Fjárlög 1993

78. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 00:48:57 (3308)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Til að spara tíma ætla ég að reyna að ljúka mínu máli í andsvari. Samstarfsnefnd menntmrn. og Háskóla Íslands er starfandi og þar eru þessi mál auðvitað rædd. Auk þess nefni ég að þróunarnefnd hefur hafið störf. Ég skipaði hana sl. vor en hún horfir til lengri tíma heldur en þeirra vandamála sem verið er að glíma við einmitt nú í dag.
    Varðandi þau orð mín að háskólinn hefði meira fé til umráða samkvæmt frv. en hann hefði áður haft þá á ég þar að sjálfsögðu við að skólagjöldin eru meðtalin og það er einnig talið með í brtt. sem þegar hafa komið fram í fjárln. eins og t.d. aukning til vinnumatssjóðsins um 30 millj. kr. Þannig fæ ég út úr þessu

hærri tölu en reikningurinn 1991 segir.
    Varðandi 300 millj. sem hv. þm. talaði um og vildi færa til menntmrn. þá felur þessi uppsetning í fjárlagafrv. að sjálfsögðu ekki í sér neina breytingu á því að rannsóknir heyra undir menntmrn. Það liggur fyrir tillaga hjá ríkisstjórninni frá nefnd sem hefur raunar lagt þá tillögu fram um að 300 millj. kr. af sölu ríkisfyrirtækja verði til reiðu á næsta ári til rannsókna og að af þeim fari 200 millj. kr. til Vísindasjóðs og verði þar til framtíðarinnar en 100 millj. til Rannsóknasjóðs Rannsóknaráðs og verði skipt eftir ákveðinni tillögu sem ég hef ekki tíma til að fara nánar út í hér. Ég er tilbúinn að athuga milli umræðna tillögu um táknmálstúlkunina en ég veit ekki betur en það mál hafi verið leyst eins og ég hygg að ég hafi skýrt frá hér í fyrirspurnatíma á þingi fyrir nokkru.
    Varðandi tillöguna um farskóla Kennaraháskólans vil ég aðeins segja að það mál er enn til sérstakrar athugunar hjá fjárln. og ég hef mikinn hug á því að reyna að greiða þar frekar úr heldur en hægt var með þessari fjárveitingu vegna þess að umsóknir komu frá 200 kennurum en háskólinn treysti sér eingöngu til þess að taka við 55 eða 56 og það er til athugunar að reyna að greiða þar frekar úr. Hann telur sig geta tekið við 20 til viðbótar.
    Varðandi grunnskólafrv. viðurkenni ég að það er allt of seint fram komið, því miður.