Almannatryggingar

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 13:31:21 (3367)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það hafa þegar orðið allmiklar umræður um þetta frv. sem hér liggur fyrir, enda full ástæða til og ekki kæmi mér á óvart þó að ýmislegt væri ósagt enn í þessu mikla máli.
    Ég vil fyrst víkja að frv. almennum orðum og setja fram nokkra gagnrýni á frv. og búning þess. Það sem mér þykir verulega á skorta til þess að þingmenn sem eiga um málið að fjalla geti gert sér grein fyrir áhrifum efnisins er að tekið sé saman hver eru fjárhagsleg áhrif af þessu frv. Það hefur því miður brugðist í seinni tíð að svo sé gert og minnist ég á frv. sem hér var rætt fyrir fáum dögum um tekjustofna sveitarfélaga þar sem engin grein var gerð fyrir fjárhagslegum áhrifum málsins.
    Í þessu frv. sem nú er til umræðu er engin tilraun gerð til þess að meta fjárhagsleg áhrif einstakra breytinga. Þvert á móti hefur það fremur komið fram í svörum hæstv. ráðherra að hann neitar að gefa upp forsendur sem eru nauðsynlegar til að reikna út hvernig áhrifin verða af einstökum breytingum fyrir ríkissjóð og fyrir þá aðra sem í hlut eiga. Ég tel frumvarpssmíði af þessu tagi þar sem menn eru vísvitandi að leyna þingheim upplýsingum sem eru nauðsynlegar til að geta metið áhrif frv. vera nánast fyrir neðan allar hellur, sérstaklega þegar um er að ræða svo stórt og margbrotið mál sem þetta að menn skuli ekki skilmerkilega gera grein fyrir breytingunum eins og eðlilegt má telja að menn geri. Ég hef ekki vanist því þegar menn eru að gera breytingar, að taka ákvörðun um þær, að menn leggi þannig hönd á plóginn eða smíði frv. þannig að það sé frekar tilhneiging til þess að gera mönnum erfitt fyrir að átta sig á áhrifum frv. en hið gagnstæða. Ekki veit ég hvort þetta er nýr siður, hef ekki samanburð á því, en altént er þetta alveg ótækt að mínu mati.
    Umræður um frv. hafa að vísu leitt nokkuð fram um fjárhagsleg áhrif, en það er fyrst og fremst vegna athugana einstakra ræðumanna sem hér hafa komið og reynt að gera sér grein fyrir málinu út frá þeim upplýsingum sem þeir hafa getað aflað sér annars staðar en finna má í frv. og fram hafa komið hjá hæstv. ráðherra.
    Eina heildstæða samantektin sem ég hef séð yfir efni þessa frv. er grein í Morgunblaðinu 8. des. sl. Ég gerði það að gamni mínu að leggja saman þær tölur sem þar koma fram sem eru eftirfarandi: Sparnaður vegna breytinga á tryggingabótum vegna feðra- og mæðralauna er áætlaður um 500 millj. kr. Sparnaður vegna tilvísanakerfisins 200 millj., sparnaður vegna breytinga á lyfjakostnaði, þ.e. fyrir ríkissjóð, 170 millj. og vegna tannlækninga 170 millj. Þetta gerir samtals 1.040 millj. kr. Enn fremur hefur verið upplýst í umræðum að ríkissjóður ætlar sér 174 millj. kr. með því að selja Samábyrgð Íslands. Þá eru samandregin áhrif frv. fyrir ríkissjóð 1.214 millj. kr., ýmist í formi minni útgjalda eða tekna af sölu hlutabréfa. Því er alveg ljóst að efni þessa frv. er geysilega áhrifamikið varðandi fjárhag fjölmargra í þjóðfélaginu. Að láta það ógert að útskýra skilmerkilega efni frv. eru ótæk vinnubrögð, virðulegur forseti.
    Annað sem ég hnýt um er að þetta frv. virðist hvað fyrri kaflann varðar vera meira og minna heimildafrumvarp, heimildir til ráðherra til þess að útfæra tilteknar greinar, ýmist í formi reglugerða eða beinum heimildum með gjaldskrá. Ég sé ekki í skýringum með frv. á hvern veg á að nýta þessar heimildir og ég hefði talið eðlilegt að ráðherra gerði grein fyrir því hvert meginatriði ætti að vera í þessum heimildaákvæðum. Ég nefni t.d. ákvæði í 2. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um greiðslu mæðra- og feðralauna. Þar er heimilt að tengja greiðslu bótanna við tekjur.``
    Þetta segir afskaplega lítið. Eins og þetta er útfært þarna virðist þetta veita ráðherranum nánast opna

heimild til þess að setja nánari ákvæði um þessi mæðra- og feðralaun eins og honum sýnist og engin fyrirmæli eru um það með hvaða hætti á að tekjutengja þessar bætur. Þetta tel ég að hv. þingnefnd ætti að taka til athugunar og breyta þessari grein þannig að það sé alveg skýrt í hvaða átt á að fara með þessar heimildir.
    Sama er t.d. að geta í 6. gr. en þar er í fyrsta staflið ákvæði um reglugerðarheimild um notkun tilvísana. Í 2. staflið er ákvæði um að ráðherra setji reglugerð um það gjald sem sjúkratryggður á að greiða af lyfjakostnaði og í 7. gr. er líka ákvæði um að ráðherra setji gjaldskrá um hlut sjúklings í tannlæknaþjónustu. Þetta tel ég vera allt of opnar heimildir. Ég tel að löggjafarþingið hafi það hlutverk að setja lögin og framkvæmdarvaldið að framkvæma og Alþingi verður því samkvæmt mínum skilningi að breyta þessum ákvæðum þannig að allar grundvallarákvarðanir verði teknar í lögunum en ekki framvísað til ráðherra. Ég ætla að vona að það sé skoðun sem er á undanhaldi í þjóðfélaginu að framvísa löggjafarvaldinu til ráðherra í formi opinnar lagasetningar.
    Ég vil nefna fáeinar tölur sem ég hef dregið saman úr þeim upplýsingum sem fram hafa komið í umræðum og í fjölmiðlum mönnum til fróðleiks. Komið fram að meðlagsgreiðendur eru 11.700 á landinu og greiða með 15.900 börnum. Hækkunin á hlut þeirra á að vera 3.749 kr. á mánuði sem þýðir 715 millj. 309 þús. á ári sem eru aukin útgjöld fyrir þá sem greiða meðlag. Ef við gefum okkur að til að sækja peninga, til að borga þessi auknu útgjöld, þurfi menn að vinna meira en þeir gera eða afla meiri tekna og þeir verði að greiða af þeim tekjum 41,35% tekjuskatt eins og lagt er til í skattafrv. ríkisstjórnarinnar að verði á næsta ári. Þá verða meðlagsgreiðendur að afla tekna upp á 1.219 millj. 623 þús. kr., 1 milljarð 219 millj. 623 þús. kr. Tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga í formi tekjuskatts af þessum 1.219 millj. kr. yrðu þá 504 millj. 314 þús. kr. Þó að ekki sé hægt að fullyrða um það á þessu stigi að þeir sem greiða meðlögin muni allir mæta hækkuninni með auknum tekjum, þá er alveg ljóst að einhverjir og kannski stærsti hlutinn mun gera það. Við getum fullyrt strax að þessi hækkun á meðlagsgreiðslum þýðir sjálfkrafa hækkun á tekjuskatti fyrir ríkissjóð. Hámarkstalan er 504 millj. Við vitum ekki hver hún verður en ef við gefum okkur t.d. að hækkunin verði sótt til helminga með auknum tekjum, til helminga að menn greiði af þeim tekjum sem þeir hafa nú þegar þá yrði tekjuskattsgróði ríkisins af þessari breytingu 252 millj. kr. Hvergi er gerð grein fyrir þessum tekjum í frv. ríkisstjórnarinnar, hvorki þessu né öðrum þannig að ég tel að þarna sé um að ræða dulda skattahækkun til ríkissjóðs. Þessu vildi ég koma á framfæri, virðulegi forseti, mönnum til fróðleiks og upplýsinga um þau áhrif sem hækkunin á meðlög hefur á fjárhag ríkissjóðs. Ég hef ekki heyrt að það hafi áður komið fram í umræðunni að ríkissjóður er með þessari breytingu ekki aðeins að leggja aukin útgjöld á meðlagsgreiðendur heldur jafnhliða að sækja sér auknar tekjur.
    Þá vil ég víkja, virðulegi forseti, að kaflanum um Samábyrgð Íslands. Ég vil láta í ljósi miklar efasemdir um það að ríkinu sé heimilt að ráðstafa þessu félagi eins og því sýnist. Ég tek ekki undir þá fullyrðingu hæstv. trmrh. sem var eitthvað á þessa leið: Það sem enginn á á ríkið. Það leiðir ekki sjálfkrafa af því að félag sé sjálfseignarstofnun eða ekki formlega í eigu neins aðila að ríkið geti slegið eign sinni á það félag.
    Ég nefni sem dæmi Brunabótafélag Íslands og það væri fróðlegt að heyra t.d. í hv. 1. þm. Vesturl., Sturlu Böðvarssyni, hvort hann væri sammála því að ríkið gæti tekið Brunabótafélag Íslands eignarnámi, breytt því í hlutafélag og selt það. Það er nákvæmlega sama aðgerð og gera á með Samábyrgð Íslands. Það eru nokkur atriði í lögunum um Samábyrgð Íslands sem staðfesta í fyrsta lagi að ríkið á ekki fyrirtækið. Fyrsta atriðið er í 3. gr. laganna um skipan stjórnar. Hún er þannig að ráðherra skipar einn mann en Landssamband ísl. útvegsmanna tvo. Bátaábyrgðarfélögin á landinu skipa síðan aðra tvo þannig að ráðherra skipar ekki nema einn af fimm stjórnarmönnum. Tveir koma frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og tveir koma frá vélbátaábyrgðarfélögunum um landið.
    Annað atriðið er valdsvið stjórnarinnar en skv. 4. gr. laganna hefur stjórnin fullt vald á ákvarðanatöku um þau mál sem undir félagið heyrir og þarf ekki að sækja neitt undir ráðherra um þær ákvarðanir.
    Þriðja atriðið er í 6. gr. laganna sem er um skipan og tilvist fulltrúafunda. Þar kemur fram að eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti eigi að boða til fundar með fulltrúum frá bátaábyrgðarfélögunum sem endurtryggja hjá Samábyrgðinni. Hvernig skyldi vera skipað á þennan fund fulltrúanna? Það er þannig að hvert bátaábyrgðarfélag skipar tvo menn. Formaður og framkvæmdastjóri hvers bátaábyrgðarfélags eru sjálfkjörnir en ef þeir koma ekki þá mæta einhverjir aðrir. Þá hefur stjórn Samábyrgðarinnar og framkvæmdastjóri rétt til að sitja fundinn en ráðherra skipar engan mann á fulltrúaráðsfundinn, eingöngu stjórn Samábyrgðarinnar og fulltrúar bátaábyrgðarfélaganna.
    Fjórða atriðið sem ég nefni er að Samábyrgðin hefur sjálfstæðan fjárhag og það er ekki Ríkisendurskoðun sem endurskoðar fjárreiður félagsins heldur er sérstakur löggiltur endurskoðandi sem ráðherra skipar fenginn til þess. Það er allt annað en að Ríkisendurskoðun væri með málið en ef þetta væri í opinberri eigu þá væri það auðvitað Ríkisendurskoðun sem mundi fara yfir þessi mál.
    Í fimmta lagi nefni ég sambandið eða tengslin á milli Samábyrgðar Íslands eða bátaábyrgðarfélaganna sbr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 18/1976, um vélbátaábyrgðarfélög, sem leiða það í ljós. Þau eru gagnkvæm. Bátaábyrgðarfélögin tilnefna í stjórn Samábyrgðar og Samábyrgð tilnefnir í stjórn bátaábyrgðarfélaganna.

    Öll þessi atriði undirstrika sjálfstæði félagsins gagnvart ríkinu þannig að það er óhrekjanlegt að fyrirtækið eða félagið er ekki í eigu ríkissjóðs. Ég ætla ekki að mótmæla því að Alþingi gæti sett lög um Samábyrgðina en í ljósi þessarar stöðu er löggjafarvald Alþingis í reynd takmarkað. Það er allsendis fráleitt að mínu viti að Alþingi geti sett lög sem leggur raunverulega eigur fyrirtækisins til ríkissjóðs. Það er hrein og klár eignaupptaka. Ég hef því mjög miklar efasemdir um að þessi kafli frv. sé framkvæmanlegur yfir höfuð og tel að þeir fyrirvarar sem menn hafa sett fram um þetta mál fyllilega eðlilega og menn hefðu jafnvel mátt taka sterkar til orða varðandi þá fyrirvara, en þetta er atriði sem ég tel að nefndin verði að skoða mjög gaumgæfilega, þ.e. hversu rúmt valdsvið Alþingis er til að setja lög varðandi Samábyrgð Íslands.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, vegna þess hversu harkalegt þetta frv. er eins og dregið hefur verið fram í umræðunum og samantekt á áhrif þess á fólk hefur leitt í ljós, aðeins draga fram eina staðreynd sem mér þykir nauðsynlegt að benda á vegna þess að forsenda þessara aðgerða er af hálfu ríkisstjórnarinnar hið erfiða efnahagsástand eða öllu heldur hallarekstur ríkissjóðs og mikil opinber útgjöld. Fróðlegt væri skoða hve ríkisútgjöld á Íslandi eru mikil borið saman við t.d. löndin innan OECD. Það gefur okkur ágæta vísbendingu um það hvort vandamálið sé fremur of mikil útgjöld eða of litlar tekjur, þ.e. of lítil skattheimta á þá sem geta borið hana.
    Í töflu, sem birtist í riti Bandalags starfsmanna ríkis og bæja fyrir skömmu, eru birt súlurit yfir útgjöld hins opinera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í 21 ríki. Þar kemur fram að þessi útgjöld eru allt frá því að vera tæplega 60% af vergri landsframleiðslu niður í 30%. Hæst eru þau í Danmörku, Svíþjóð, Hollandi, Írlandi, Noregi og Ítalíu en lægst í Ástralíu, Japan og Sviss. Ísland er í 17. sæti af þessu 21 ríki. Einungis fjórar þjóðir í þessum samanburði milli OECD-landanna eru með lægri útgjöld hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu en Ísland. Það gefur okkur góða vísbendingu um að velferðarkerfið á Íslandi er ekki ótrúlegt bákn og borið saman við hin löndin. Á þessari mynd verður ekki annað séð en velferðarkerfið hér á landi sé tiltölulega ódýrt eða minna í sniðum en í flestum þeim löndum sem þarna eru borin saman við Ísland þannig að ég er á þeirri skoðun að forsenda ríkisstjórnarinnar um mikil umsvif hins opinbera sé reist á sandi og þær miklu og hörðu aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til til að draga úr opinberum útgjöldum skapi verulega hættu á því að gengið verði svo nærri því sem við köllum velferðarkerfi að það láti undan eða brotni í höndunum á okkur. Ég tel að menn ættu að fara mjög varlega í breytingar á því, a.m.k. ættu menn ekki að fara á þessari hraðferð yfir velferðarkerfið eins og hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur gert undanfarin ár.