Almannatryggingar

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 17:04:23 (3384)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Það er spurning hvernig á að byrja ræðu um þetta frv. sem er til umræðu eftir þessa dæmisögu í lok ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar, en ég býst við að átökin við hæstv. heilbrrh. verði að fara fram með eitthvað öðrum hætti en lýst var í sögunni. Við munum auðvitað reyna að takast á hér í hv. þingi og í störfum okkar um þau mál og þau verk sem verið er að vinna, standa saman um það sem við teljum að sé til bóta, en við hljótum líka að gagnrýna það sem við teljum að sé gert rangt og reyna að fá það fellt eða fært til betri vegar.
    Ég ætla, hæstv. forseti, ekki að taka langan tíma í umræðu um frv. enda er það búið að vera til ítarlegrar umfjöllunar á þingfundi áður sem ég gat því miður ekki setið vegna anna í fjárln. Þá var verið að undirbúa frv. að fjárlögum 1993 til afgreiðslu eftir 2. umr. en ég veit að ítarleg umræða er búin að fara fram um þetta frv. Mig langaði að nefna eða vekja athygli á örfáum atriði sem og kannski að spyrja hæstv. ráðherra einnar eða tveggja spurninga.
    Í fyrsta lagi vil ég segja það að mér finnst þetta frv. vera mjög undarlega uppsett. Einhver hefði nú líklega kallað þetta hálfgerðan bastarð þar sem annars vegar er verið að breyta hér lögum um almannatryggingar sem er afar viðamikill og flókinn lagbálkur sem þarf að fara vandlega með og gæta að því þegar þeim lögum er breytt hvernig að er staðið, en í þetta frv. er hins vegar sett sem II. kafli ákvæði um að stofna hlutafélag um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum sem getur varla talist mjög tengd almannatryggingalöggjöfinni. Ég skil ekki forsendurnar fyrir því að hafa þetta í einu og sama frv. Kannski hefur komið fram á því skýring í umræðum áður af því að ég gat ekki hlýtt á framsöguræðu hæstv. heilbr.- og trmrh. að fyrir því séu einhver rök sem ekki liggja í augum uppi. Ég ætla þá ekki að gera frekar athugasemd við það en mér finnst þetta vera mjög undarlegt.
    Í öðru lagi finnst mér líka að þetta frv. sé ekki nægjanlega vel úr garði gert hvað varðar upplýsingar. Greinargerð er afar lítil. Athugasemdir við einstakar greinar eru að vísu nokkrar en greinargerðin sjálf, þar sem fjallað er um efnisinnihald frv. er 5 1 / 2 lína og engar úttektir eða upplýsingar um kostnað eða kostnaðaráhrif eða tölulegar upplýsingar um það hvað felst í raun í þessu frv. sem er þó ekkert lítið og er fullt af álögum á almenning í landinu.

    Ef þær upplýsingar eru réttar, sem komu hér fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns að heildarskattlagning sem felst í frv. sé 1,5 milljarðar, þá er það mál sem þarf að draga rækilega fram. Þá er það mál sem við verðum að fá upplýst hvort er virkilega rétt. Er verið með tiltölulega litlu frv. upp á tíu greinar, er varða breytingar á almannatryggingalöggjöfinni og sáralitla umfjöllun í grg., að skattleggja almenning eða velta álögum yfir á fólkið í landinu með breytingum á tryggingakerfinu? Auðvitað höfum við borgað þetta í gegnum tryggingakerfið með sköttum okkar á einn eða annan hátt, en nú á að velta þessu á þá einstaklinga sem þurfa að nota þessa þjónustu, þ.e. fólkið sem t.d. þarf að fara til tannlæknisins og aðra þá aðila sem hafa fengið greiðslur í gegnum tryggingakerfið upp á 1,5 milljarða kr. Ég sel þessa tölu eða upphæð ekki dýrar en ég keypti hana. Ég hef ekki farið yfir það svo eða reiknað það út, en mér finnst þetta með ólíkindum.
    Annað sem ég vil vekja athygli á í sambandi við breytingarnar hér á tannlæknaþjónustunni eða greininni sem fjallar um greiðslur almannatrygginga vegna tannlækninga er það að ég óttast mjög að það sem hér er lagt til muni hafa áhrif á forvarnastarfsemina varðandi það að koma í veg fyrir tannsjúkdóma. Við höfum því miður verið heldur illa sett hvað þetta varðar í samanburði við aðrar þjóðir í kringum okkur. Norðurlandaþjóðirnar hafa allar náð miklu betri tökum á tannhirðu og tannsjúkdómum en við höfum gert. Tannskemmdir í börnum hafa verið miklu meiri en við höfum verið að sækja okkur mjög hvað þetta varðar og ástandið hér hefur lagast mikið á nokkrum undanförnum árum.
    Nú sýnist mér því miður að það séu ýmsar blikur á lofti um það að þetta muni breytast aftur til verri vegar. Mig langar að spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. um það hvort honum finnist ekki að það sé nauðsynlegt að koma því svo fyrir að a.m.k. ein skoðun á ári sé ókeypis fyrir börn þannig að tryggt sé að öll skólabörn fari a.m.k. einu sinni á ári í skoðun hjá tannlækni og fái þá einhverja lágmarksþjónustu til þess að tryggja að þetta eftirlit og forvarnastarf falli ekki niður. Ég hef af þessu áhyggjur ef við erum að hverfa þarna mörg ár, kannski áratugi aftur í tímann. Þetta vildi ég biðja hæstv. ráðherra að skoða. E.t.v. hefur hann þegar velt þessu fyrir sér og á þá einhver svör við því hvað hér er á ferðinni.
    Þetta vildi ég segja um þessi efnisatriði, hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að fara ítarlega yfir aðrar greinar í frv. því ég veit að búið er að fjalla mikið um það. En þó má nefna það í sambandi við þessar álögur, sem lenda á notendum þessarar þjónustu, að þær breytingar sem er verið að gera á almannatryggingalöggjöfinni eru viðbót við fjölmargar aðrar skattálögur sem þessi hæstv. ríkisstjórn, sem nú situr, er að leggja á almenning þessa dagana.
    Í umræðum um fjárlagafrv. í gær, fjárlög fyrir næsta ár og reyndar í umræðum um ráðstafanir ríkisstjórnarinnar á undanförnum dögum hefur komið fram að þar eru ýmsir þættir sem eru ekki kallaðir skattálögur heldur er það t.d. hækkun á bensíngjaldi upp á litlar 350 millj. kr. sem eiga að renna í ríkissjóð. Það er auðvitað skattheimta á sinn hátt. Vaxtabótum á að breyta. Það á að spara fyrir ríkissjóð 500 millj. kr. Það á að lækka barnabæturnar um aðrar 500 millj. kr. Hér er nærri því einn og hálfur milljarður í viðbót. Þetta eru þrír milljarðar, bara þetta hérna, þannig að ég held að að væri ekki vanþörf á því að fá ítarlega upp settan lista yfir það hvað hér er á ferðinni í frumvörpum og aðgerðum ríkisstjórnarinnar í heild þannig að menn hafi yfir það góða yfirsýn.
    Þá langar mig aðeins að segja örfá orð um II. kafla í þessu ágæta frv. sem er um allt annað mál og fjallar um stofnun hlutafélags um tryggingafélag. Mér finnst að hér sé skörin farin að færast nokkuð upp í bekkinn. Ég hef út af fyrir sig ekki athugasemd við það þó að Samábyrgð Íslands á fiskiskipum sé breytt í hlutafélag. Það kann að vera að það séu fyrir því rök en þessi einkavæðing eða hvað á að kalla það, sem hæstv. ríkisstjórn stendur nú fyrir á öllum hlutum, er nú nánast eins og trúarbrögð. Það á ekki endilega við um þetta atriði sérstaklega, heldur allar þær breytingar sem verið er að gera og þá aðför að ýmsum ríkisstofnunum sem hafa staðið sig vel í að veita þá þjónustu og sinna þeim verkefnum sem þær hafa hingað til veitt. Þetta eru eins og trúarbrögð og komast ekki nokkur rök þar að og maður skilur ekki í raun tilganginn með því hvernig að málum er staðið.
    Það sem mig langaði að spyrja sérstaklega varðandi þetta mál hér er um ráðstöfun söluandvirðis Samábyrgðarinnar eða þessa nýja hlutafélags ef það tekst að gera það að hlutafélagi og síðan að selja það. Það virðist vera með nokkuð öðrum hætti varðandi fyrirtæki eða stofnanir sem eru á vegum heilbr.- og trmrn. en aðrar opinberar stofnanir sem verið er að selja eða breyta í hlutafélag sem síðar á að selja. Þar vil ég t.d. nefna að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að breyta þvottahúsi Ríkisspítalanna í hlutafélag og selja það síðan og tekjurnar af því eru sértekjur hjá Ríkisspítölunum, eiga að koma þar inn. Ef ekki tekst að selja þá á bara að skera niður þjónustuna við sjúklingana sem leita eftir henni á því sjúkrahúsi. En hér virðist vera eins að farið að það er hæstv. heilbrrh. sem hefur lýst því yfir að ef tekst að selja þetta hlutafélag, þá sé það hluti af sparnaðaraðgerðum í ráðuneyti hans. Þá velti ég því fyrir mér: Hvert á andvirðið að fara? Á það að fara til þess að reka einhverjar sjúkrastofnanir? Á það að fara í rekstur innan ráðuneytisins? Í fjárlagafrv. er ráðgert að afla tekna upp á 1,5 milljarða fyrir ýmis fyrirtæki og opinberar stofnanir sem á að selja á næsta ári. Ef einstakir fagráðherrar hafa þennan háttinn á eins og hæstv. heilbrrh. virðist ætla að gera hér að taka það fé, sem kemur fyrir stofnanir sem undir þá heyra, og setja það í rekstur viðkomandi ráðuneyta, þá spyr ég: Hvernig ætlar hæstv. fjmrh. að afla þessara 1.500 millj. sem hann ætlar að taka inn í tekjur fjárlagafrv. Hvaðan eiga þeir peningar að koma og hvaða stofnanir eru það ef það fer svo með hinar ýmsu stofnanir sem kunna að verða seldar að þær renna til reksturs annarra stofnana sem

undir ráðuneytin heyra? Mig langaði til þess að fá svar við því hjá hæstv. ráðherra hvernig hann hugsaði sér að ráðstafa þessu fé. Auðvitað má spyrja hvort það heyri ekki öllu frekar til sjávarútveginum hvort það fé eða þær eignir sem þarna hafa safnast saman, Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, ætti ekki fremur að ráðstafa á einhvern hátt í þágu sjávarútvegsins. Kannski mundu sumir segja að ekki mundi veita af að nýta fjármuni til þeirra þarfa þó að þeir geti ábyggilega nýst víðar, en það er dálítið merkilegt hvernig að þessu er staðið hér.
    Ég ætla að láta duga, hæstv. forseti, að nefna þessi atriði. Það var spurning til hæstv. ráðherra um tannlæknaþjónustuna og forvarnaverkefnin, sem ég óttast mjög að kunni að líða fyrir þær breytingar sem hér er verið að boða ef þær ná fram að ganga, og hitt atriðið var varðandi ráðstöfun á söluandvirði hins nýja hlutafélags sem hér á að stofna úr Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.