Fjárlög 1993

78. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 23:58:02 (3301)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er aðeins í sambandi við skólagjöldin í framhaldsskólum. Ég hef skilið það svo að ætlunin væri og gert ráð fyrir því í frv. að innheimta til almenns rekstrar skóla 3 þús. kr. af hverjum nemanda. Ég hygg að þessi heildarinnheimta sé vafalaust eitthvað misjöfn eftir skólum en hér mun vera um að ræða 3 þús. kr. af hverjum nemanda til almenns rekstrar. Ég er sammála hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur um að það að innheimta peninga af nemendum til almenns rekstrar eru ný tíðindi og kaflaskil. Það er brotið í blað eins og hv. þm. sagði. Ég er auk þess þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að það sé í raun og veru ekki í samræmi við gildandi lög að innheimta skólagjöld með þessum hætti því að í lögum um framhaldsskóla segir að ríkið borgi rekstrarkostnað framhaldsskóla, laun og annan slíkan fastan kostnað, ef ég man orðalagið rétt.
    Ég tel að með þessari tillögu í fjárlagafrv. sé þess vegna gengið á svig við lögin í fyrsta lagi. Í öðru lagi tel ég að tillagan í fjárlagafrv. brjóti í bága við niðurstöður síðasta Alþingis og Alþfl. alveg sérstaklega vegna þess að Alþfl. beitti sér fyrir því, ef ég man rétt, milli 2. og 3. umr. í fyrra að skólagjöld færu út af framhaldsskólunum og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hrósaði sér af því afreki að hafa losað framhaldsskólanema við þessi skólagjöld þá. Nú er farið bakdyramegin að hlutunum. Hér leggur hæstv. ráðherra til að skólagjöld verði innheimt. Ég tel það ekki standast lög og ég tel að með þessu sé Alþfl. að ganga á svig við þau fyrirheit sem hv. formaður þingflokks Alþfl. lét frá sér fara á síðasta þingi og hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson.
    Það er þess vegna alveg nauðsynlegt að þingmenn Alþfl. geri grein fyrir því síðar í þessum umræðum hvernig stendur á því að þeir eru núna að flytja tillögur um skólagjöld í framhaldsskólum en það er það sem verið er að gera. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort það er ekki rétt skilið hjá mér, eru þetta ekki 3 þús. kr. af hverjum nemanda sem eiga að ganga til almenns rekstrar?