð á fjárlögum og ríkisútgjöldum en hún tilkynnir nýjan niðurskurð. Nú er sagt að enn vanti 2 milljarða kr. upp á að ná réttum halla á fjárlög og var þó ríkisstjórnin nýbúin að skera niður um 800 millj. til að komast niður í þann halla sem hún telur réttan.
    Þetta með hallann er sérmál. Eins og allir vita hafa ríkisstjórnir undanfarinn áratug gert tilraun til að afgreiða hallalaus fjárlög. Það hefur ekki tekist betur en svo að í hvert skipti, sem ríkisreikningar eru birtir, kemur í ljós að hallinn er verulegur og því meira sem sparað er því meira fer í ríkisreksturinn. Á endanum gáfust ríkisstjórnirnar upp við að afgreiða hallalaus fjárlög og hafa nú afgreitt fjárlög með halla sem eykst jafnskjótt og búið er að skera niður í hann.
    Núverandi ríkisstjórn hefur sem sagt ákveðið að hallinn sé í lagi, svo framarlega sem hann er réttur og hefur markið verið sett á 6 milljarða kr. halla á þeim fjárlögum sem gengið verður frá fyrir áramótin. Hvernig talan sex verður heilög í því sambandi er flestum hulin ráðgáta, enda víðs fjarri því að hallinn verði neins staðar í námunda við þá tölu. Samt hefur allt starf ríkisstjórnarinnar gengið út á það að halda sér við 6 milljarða í hallarekstur, enda virðist í sjálfu sér aukaatriði hvort það stenst, vegna þess að sparnaðurinn eykur sífellt á hallann þegar upp er staðið.
    Engu að síður hafa ráðherrar setið uppi með þennan halla og keppst við að koma sínum útgjöldum niður á það stig að hallinn standist. Mikil vinna var lögð í það í sumar að skera niður hjá einstökum ráðuneytum og þannig var frv. kynnt í haust að mikið afrek hefði verið unnið í niðurskurði.
    En svo komu efnahagsaðgerðir og aftur þurfti að skera og ákveðið að skera niður um 1.240 millj. Þann niðurskurð skáru þingflokkarnir niður í 800 millj. sem reyndist svo 500 millj. Ekki var fyrr búið að skera niður niðurskurðinn en í ljós kemur að enn þarf að skera niður af þeim niðurskurði sem búið var áður að skera niður. Nú þarf að skera niður um 2 milljarða í viðbót við þær 800 millj. sem búið var að ákveða eftir að búið var að ákveða að skera niður 1.240 millj. um 500 millj.
    Ef sömu hlutföll eru notuð má reikna með því að stjórnarflokkarnir fari í þennan niðurskurð og nái 1.200 millj. og eru þeir þá búnir að ná þeim 2 milljörðum sem síðustu kröfur eru uppi um, en þá er auðvitað eftir að skera niður þær 1.240 millj. sem áður höfðu verið skornar niður um 800 millj. niður í 500 millj. Með öðrum orðum, niðurskurðinn sem rétt nýbúið er að gera hefur farið í annan niðurskurð en þann niðurskurð sem upphaflega var búið að tilkynna og aftur verður að skera niður þær 800 millj. sem áður var búið að skera niður um 500 millj.
    Þetta er auðvitað þrælavinna þegar haft er í huga að því meir sem sparað er og skorið niður, því meir aukast ríkisútgjöldin og því meir þarf að skera niður. Stundum spyr maður sjálfan sig hvort nokkuð sé eftir af tekjum ríkisins og hvort nokkuð sé eftir til útgjalda eftir allan þennan niðurskurð. Hefur ríkisvaldið nokkur efni á því að verja peningum til eins eða neins þegar alltaf þarf að skera niður og hallinn er stöðugt að aukast og ekkert er afgangs fyrir það sem ríkisstjórnin vill gera við peningana sem ekki hafa verið skornir niður? Er eitthvað til að skera niður þegar niðurskurður á niðurskurð ofan hefur ekki annað í för með sér en að aftur þarf að grípa til niðurskurðar?
    Veslings þingmennirnir. Þeir eru ekki öfundsverðir. Sitja greyin og skera niður og skera niður niðurskurðinn til þess eins að fá nýjan niðurskurð til að kljást við sem er algjörlega óháður gamla niðurskurðinum. Og alltaf stækkar hallinn!``
    Þegar mesti gáfumaður Dagblaðsins hefur reynt að útskýra það fyrir þjóðinni með þessum hætti hvað unnið sé hér á Alþingi er þá von nema spurt sé að það hljóti að vera miklir afreksmenn sem sitja þessa dagana í fjárln. sem leysa þetta verk svo vel sé. Og satt best að segja skil ég það mætavel, eftir að hafa hlustað á þetta, hvers vegna Karl Steinar Guðnason hv. þm. telur vissara að lesa upp úr Barni náttúrunnar en snúa sér að því að útskýra það fyrir þingheimi hvað þeir hafi verið að gera að undanförnu.
    Barn náttúrunnar er í sjálfu sér merkileg bók en það athyglisverða við þetta er að í fyrra þegar hv. þm. hélt mikla ræðu á Alþingi Íslendinga þá vitnaði hann í allt annað rit og allt annan spámann en þennan Randver sem nú er orðin þjóðhetja okkar Íslendinga. Það er óhjákvæmilegt að fara yfir það hvaða spámanni hann hefur varpað fyrir róða og er hættur að trúa á og bera hann saman við þann spámann sem upp er tekinn og ákveðið hefur verið að leggja allt traust á. Hv. þm. Karl Steinar hafði þann spámann líka úr ritum Laxness.
    Ég hygg að það sé rétt og skylt að minna þingið og þjóðina á það hver þessi spámaður var af því að í inngangsorðum sinnar ræðu minnti hann á það hvert hefði verið markmiðið þó að hann minntist ekki á spámanninn. Með leyfi forseta vil ég lesa upp úr ræðu hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar sem hann flutti í fyrra og var boðskapurinn mikli þá:
    ,,Það fjárlagafrv., sem nú er til afgreiðslu, gerir ráð fyrir 3,7 milljarða kr. halla. Ef ekki hefði verið reynt af fremsta megni að draga úr þessum halla, ef ekkert hefði verið gert og óstöðvandi hungur hins sjálfvirka ríkiskerfis hefði verið satt og fyllstu óskum sinnt, þá hefði fjárlagahallinn orðið upp undir 20 milljarðar kr. Hins vegar má segja að í dag sé innbyggður rekstrarhalli hjá ríkissjóði á bilinu 8--10 milljarðar kr. sem er raunverulegur halli miðað við óbreytt rekstrarumhverfi.
    Ein af þekktari persónum íslenskra bókmennta er án efa hinn merkilegi snærisþjófur af Akranesi, Jón Hreggviðsson. Halldór Laxness lýsir lífsbaráttu Jóns í hinu ágæta verki, Íslandsklukkunni. Sagt er meðal annars frá hinum aðskiljanlegu raunum hans vegna meintra afbrota. Í svartholinu á Bessastöðum verður Ásbjörn Jóakimsson einn af samferðamönnum Jóns Hreggviðssonar. Í annálaðri tugthúsræðu sinni segir Ásbjörn við samfanga sinn, Jón Hreggviðsson, eitthvað á þessa leið:
    ,,Afturámóti mun íslenska þjóðin lifa um aldir ef hún lætur ekki undan hvað sem á dynur. Ég hef neitað að flytja kóngsins mann yfir Skerjafjörð, það er satt. Hvorki lifandi né dauður, sagði ég. Ég verð hýddur og það er gott. En ef ég hefði látið undan, þó ekki væri nema í þessu, og ef allir létu undan . . . fyrir pestinni og bólunni, létu undan fyrir kónginum og böðlinum, --- hvar mundi þetta fólk þá eiga heima?``
    Þannig lætur Halldór Laxness hinn staðfasta Ásbjörn Jóakimsson, hinn heita föðurlandsvin, predika yfir Jóni Hreggviðssyni mikilvægi þess að láta ekki undan hvað sem á dynur.
    Helsti vandi íslensku þjóðarinnar í ríkisfjármálum er ístöðuleysi þeirra sem með fjármunina hafa farið. Það hefur alltaf verið látið undan. Þegar eitthvað hefur vantað hafa bara verið slegin ný lán.``
    Þetta sagði formaður fjárln. og stóð hér í stólnum og auðvitað leit maður upp á sínum tíma. Það var kominn maður í formennsku sem ekki mundi láta undan, var staðfastur en ekki ístöðulaus, ákveðinn í að standa við markmiðin sem hann hafði sett fram í þessari ræðu. Það er ekki skrýtið þó að maður spyrji: Hver urðu svo örlögin af stefnunni stóru? Það er umhugsunarefni. Ég held nú samt að áður en við komum að þeim þætti sé rétt að víkja örlítið nánar að fleiri punktum í þessari makalausu ræðu sem flutt var í fyrra.
    ,,Af þessu gætu aðrir lært. Ár eftir ár hafa kröfur um útþenslu ríkiskerfisins aukist. Ár eftir ár hafa fjárlög verið þannig úr garði gerð að helst mætti ætla að þeir sem þau gerðu og samþykktu hefðu trúað því í alvöru að þeir ættu aðeins eftir eitt ár á þingi. Eða trúað því að eftir líðandi ár kæmi ekki annað ár. Ríkissjóður hefur átt sér fáa formælendur. Menn hafa horft fram hjá því að það er grundvallaratriði að ríkissjóður sé rekinn án halla. Ef það er ekki gert verkar það út um allt þjóðfélagið.
    Vaxtastigið verður hærra ef ríkissjóður veður eins og villidýr um bankakerfið. Það verkar síðan á heimilin í landinu og atvinnulífið. Það eyðileggur heimilin og tortímir fyrirtækjunum. Allir tapa.`` Þetta var það sem ekki átti að eiga sér stað. En hver er niðurstaðan? Við skulum enn fara yfir markmiðin sem sett voru fram í þessari sömu ræðu.
    ,,Meginmarkmið fjárlagafrv. fyrir árið 1992 eru``, sagði hv. formaður fjárln., Karl Steinar Guðnason:
    ,,Að lánsfjárþörf opinberra aðila verði minni en 24 milljarðar kr.`` Stóðst þetta? Þetta stóðst ekki. Lánsfjárþörfin fór í 28 milljarða. Hvað varð nú af hinum staðfasta tugthúslim á Bessastöðum sem var orðinn leiðtogi formanns fjárln.?
    ,,Að lánsfjárþörf ríkissjóðs verði minni en 1 milljarður kr.`` stendur hér. Ég held að þetta sé prentvilla, það hafi átt að vera 4 milljarðar. En hver varð hann í reynd? 11?
    Stóðst þá þetta: ,,Að rekstrarhalli ríkissjóðs verði um 4 milljarðar kr.`` Hann verður 9--10, að sagt er.
    ,,Að þessum markmiðum verði náð án þess að hækka skatta.``
    Á pappírunum er talað um að skattheimtan hafi verið svipuð, þ.e. hin beina skattheimta. En greiðslurnar, sem teknar voru í gegnum þjónustugjöldin og Hæstiréttur Dana hefur úrskurðað sem beina skatta í Danmörku, voru ekkert smáræði á þessu ári. Það sér þess vegna í hælana og iljarnar á hinum staðfasta tugthúslim úr tugthúsinu á Bessastöðum. Hann er yfirgefinn. Hann er ekki lengur hafður sem átrúnaðargoðið fyrir hv. formann fjárln. Þeir sem flytja ræðu eins og flutt var í fyrra eru nefnilega þeir sem telja að þeir lifi bara eitt ár og þurfi aldrei að standa frammi fyrir þeim veruleika að þurfa að gera grein fyrir vitleysunni sem þeir létu frá sér fara, enda er formaður fjárln. flúinn úr salnum og sennilega kominn á stað þar sem hann telur að betra sé að vera. ( Gripið fram í: Láttu kalla á hann.) Ekki tel ég rétt að vera að trufla hann.

Ég er ekki viss um að það henti honum að fara í ræðustól þessa stundina.
    En þetta er merkileg staða. Þetta er merkileg staða vegna þess að í þessari ræðu sem nú var flutt er kominn nýr fulltrúi úr bókmenntunum sem tekinn er upp sem fyrirmyndin og það er alveg vonlaust annað, herra forseti, en gera sér grein fyrir hver þessi fyrirmynd er. Hún er eftir Nóbelsskáldið Halldór Laxness, úr Barni náttúrunnar. Hinn nýi fulltrúi hinnar nýju fyrirmyndar er Randver. Ég hef nú reyndar ekki kynnst manni með þessu nafni en kannast þó dálítið við nafnið.
    Kaflinn heitir Vetur dáinna vona. ,,Randver var vesalingur, --- ,,andlega volaður`` maður í vissum skilningi.
    Hann var orðinn með öllu óþekkjanlegur frá því sem áður var.
    Stóra hakan, sem áður hafði verið í svo fallegu samræmi við aðra hluta andlitsins, sýndist nú alt of stór, og hún var að auki vaxin dökku, þéttu skeggi, sem virtist óhirt með öllu.``
    Þetta var nýja hetjan, nýja fyrirmyndin. Og bókin var Barn náttúrunnar, bernskuverk 17 ára unglings sem seinna átti eftir að vera Nóbelsskáld, vissulega. Það er sjálfsmorð í I. kafla, það er sjálfsmorð í næstseinasta kaflanum. En Randver, þriðji aðilinn sem var ástfanginn af barni náttúrunnar slapp við sjálfsmorð en engu að síður var hann farinn að hugleiða það líka. Það er kannski þetta sem blasir við í dag hjá átrúnaðarmönnum ríkisstjórnarinnar, hvort það sé vegurinn sem þarna blasir við. Fasteignasalinn sem kom frá Ameríku og leitaði að guði var svona grátt leikinn þegar leið á bókina.
    Ég veit ekki hvort það er svo. Tímanna tákn að við í svartasta skammdeginu þegar það hefur verið sagt að þunglyndið sæki meira að Íslendingum og því miður gerist það oft að menn kveðja þennan heim vegna þess að þeim sýnast öll sund lokuð þá er boðuð slík aðferð að velferðarkerfinu að þeir verða margir sem ekki ráða við það verkefni að halda sér ofan sjávar í þeim skilningi að sjá fyrir sér og sínum. En þeir sem nú fara með völd halda einhverra hluta vegna að íslensk löggjöf eigi sér hvorki fortíð né að hún sé byggð á einhverjum skyldum. Hún sé nánast hugdetta stjórnmálamanna sem hafi verið hér á undan þeim. En íslensk löggjöf á sér fortíð. Hún á sér annars vegar fortíð norrænnar menningar og hins vegar á hún sér fortíð þeirrar ákvörðunar þessarar þjóðar árið 1000 að taka upp kristna trú. Og nú þætti mér vænt um ef hv. þm. séra Gunnlaugur kæmi í salinn því að það er nú einu sinni svo að það hefur stundum borið á því að klerkastétt þessa lands hefur viljað siða okkur stjórnmálamennina til og veita okkur vissar ádrepur fyrir að við hugsum lítt um stefnu kristinnar kirkju þegar við setjumst að lagasmíð hér á Alþingi. En það er kannski nauðsyn að það komi fram að það hefur einnig oft og tíðum verið horft á það tafl og þess vegna m.a. var það velferðarkerfi byggt upp sem hér er.
    En við skulum víkja að þeim tveimur greinum stjórnarskrárinnar sem eru byggðar á því að kristni var lögtekin árið 1000, það er 70. og 71. gr. 70. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Sá skal eiga rétt á styrk úr almennum sjóði, sem eigi fær séð fyrir sér og sínum, og sé eigi öðrum skylt að framfæra hann, en þá skal hann vera skyldum þeim háður sem lög áskilja.``
    Hvað segir þetta? Þetta segir að náungakærleikurinn sem boðaður var í kristinni trú hefur náð inn til 70. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um það að Íslendingar beri ábyrgð hver á einum, beri ábyrgð á náunga sínum í þessu samfélagi. Úr sameiginlegum sjóðum beri að sjá til þess að þeir eigi möguleika til lífs eins og stórskáldið Einar Ben. sagði:
          Réttan skerf sinn og skammt
          á hvert skaparans barn
          allt frá vöggu að gröf.
    Halda menn að sumar þær aðgerðir sem hér hafa verið settar fram séu á þann veg að hægt sé að trúa því að menn muni ráða við þær? Ég vil nefna ýmis dæmi þar sem þrengt hefur verið að barnafjölskyldum þessa lands. Ég er sannfærður um að það stenst ekki. Það er vitað að þeir ýmsu aðilar í þessu samfélagi sem búa við miklar skyldur fyrir munu ekki rísa undir þeim skyldum sem við er bætt. Í þeim hópi eru m.a. þeir sem greiða meðlög með mörgum börnum.
    Það blasir við að skv. 70. gr. hafa menn eða þeirra félagasamtök aðeins eina leið. Hún er sú að stefna ríkinu. Það er að stefna ríkinu, ganga ekki fram eins og beiningamenn heldur stefna ríkinu til þess að láta það fé af höndum sem þarf til þess að 70. gr. sé fullnægt. Það stendur ekki til að fulltrúar framkvæmdarvaldsins, hvort sem þeir eru meðalkratar eða súperkratar, skammti þennan rétt. Hann er lögsækjanlegur. Það verður Hæstiréttur Íslands sem á að skera úr um hvaða greiðslur ber að inna af hendi. Þetta er alvara þess máls.
    Það er engin sérstaða sem háskólamenntaðir menn hafa til þess að mega lögsækja ríkið. Hitt blasir við að hver og einn sem einstaklingur getur það ekki. En samtök þeirra, hvort heldur það er verkalýðshreyfingin eða neytendasamtök í þessu landi, hljóta að meta það hvort það sé ekki einmitt leið laga sem beri að fara, hvort ekki beri að sækja þetta mál á grundvelli þeirrar íslensku siðmenningar sem setti 70. gr. og krafðist þess að við bærum ábyrgð hver á öðrum og það væri ekki sjálfsagt mál að menn yrðu úti í landinu.
    71. gr. er í sama anda, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hafi foreldrar eigi efni á að fræða sjálf börn sín eða séu börnin munaðarlaus og öreigar, er skylt að sjá þeim fyrir uppfræðingu og framfæri af almannafé.``
    Þetta þýðir að þær hugmyndir um að leggja nú á námsgjöld í annað sinn, skatt á unglinga í framhaldsskóla, er lögsækjanlegt á hendur ríkinu. Það er lögsækjanlegt að ríkið greiði sjálft þessi gjöld ef foreldrarnir hafa ekki efni á því að greiða þau. Svo einfalt er það mál. Hver er þá skilningur íslenskra laga á því hvað sé barn? Í tvennum íslenskum lögum er þetta atriði skilgreint. Annars vegar eru barnalögin sem tala um skil á milli unglings og barns við 16 ára aldur. Hins vegar eru lög um vernd barna og ungmenna sem tala um 16 ára aldurinn, en barnalögin tala aftur á móti um allt að 18 árum því að framfærsluskyldan nær til þess tíma.
    Svo standa menn hér og tala eins og hægt sé að rústa velferðarkerfið án þess að íslenska ríkið beri ábyrgð, án þess að hægt sé að lögsækja þá sem þannig starfa. Það er hægt að lögsækja menn eins og hv. 17. þm. Reykv. ef hann brýtur stjórnarskrána. Það er hægt að lögsækja hann af foreldrum sem ekki eiga möguleika á því að koma börnum sínum áfram í skóla. Og það er hægt að láta dæma þá til að greiða bætur. ( ÖS: Og mig sérstaklega.) Ekki mig sérstaklega, heyrist sagt utan úr salnum. ( ÖS: Og mig.) Og mig sérstaklega. Það er ögn karlmannlegri afstaða.
    Hér er ekki verið að tala um neitt sem þarf að koma mönnum á óvart. Hér er verið að tala um þá hluti sem menn unnu eið að að virða. Mér er ljóst að aðrar greinar stjórnarskrárinnar, eins og um eignarréttinn, kunna hv. þm. Sjálfstfl. betur margir hverjir. Sú grein á vissulega rétt á sér. En ég hélt að íslenski alþýðuflokkurinn hefði þekkingu á 70. gr. og 71. gr. en svo virðist ekki vera.
    Hvernig getur það gerst að þessi áhrif kristnitökunnar frá árinu 1000 skuli vera gleymd fulltrúa Alþfl. í fjárln.? Hvernig getur það gerst?
    Það er auðvelt að rétta við halla ríkissjóðs ef það er eina markmiðið. Það er auðvelt verk. En þau eru fleiri. Það er vandinn. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, mig undrar nánast hvernig það getur gerst að Jafnaðarmannaflokkur Íslands, sem hefur barið á öðrum stjórnmálaflokkum með kjörorðinu ,,Löglegt en siðlaust``, skuli nú ganga svo langt að það blasir við að það er bæði löglaust og siðlaust.
    Þá er rétt að snúa sér ögn að því að meta það hvað hæstv. fjmrh. hefur verið að boða þjóðinni. Hæstv. fjmrh. hefur nefnilega líka talað um þá nýju tíma þegar allt átti að vera gjörbreytt, þegar vorið átti að koma inn í íslensk efnahagsmál, þegar atvinnulífið átti að rísa úr öskustónni og skapa hagvöxt og nóg tækifæri fyrir vinnufúsar hendur. Hæstv. fjmrh. sagði svo í ræðu sinni í fyrra:
    ,,Það er auðvitað grundvallarbreyting á þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa fylgt hingað til. Aðeins þannig getum við hleypt lífi í efnahagslífið á nýjan leik. Besta leiðin til að skapa eðlileg rekstrarskilyrði er að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu. Þar leika gengisfesta og lág verðbólga lykilhlutverk. Jafnframt er þarft að stuðla að lækkun vaxta og lækkun skatta. Um nauðsyn þess að gengi krónunnar sé stöðugt og verðbólga hér á landi sé svipuð og í helstu viðskiptalöndum þarf naumast að fjölyrða. Mörg þau vandamál sem nú er við að glíma í efnahagsmálum má rekja til ákvarðana er teknar voru á tímum óðaverðbólgu liðinna ára. Gengisfellingar hafa engan veginn náð tilætluðum árangri enda hafa þær einungis frestað nauðsynlegri endurskipulagningu í atvinnulífinu. Opnun hagkerfisins og frjáls gjaldeyrisviðskipti eru mikilvægir liðir í því að koma í veg fyrir óraunhæfa gengisskráningu. Jafnframt er ljóst að varanlegur stöðugleiki í verðlagsmálum næst ekki nema með því að gengi íslensku krónunnar verði stöðugt. Það er í þessu samhengi sem ríkisstjórnin hæstv. hefur sett stefnuna á að tengja íslensku krónuna við evrópska myntkerfið.``
    Það er nú svo. Eru þeir búnir að þessu? Er hæstv. fjmrh. búinn að flytja tillöguna um að nú skuli tengja krónuna við evrópska myntkerfið? Hefur genginu verið haldið föstu? Hvorugt hefur gengið eftir.
    Þetta eru draumsýnir manna sem vita lítið um þann veruleika sem þeir lifa í. Það var hrein snilld að horfa á það atriði í breska þinginu þegar leiðtogi verkamanna las upp draumsýnina sem forsætisráðherra Breta hafði þar sem hann lýsti draumnum stóra um að breska pundið ætti að vera sterkasti gjaldmiðill Evrópu. Það var hlegið í breska þinginu að þeirri fáfræði sem hafði legið á bak við þá draumsýn.
    Ég hygg að það sé ráð að spyrja nú: Hvernig fóru þeir, sem tóku við vöruskiptajöfnuði í maí hagstæðum upp á 1,3 milljarða á sínum tíma og hlýddu á boðskap Verslunarráðsins um að fyrirtækin hefðu komið vel út 1990, að því á fyrstu dögum síns valdaferils að klúðra þessu öllu? Hvernig fóru þeir að því? Með því að stórhækka vextina í landinu með aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins. Þeir notuðu handaflið til að færa vextina upp.
    Það er ákaflega hljótt um yfirlýsinguna sem sett var af stað í umræðunum í fyrra. Menn munu að sjálfsögðu spyrja: Hvers vegna er sú umræða ekki tekin fyrst og fremst að ræða hér þær ræður sem þeir fluttu í haust, hæstv. fjmrh. og hv. formaður fjárln.? Vegna þess að deilan um þær ræður er deila um hluti sem eiga eftir að koma í ljós. Deilan um ræðurnar sem fluttar voru í fyrra er uppskeran af því sem þá var boðað og reyndist tómt rugl. Það er ekki trúverðugt að koma aftur ári síðar og boða með nýjum spámönnum í nýjum dýrðarljóma kenningar sem hafa hrunið svo gersamlega.
    Hvernig skyldi þeim ágæta dreng á Flateyri við Önundarfjörð, sem studdi þessa ríkisstjórn til valda, líða í þeirri stöðu að hafa þurft að selja frá sér togarann úr byggðarlaginu? Hvernig skyldi alþýðuflokksforingjanum í sama byggðarlagi hafa liðið þegar hann þurfti að semja það harðorða bréf sem hann sendi frá sér þegar honum var ljóst hvert komið var? Það vill svo til að ríkisstjórnin getur ekki kvartað undan því að á Vestfjörðum hafi hún ekki hlotið kjörfylgi. Hún hlaut svo sannarlega kjörfylgi á þessum stöðum. Hvernig skyldi Bolvíkingum verða við í dag?
    Ég hygg að þeir séu margir sem hugsa með sér: Ætli eitthvað sé til því sem dreift hefur verið til þingmanna sem upplýsingum um hvaða ráðherrar hafi reynslu af því að vera utan við ríkiskerfið? Og hæstv.

félmrh. sigldi hæstan byr. Það kemur nefnilega í ljós að þó að Sjálfstfl. hafi í gegnum tíðina oft verið talinn fulltrúi atvinnulífsins í landinu, þá hefur ráðherralið hans fyrst og fremst unnið sem ríkisstarfsmenn eða starfsmenn pólitískra flokka í gegnum lífið. Sumir hafa svo hreint borð að það er með ólíkindum eins og hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. sem hafa nánast ekki álpast út fyrir hringinn, ekki komið nálægt einkaframtakinu á sínum ferli. Það segir kannski dálítið um það hvers vegna þeim finnst það ekki skipta neinu máli hvert stefnir.
    Svo spyr maður sjálfan sig í öllu þessu umróti: Þegar smáupphæðir fjárlaga eru strikaðar út eins og laun til hreppstjóra að manni skilst til þess að spara og hugmyndir eru settar fram um að hægt sé að fá miklu kröfuharðara lið í kauplegu tilliti til þess að taka við. Dýralæknar, lögregla og fleiri og fleiri eiga að taka við þessum störfum. Eitt af þeim störfum sem þeir hafa sinnt er skylduskráning á íslensk skip. Ég hygg að þeir hafi verið vaktir upp til þeirra starfa oft á tíðum. Niðurstaðan blasir aftur á móti við. Ef þetta verk er unnið af öðrum má búast við miklum greiðslum.
    Ég er þeirrar skoðunar að þessi níu hundruð alda gamla hefð að hafa hreppstjóra í landinu sé kannski eitt af því örfáa sem má líkja við þegnskylduvinnu að hluta til. --- Og er nú hv. 17. þm. Reykv. búinn að ná árangri í sinni snyrtimennsku hér í salnum. Þeir trúa því margir og m.a. hv. 17. þm. Reykv. að það sé stór áfangi að leggja niður þessi embætti. Af því að hæstv. forseti þingsins, veit ég, hefur komið á eyna Mön og kynnt sér það hvernig það litla eyríki viðheldur sínum menningararfi t.d. með því að lögsögumenn segja upp lög þingsins einu sinni á ári þannig að almenningur geti í heyranda hljóði hlýtt á það hvað samþykkt var, þá hygg ég að það sé umhugsunarefni fyrir hæstv. forseta hvað vinnst með því að ganga þannig um í skipulagi í landinu að einhvern tíma þurfi að setja sérstakar skýringar í orðabók þegar kvæði Jónasar verður kynnt ,, . . .  og hleypur þegar hreppstjórinn finnur hana á förnum vegi.``
    Nú er ég úr því strjálbýli þar sem löggæsla hefur löngum verið af mjög skornum skammti, svo skornum skammti að sýslumaður og merkur stjórnmálamaður tapaði nánast ærunni vegna þess að ekki var fylgt eftir réttum formsatriðum við mannslát. Ég spyr þess vegna sjálfan mig: Er það hin nýja stefna að þurrka út það lið sem þó er enn hægt að kalla út ef mikið liggur við og hefur leyfi til að kveðja með sér menn til aðstoðar? Það var að mínu viti verulegt umhugsunarefni hver staða lögreglunnar í Borgarnesi hefði orðið ef alvarlegir atburðir hefðu gerst á Húsafelli í sumar þegar þar var beðið um aðstoð en neitað var. Hins vegar bað hreppstjórinn um aðstoð og kannski var það á þeirri forsendu sem hægt var að neita og segja einfaldlega: Þú verður að kveðja þér út lið ef með þarf. En hver er staðan?
    Ég geri mér fulla grein fyrir því að þeir eru til sem í barnslegri einfeldni sinni trúa því að þeir spari peninga með því að þurrka þetta út. Hins vegar veit ég að það eru starfandi hreppstjórar á Vestfjörðum í dag sem hafa handtekið menn sem hafa staðið að ódæðisverkum á höfuðborgarsvæðinu. Þeir hafa einfaldlega þurft að handtaka þá hvort sem þeir höfðu áhuga á því eða ekki. Skyldan bauð svo.
    Ég hef trú á því að þeim ráðherrum Alþfl., sem helst hafa reynt að verja stefnu jafnaðarmanna, sé svo komið að nokkur hætta sé á því að samráðherrar í ríkisstjórn telji heppilegast að viðkomandi ráðherra fari að láta af störfum. Það er ærið umhugsunarefni á þessum tímum að þegar rokið hefur verið af stað með óraunhæfar niðurskurðarhugmyndir hefur fyrst og fremst verið einhver viðspyrna í félmrn. Það er mikið umhugsunarefni sem kom fram hjá fyrrv. heilbrrh., hv. 9. þm. Reykv., að heilbrigðismálin hefðu engan ráðherra ( Heilbrrh.: Hann er kominn.) sem teldi það í sínum verkahring að verja heilbrigðisþjónustuna. Öll þjóðin veit að við höfum heilbrrh. sem lítur á það sem sitt verk fyrst og fremst að skera þar niður. Sá ráðherra gengur um með bros á vör hvar sem við hittum hann.
    Þessi staða leiðir hugann að því hvort það séu ekki hinir ábyrgu ráðherrar sem hafa komið af stað þessari kreppu í samfélaginu, aukið kreppuna með undraverðum hraða og segja svo: Við verðum að skera niður, við verðum að skera niður, við verðum að skera niður.
    Herra forseti. Nú er nauðsyn að víkja örlítið vestur yfir haf til þess tíma þegar Roosevelt tók við í Bandaríkjunum vegna þess að þá geisaði heimskreppa. Þá höfðu allir niðurskurðarsérfræðingar Vesturlanda, allt íhaldsliðið eins og það lagði sig, lagst á eina sveif og boðað að nú skyldi skorið niður alls staðar, alls staðar sparað og afleiðingarnar blöstu við. Það varð samdráttur í allri heimsbyggðinni og viðskiptalífið var að stöðvast. Þá tók við völdum í Bandaríkjunum forseti, Roosevelt að nafni, sem sneri taflinu við. Hann ákvað að hefja stórkostleg ríkisafskipti í þessu landi kapítalismans til þess að koma hjólunum af stað á nýjan leik. Og ríkisafskiptin dugðu ekki aðeins til að koma hjólunum af stað í Bandaríkjunum á nýjan leik heldur öllum hinum vestræna heimi og heimsviðskiptin blómstruðu. Í Evrópu, höfuðstöðvum kaupauðgistefnunnar, Frakklandi, þar sem boðað var að einokun væri það sem skipti öllu máli og fjármálaráðherra Frakka á sínum tíma, Colbert, náði miklum árangri í kaupauðgistefnunni í því að verja ýmsan iðnað sem seinna átti eftir að blómgast í Frakklandi, t.d. tískuiðnaðinn. Enn þann dag í dag boðar Evrópa nákvæmlega það sama. Enn þann dag í dag boðar hún einangrunarstefnu. Enn þann dag í dag boðar hún að tolla beri hráefnið. Enn þann dag í dag boðar hún að halda beri sem flestum í þeirri stöðu að sitja við það eitt að frumvinna sem minnst af hráefnunum og senda þau nánast óunnin úr landi inn á iðnaðarsvæði heimsins.
    En tímarnir eru breyttir. Evrópa gegnir engu forustuhlutverki í dag sem iðnaðarríki. Japan er komið lengra með sína iðnaðarframleiðslu og í Bandaríkjunum eru þeir hlutir að gerast nú að bílaframleiðendur Bandaríkjanna geta framleitt bíla með færri vinnustundum en japanski bílaiðnaðurinn. Eftir forsetakosningarnar,

þrátt fyrir það að Clinton hefur ekki enn tekið við, hefur bílasala í Bandaríkjunum stóraukist og það er útlit fyrir vor í Bandaríkjunum. Á sama tíma og þetta gerist er íslenska ríkisstjórnin á fullu að reyna að þrýsta okkur inn í hina gömlu Evrópu úreltra sjónarmiða og þar með að festa okkur í því viðskiptastríði sem blasir við.
    Mér er spurn: Það skyldi þó ekki vera að lýsing Dagblaðsins á vinnubrögðunum sé hárrétt? Lýsingin sem Dagfari gefur á því hvað verið sé að gera sé svo hárrétt að þegar hún er sögð á jafneinfaldan hátt og þar er gert, þá sé allur sannleikurinn sagður um vinnubrögðin. Það er nefnilega staðreynd að hér á landi hefur það verið bannorð að skipta sér af atvinnulífinu, að reyna að efla það og ná þar árangri. Aðeins örfáar hugmyndir eru uppi um það að á Suðurnesjum þurfi að leggja opinbert fé í atvinnulífið.
    Forseti Alþýðusambands Vestfjarða talar um að þar verði nú að stofna bæjarútgerðir með aðstoð lífeyrissjóðsins fyrir vestan og sveitarfélaganna. Og hann fer ekki virðulegum orðum um einkaframtakið og getu þess til að leysa málin vegna þess að ríkisvaldið hefur ekki skapað þau skilyrði sem þarf til þess að atvinnulífið geti rétt úr kútnum og blómstrað. Það hefur ekki séð til þess að vextir á Íslandi yrðu eðlilegir þrátt fyrir að verðbólgan fór niður og þess vegna er útlit fyrir að við missum hana af stað á nýjan leik.
    Ég veit ekki hvað á að segja um yfirlýsingar núv. ríkisstjórnar um að efnahagsaðgerðirnar núna muni duga. Auðvitað verður litið á það eins og hvert annað rugl ef ég ætla á þessari stundu að segja fyrir um það hvað verður í þeim efnum. Hitt blasir við að íslenska þjóðin trúir því ekki að þær muni duga. Það vill svo til að við höfum félagsvísindadeild við háskólann sem gerir skoðanakannanir og samkvæmt nýrri skoðanakönnun þar um blasir það við að hún hefur enga trú á því að þessar efnahagsaðgerðir muni duga.
    Ég ætla að bæta við: Ef það er satt að á 90 fyrstu dögunum komi það í ljós í Bandaríkjunum hvernig hver forseti sem þar tekur við á eftir að reynast er þá ekki kominn tími á það hvernig þessi ríkisstjórn reynist? Ég hygg nefnilega að þeir séu orðnir margir landsbyggðarþingmennirnir sem hugsa sem svo: Hvað á ég að horfa upp á mikið hrun í minni heimabyggð áður en ég tel nauðsynlegt að snúast gegn þessari ríkisstjórn? Hvað á ég að horfa upp á mikið hrun?
    Núv. ríkisstjórn er enn brött og ég vil vitna í það sem hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni við 1. umr. af því að í ljós hefur komið að sumt stenst ekki tímans tönn, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Núverandi ríkisstjórn markaði þegar í upphafi ferils síns nýja stefnu í efnahagsmálum --- stefnu sem hafnaði gömlu aðferðunum; gengisfellingum, óhóflegri sjóðafyrirgreiðslu, skattahækkunum og stórfelldum ríkisafskiptum sem ætlað var að leysa hvers manns vanda. Þess í stað er lögð áhersla á að draga úr ríkisafskiptum, auka frjálsræði í viðskiptum og tryggja stöðugleika með föstu gengi og lágri verðbólgu.
    Ég er sannfærður um að þetta er besta og jafnvel eina færa leiðin til þess að fá hjól atvinnulífsins til þess að snúast á nýjan leik. Aðeins þannig getum við skapað ný atvinnutækifæri, ný störf og þar með dregið úr því atvinnuleysi sem því miður hefur farið vaxandi. En til þess að geta tekist á við erfiðleikana þurfa menn að vita hvar ræturnar liggja. Mig langar þess vegna að fara nokkrum orðum um þann þátt.
    Við Íslendingar höfum þurft að búa við langvarandi tímabil efnahagsstöðnunar og samdráttar eða allt frá árinu 1987. Þar skiptir minnkandi afli og erfiðleikar í sjávarútvegi að sjálfsögðu miklu máli. Auk þess hefur í mörgum mikilvægum viðskiptalöndum okkar gætt samdráttar sem ekki sér enn fyrir endann á. Þá er ekki síður alvarlegt að ýmsar aðrar atvinnugreinar, jafnvel útflutningsgreinar sem aðrar, hafa átt erfitt uppdráttar. Uggvænlegast er þó að þessari þróun hefur fylgt meira atvinnuleysi en hér hefur þekkst um áratuga skeið.
    Það er hins vegar rétt að hafa í huga að efnahagssamdráttur og vaxandi atvinnuleysi eru vandamál sem fleiri hafa þurft að kljást við en Íslendingar. Ýmsar af okkar nágrannaþjóðum hafa jafnvel gengið í gegnum enn meiri þrengingar en við.``
    Hvað með gengisfestuna? Var ekki gengið fellt? Ráðherrann sem talaði svo við 1. umr. fjárlaga vitandi um hina veiku stöðu íslensku krónunnar. Var hann að blekkja þingið með því að tala á þann veg sem hann talaði? Eða var það enn óraunsæ sýn sem neyddi hann til þess að tala á þennan hátt? Var það svo?
    Nei, það er merkilegur hlutur að menn skuli vera svo skammsýnir að láta annað eins fjúka og þurfa svo að kokgleypa það örlítið seinna. Svo kemur lýsingin, bjartsýnisspáin mikla, seinna í ræðunni, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á þessu ári eru horfur á að hallinn á ríkissjóði verði talsvert minni en í fyrra. Enda þótt okkur takist ekki að ná markmiðum fjárlaga þokast tvímælalaust í rétta átt. Við settum okkur í upphafi það markmið að minnka hallann um helming milli ára. Hins vegar reyndist hallinn í fyrra miklu meiri en við gerðum ráð fyrir auk þess sem ytri aðstæður hafa verið okkur andsnúnar.
    Eitt af meginmarkmiðum fjárlaga ársins 1992 var að draga úr lánsfjárþörf opinberra aðila. Það hefur gengið eftir.`` --- Markmiðið var 24 milljarðar en fór í 28 milljarða. Hann segir svo hér áfram: ,,Lántökur hins opinbera lækka úr 40 milljörðum kr. árið 1991 í 28 milljarða 1992 og verða þannig um þriðjungi lægri en í fyrra.
    Þessi árangur er farinn að skila sér í lægri vöxtum á innlendum markaði.`` --- Það er nú aldeilis að vextirnir séu á niðurleið. Hvað með Íslandsbanka, óskabarn hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh.? ,,Á síðustu mánuðum hafa raunvextir á verðtryggðum skuldabréfum þokast niður á við og sama gildir um vexti á óverðtryggðum skammtímabréfum. Þannig eru raunvextir á spariskírteinum ríkissjóðs nú 1% lægri en þeir voru fyrir gerð kjarasamninganna í vor og raunvextir á óverðtryggðum útlánum hafa lækkað enn meira.``

    Hæstv. ráðherra neitar að horfast í augu við þá staðreynd að íslenska bankakerfð hefur ekki séð sér fært miðað við það hvernig að atvinnulífinu er búið í landinu að lækka vextina vegna þess að gjaldþrotaskriðan er svo hröð að þeir verða að moka stöðugt stærri og stærri fjárhæðum í afskriftasjóði.
    Herra forseti. Ábyrgð þeirra manna er mikil sem líta nánast á það sem verk sem allt í lagi sé að hafa með öðru verki að stýra landinu. Hún er mikil ábyrgð þeirra manna sem í dag með blekkingum reyna að koma því inn hjá þjóðinni að þeir hafi einhveru afrekað. Það mikið umhugsunarefni að valdatakan var líka fengin með blekkingum sem leiðir til þess að í Alþfl. vegur nánast salt hvort meiri hluti kjósendanna sem studdi flokkinn styður stjórnina eða ekki. 52% styðja stjórnina, 48% styðja hana ekki.
    Í Sjálfstfl. fer ólgan vaxandi með hverjum degi. Það væru merkilegir fundir ef þeir birtust í sjónvarpi, orrustufundirnir sem nú eru háðir í flokksherbergi Sjálfstfl. og fjalla um það hvort ríkið ætli hreinlega að stela fyrirtæki sem þeir hafa sumir hverjir litið á að ríkið ætti ekki. Þar á ég við Samábyrgð Íslands. Það er merkileg staða þegar einn af forsetum þingsins efast um að ríkið eigi eign sem ríkið ætlar að selja. Það er umhugsunarefni hvar við stöndum. Svo hratt eru trippin rekin að það er ekki einu sinni beðið eftir því að á lögformlegan hátt sé gengið frá slíkum málum áður en þau eru flutt á Alþingi.
    Ég verð að segja eins og er að ég hef þá trú að deilurnar sem nú magnast upp með hverjum deginum sem líður annars vegar innan Alþfl. og hins vegar innan Sjálfstfl. eigi eftir að ryðja úr forustusveit þessara flokka þeim mönnum sem þar standa nú. Ég er ekki búinn að sjá það að íslenska þjóðin gleymi því slagorði sem núv. formaður Alþfl. setti fram um karlinn í brúnni sem ætti að fara frá ef hann ekki fiskaði. Ég er ekki búinn að sjá það heldur að það viðtal sem hæstv. forsrh. lét hafa eftir sér í Mannlífi, og féll þar í sömu gildruna og forverar hans í forustusveit stjórnmálaflokka hafa fallið í að segja hluti um sína samstarfsmenn sem betur væru ósagðir, verði til þess að rækta kærleikann hjá þessum stjórnmálaflokkum.
    Það er merkileg staða í ríkisstjórninni að þegar forsrh. þarf á atkvæðamagni að halda, þá eru það fyrst og fremst alþýðuflokksráðherrarnir sem styðja hann. --- Og gerist nú hæstv. heilbrrh. svo hógvær að hann sest í sæti óbreytts þingmanns til að máta það svo að honum verði ekki jafnmikið um ef hann skyldi tapa ráðherrastólnum á næstunni.