Almannatryggingar

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 17:31:12 (3387)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þm., sem hafa rætt þetta mál, því að auðvitað er alveg ljóst að ýmislegt í því lýtur að talsvert erfiðum ákvörðunum, sem menn þurfa að taka, og allt orkar tvímælis þá gert er. Því er það mjög eðlilegt að menn ræði þessi mál ítarlega og reyni að velta fyrir sér hvort hægt sé að finna einhverjar aðrar leiðir eða gera einhverjar þær breytingar sem geri það að verkum að það sem hér er lagt til geti e.t.v. náð tilgangi sínum þó með öðrum hætti væri.
    Ég vil reyna að svara nokkrum spurningum sem til mín hefur verið beint.
    Hv. 10. þm. Reykv., Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, ræddi nokkuð um þann kost annars vegar að fara þá leið, sem rædd hefur verið og tillaga gerð um, að vísu ekki í þessu frv. heldur í öðru um skerðingu á barnabótum og aukningu á barnabótaauka í því skyni að auka frekar aðstoðina við þá tekjulægstu en draga að sama skapi aðstoð við hina tekjuhærri. Hv. þm. ræddi um hvort ekki væri réttara að hækka skatta einfaldlega sem þessu svaraði í staðinn fyrir að framkvæma þetta svona gagnvart þessum sérstaka hópi. Auðvitað kemur það til álita. Auðvitað hefur það sína galla að miða réttindi í of miklum mæli við framtöl einstaklinga vegna þess að því miður er það ekki svo að alltaf sé hægt að setja jafnaðarmerki á milli þess hvernig tekjur eru taldar á skattframtölum og hvernig raunverulegar tekjur kunna að vera. Við vitum öll að tekjuskattskerfi okkar er á ýmsan hátt gallað, hvað svo sem menn hafa reynt að gera til þess að bæta það í gegnum árin, og tekjuframtöl sýna ekki alveg rétta mynd af raunverulegri tekjuskiptingu meðal þjóðarinnar. Ég held að mönnum sé það enn í fersku minni þegar sá hv. þm. sem nú gengur hér í sal, þáv. fjmrh., gerði tilraun til þess að nota tekjuskattskerfið eða framtalskerfið öllu heldur til þess að deila út stuðningi við þá tekjulægri á Íslandi. Niðurstaðan af því held ég að sé mönnum í fersku minni. Síðan hafa menn ekki lagt í það verk að nota tekjuskattsframtölin sem kerfi til þess að jafna tekjur með þeim hætti sem þá var gerð tilraun til.
    Auðvitað má halda því fram með talsvert miklum rökum að það sé með sama hætti mjög varasamt að leggja of mikla áherslu á að nota framtölin sem viðmiðunarkerfi um alls konar félagslega aðstoð, svo að ég er alveg sammála hv. þm., Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, um þá galla sem þarna eru á. Engu að síður tel ég rétt að menn skoði þá hugmynd sem ég hef áður varpað fram, menn reyni a.m.k. að átta

sig á því sem ég hef viðurkennt að ekki hefur verið gert nægilega vel á þeim skamma tíma sem við höfðum til stefnu við samningu þessa frv., að sjá a.m.k. hvaða nettóniðurstaða er af þeim breytingum sem verið er að gera annars vegar í 1. og 2. gr. þessa frv. og hins vegar í frv. til breytinga á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, hver eru nettóáhrif þeirra breytinga sem verið er að gera hvað varðar barnafjölskyldur. Það má vel vera að það sé niðurstaða sem sé eðlilegt að huga að að það kunni að vera betra að gera þá almenna skattalagabreytingu í staðinn fyrir að velja þessa leið. Allt eru þetta álitamál. Allar þessar leiðir hafa sína kosti og sína galla og hvorug þeirra er þannig að einsýnt sé að hana beri að fara umfram hina.
    Þá spurði hv. þm. einnig um fæðingarorlofið en eins og gengið var frá fæðingarorlofinu þegar fjárlagafrv. var lagt fram í október þá var gert ráð fyrir því að skerða greiðslur vegna fæðingarorlofs um allt að 200 millj. kr. Frá því hefur verið horfið þannig að þau áform hafa verið lækkuð úr 200 millj. í 50 millj. kr. Hv. þm. spurði hvað stæði á bak við þá tölu. Það er starfshópur sem er að vinna að úttekt á þessum málum fyrir mig og hefur verið að gera það síðan í haust. Niðurstaða hans er sú að leggja til við að lækka sparnaðarkröfuna ef svo má segja úr 200 millj. í 50 millj. kr. sem ég hef gert. Ég hef hins vegar ekki enn fengið niðurstöðu úr starfi nefndarinnar. Sú niðurstaða verður að liggja fyrir fyrir 3. umr. vegna þess að ég vil ekki síður en þingmenn sjá hvaða tillögur það eru sem starfshópurinn kemur sér saman um og hvort líklegt sé að sú niðurstaða skili þeim árangri sem starfshópurinn hefur tjáð mér að hann treysti sér til þess að ná til kostnaðarlækkunar í þessu kerfi. Betra svar get ég á þessari stundu því miður ekki gefið hv. þm. en ég ítreka að ég vil að þessi niðurstaða liggi fyrir áður en gengið verður til afgreiðslu eftir 3. umr. fjárlaga.
    Þá vík ég að nokkrum spurningum frá hv. þm. Svavari Gestssyni. Í fyrsta lagi hvað varðar biðlistana. Það er mjög eðlilegt að fleiri séu á biðlistum í septembermánuði en í aprílmánuði á sama ári. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að það er svo mikill samdráttur í starfsemi sjúkrastofnana yfir sumarmánuðina. Sumarlokanirnar valda því að það dregur úr fjölda aðgerða og af þeim sökum verða fleiri á biðlista í lok sumarleyfismánaðanna, þ.e. í byrjun september en var áður en sumarleyfi hófust. Það sem ég var að tala um þegar ég sagði að fækkað hefði á biðlistum var ekki samanburður á milli einstakra ársfjórðunga eða missira innan sama árs heldur var ég að tala um þróun á biðlistum milli ára. Það er staðreynd að á árinu 1992 hefur fækkað á biðlistum frá árinu áður og enn meira ef tekið er árið þar á undan. Frá þeim upplýsingum sem fram komu í máli hv. þm. og voru efnislega alveg réttar hefur einnig breyting gerst. Það er rétt að byrja á því að leiðrétta sjálfan sig fyrst að sú undantekning sem er á biðlistunum, þróun þeirra frá árinu 1992 frá árinu áður er sú að þó að það hafi dregið saman og fækkað á biðlistum eftir flestöllum aðgerðum, þá er þó ein undantekning og það eru hjartaaðgerðir. Fjölgað hafði á biðlistum eftir hjartaaðgerðum á milli ára. En sú breyting hefur þó orðið á frá þeim tölum sem hv. þm. nefndi í september að síðan þá hefur verið gerður samningur milli Tryggingastofnunar ríkisins og Ríkisspítala þar sem Tryggingastofnun ríkisins tekur að sér kostnaðinn við að auka verulega hjartaaðgerðir og halda þannig á málum að fullnægja allri þörf eftir bráðum hjartaaðgerðum og allri þörf á hjartaaðgerðum upp að því sem hjartalæknar sjálfir telja að sé eðlilegt og ásættanlegt, en það er að á biðlistum skuli vera 20--30 hjartasjúklingar. Það hefur einnig gerst til viðbótar á þessum tíma að heilbr.- og trmrn. hefur samið við tvö sjúkrahús, þ.e. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og St. Jósefsspítala í Hafnarfirði, um að auka skurðaðgerðir vegna bæklunarlækninga. Í mánuðunum október, nóvember og desember hefur því orðið fjölgun á þessum aðgerðum og því fækkað á biðlistum.
    Þá er einnig rétt hjá hv. þm. að í frv. er gert ráð fyrir rúmum reglugerðarheimildum til ráðherra en slíkar reglugerðarheimildir eru einfaldlega í gildandi lögum. Ég vil t.d. benda á að í 43. gr. laga um almannatryggingar, V. kafla, um sjúkratryggingar, segir að greiða skuli almenna læknishjálp utan sjúkrahúsa hjá lækni sjúklings sem Tryggingastofnun hefur gert samning við. Fyrir hvert viðtal á læknastofu og hverja vitjun til sjúklings greiði hinn sjúkratryggði lækninum það gjald sem ákveða skal með reglugerð. Í þessari lagagrein er ráðherra því fengið reglugerðarvaldið óskorað í hendur. Sama máli gegnir t.d. um ákvæði í sömu grein í b-lið. Þar segir að fyrir hverja komu til sérfræðings skuli sjúklingur greiða sérfræðingi gjald sem ákveðið skal með reglugerð. Einnig þarna hefur ráðherrann óskorað vald til reglugerðarsetningar.
    Þá er einnig í ákvæði um greiðslur vegna lyfjakostnaðar o.fl., ákvæði sem hljóðar svo eftir k-lið í sömu grein: ,,Ráðherra er með reglugerð heimilt að breyta greiðslum sjúkratryggðra samkvæmt þessari grein, svo og að ákveða með reglugerð hámark eininga í lyfjaávísun.``
    Einnig þarna er reglugerðarvald ráðherra algerlega óskorað og ótakmarkað. Þetta er mjög víða svo í umræddum lögum. T.d. er reglugerðarvaldið hvað varðar tannlæknahjálpina í núgildandi lögum mjög viðamikið. Í 5. tölul. 44. gr. er ákvæði sem hljóðar svo:
    ,,Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, sem njóta tekjutryggingar, . . .   Heimilt er að hækka greiðslur fyrir þess bótaþega eftir reglum, sem tryggingaráð setur, í allt að 100%.``
    Þarna vinnur reglugerðarvaldið þveröfugt. Þarna er með einfaldri samþykkt hægt að auka hlut ríkisins í niðurgreiðslu á lyfjum upp í 100% án þess að leita samþykkis löggjafans. Reglugerðarvaldið er því víðtækt í núgildandi lögum. Hins vegar er það efni sem má ræða, eins og hv. þm. gerði, hvort ástæða er til að hafa reglugerðarvald til ráðherra eins víðtækt og er í íslenskum lögum. Það er einkenni á íslenskri lagasetningu hve reglugerðarvald ráðherra er mikið. Ætli sé ekki hægt að nefna eitt ráðuneyti sérstaklega til dæmis um það en það er landbrn. Þar er reglugerðarvald ráðherra mjög mikið. Einnig er reglugerðarvald ráðherra mjög mikið í sambandi við stjórn fiskveiða eins og alkunnugt er. Þar hafa menn afhent ráðherra mjög mikið vald og meira að segja liggur fyrir, og þá vík ég aftur að landbrn., úrskurður dómstóla þar sem dómstólar a.m.k. draga í efa að það reglugerðarvald sem ráðherra hafi verið afhent af Alþingi sé í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Það er mál út af fyrir sig og réttmæt ábending hjá hv. þm. að reglugerðarvald íslenskra ráðherra er mjög mikið en það er ekki meira í þessu frv. en það er jafnvel í ákvæðum almannatryggingalaga nú þegar eins og ég hef bent á.
    Hv. þm. dró í efa þær upplýsingar sem ég gaf um afkastaaukningu í sjúkrahúsakerfinu, sérstaklega í Reykjavík. Það er alveg ástæðulaust að draga þær tölur í efa vegna þess að ég get sýnt honum sundurliðaðar upplýsingar, sem ég er að vísu ekki með hér í sæti mínu, sem staðfesta það. Það hefur orðið gríðarleg afkastaaukning á sjúkrahúsunum á Reykjavíkursvæðinu. Þar hafa menn verið að auka afköst fyrir minna fé. Það liggur alveg fyrir, bæði á einstökum spítölum og sjúkrahúsum í heild, og það er alveg sjálfsagt að afhenda heilbr.- og trn. og hv. þm. nákvæmar upplýsingar um það. Þær verða ekki dregnar í efa. Þær verða ekki vefengdar.
    Þá ræddi hv. þm. um sparnaðaráhrifin af frv. Það er mjög erfitt að meta það og gera það upp vegna þess að sumar greinar í þessu frv. valda engum kostnaðaráhrifum, hvorki til lækkunar né hækkunar. Spurningin er hins vegar hvernig menn hyggjast nýta þær lagaheimildir sem þar eru fyrir hendi. Aðrar eru hins vegar bundnar tiltekinni fjárhagslegri niðurstöu eins og er um 1. og 2. gr., þar sem um er að ræða kostnaðarlækkunaráhrif upp á 500 millj. kr., og t.d. í 7. gr. þar sem um er að ræða kostnaðarlækkunaráhrif upp á 190 millj. kr. Einnig í II. kafla þar sem um er að ræða tekjuáhrif upp á 170 millj. kr. eða þar um kring. Ég skal fúslega, þegar ég hef lokið yfirferð yfir alla einstaka liði, láta hv. þm. í té niðurstöður af því í einstökum atriðum. En við erum þarna í heild, ekki bara í því frv. sem hér liggur fyrir, heldur í þeim frv. öðrum sem liggja fyrir Alþingi, og ég er búinn að vitna til í framsöguræðu minni með þessu frv., og þeim breytingum sem við erum að gera á grundvelli lagaheimilda sem við höfum, að ráðgera kostnaðarlækkun sem samtals er upp á milli 2,4 og 2,6 milljarða kr. Þá vil ég taka fram að hluti af því er til þess að leysa vanda á yfirstandandi ári þar sem útgjöld hafa farið verulega fram úr fjárlögum. Eins og hv. þm. vita er í fjáraukalögum ekki gert ráð fyrir því að taka inn á greiðsluheimildir á þessu ári nema hluta af þeim útgjöldum sem hv. þm. vita að hafa orðið umfram í heilbrigðis- og tryggingakerfinu og þá einkum og sér í lagi í tilfærslukerfi almannatrygginga. Heildarverkefnið er því að reyna að lækka kostnað um 2,4--2,6 milljarða. Ég ítreka að þá eru menn ekki bara að tala um kostnaðartilefni á árinu 1993 heldur einnig það sem upp á vantar að náð sé markmiðum fjárlaga og fjáraukalaga á árinu 1992. Ég hef gert ráðstafanir til þess að skila sundurliðuðu yfirliti til hv. fjárln. fyrir 3. umr., og það er verið að vinna að því núna, þar sem við greinum þetta verkefni í sundur nákvæmlega eftir einstökum viðfangsefnum og einnig eftir því hvaða útgjöld falla á árið 1993 og hvaða útgjöld falla á árið 1992 af þeim viðfangsefnum sem við erum að fást við. Ég hef ásett mér að skila fjárln. slíku yfirliti fyrir 3. umr. fjárlaga og ég held að það væri mjög gott ef aðrir ráðherrar tækju einnig upp þann sið að reyna að gera slíka grein fyrir þeim viðfangsefnum sem þeir eru að taka að sér. Það mun ég gera.
    Hv. þm. sagði einnig að það stæðist ekki alltaf allt sem heilbr.- og trmrh. segði og það er auðvitað alveg rétt, allir erum við breyskir og öll erum við mannleg en sumt stenst þó. Ég vil t.d. minna á það að hér urðu miklar og mjög harðar umræður í fyrra um viðbótarniðurskurð á ýmsum sjúkrahúsum úti á landsbyggðinni og vil ég þá serstaklega nefna til sögunnar sjúkrahúsið á Blönduósi. Við fengum í heilbrrn. mjög mikil og hörð mótmæli við þær aðgerðir sem gripið var til vegna sjúkrahússins á Blönduósi og mikla andstöðu við þær fyrirætlanir. Talað var um að þarna væri verið að stefna heilbrigðisþjónustunni í héraðinu í mikla hættu. Niðurstaðan hefur engu að síður orðið sú að stjórnendur sjúkrahússins gengu á minn fund fyrir nokkrum dögum síðan til þess að leita heimilda til að ráðstafa afgangi úr rekstri á þessu ári til að greiða starfsfólkinu einhvern launaauka fyrir jólin. Niðurstaðan af þessu sparnaðarátaki, ef menn vilja kalla það svo, reyndist þegar upp var staðið vera þetta. Sumt hefur til allrar blessunar staðist og þær illu spár sem menn höfðu uppi hafa ekki gengið eftir. Um það er ekkert nema gott að segja. Hins vegar er það auðvitað alveg rétt og hefur komið fram áður að það er ýmislegt sem því miður hefur ekki gengið eftir eins og vonir stóðu til.
    Hv. þm. Guðmundur Bjarnason kom einnig með spurningar um sparnaðaráhrifin af þessum aðgerðum. Ég tel að ég hafi svarað því eftir því sem unnt er að gera á þessum stað og þessari stundu og ætla ekki að ítreka það. Þá lýsti hv. þm. einnig þeirri hugmynd sinni hvort ekki væri rétt að skoða það að a.m.k. fyrsta koma til skólatannlæknis eða til tannlæknis sem þjónar skólabörnum væri ókeypis, þ.e. koma til skoðunar. Ég tel það koma vel til greina og ég tel sjálfsagt að menn skoði það mjög vandlega, m.a. vegna þess að það eru ákveðin vandkvæði fólgin í því að fella algerlega niður ókeypis komu barns til skólatannlæknis. Það eru ekki bara kostnaðarleg áhrif sem þar koma til heldur lenda menn í vandræðum með framkvæmdina því svo lengi sem þessi þjónusta hefur verið ókeypis hafa skólatannlæknar getað kallað börnin inn og lagt fyrir þau að koma á ákveðnum tíma. Þegar slík þjónusta er ekki ókeypis er mjög erfitt fyrir skólatannlækna að kalla börn inn með slíkum hætti nema leita áður eftir samþykki hjá foreldrum þeirra hvort þau séu reiðubúin til þess að greiða fyrir þá skoðun sem fer fram. Ég tel því meira en koma til álita að menn skoðuðu hugmynd hv. þm. þannig að gert væri ráð fyrir því að hægt væri að kalla skólabörn inn til skoðunar hjá skólatannlæknum. Úr þeirri skoðun gætu síðan börnin farið til foreldra sinna með álit skólatannlæknisins á því hvað þyrfti að gera og það væri þá ákvörðun foreldranna hvort þau treystu sér til þess að greiða eða ekki. Ég tel því að þessi hugmynd komi mjög vel til greina og sé rétt að athuga hana í þeirri nefnd sem fær frv. til athugunar.
    Þá spurði hv. þm. hvernig gert væri ráð fyrir því að ráðstafa sölu eigna vegna Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum yrði því félagi breytt í hlutafélag í eigu ríkisins og síðan selt. Það er gert ráð fyrir því að þær tekjur falli í ríkissjóð en rekstur einhverrar tiltekinnar stofnunar eða viðfangsefnis í heilbr.- og trmrn. sé ekki háður því hvort salan tekst eða tekst ekki. Það er hins vegar rétt hjá honum að slík ákvæði voru sett í frv. hvað varðar sölu þvottahúss Ríkisspítala eða hluta af eignum þvottahúss Ríkisspítala eftir að því yrði breytt í hlutafélag. Ég er honum sammála um að það má gagnrýna þá aðferð. En hv. þm. veit líka hvernig stóð á því að sú varð niðurstaðan og ætla ég ekki að orðlengja um það.
    Þá spurði hv. þm. Halldór Ásgrímsson hvert yrði stjórnarfyrirkomulagið ef samþykkt yrði að breyta Samábyrgð Íslands á fiskiskipum í hlutafélag í eigu ríkisins. Hv. þm. svaraði þeirri spurningu sjálfur. Ef það verður gert, ef það verður heimilað, þá mun að sjálfsögðu stjórn slíks hlutafélags verða kjörin samkvæmt ákvæðum hlutafjárlaga og liggur þá fyrir að til stofnunar hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum verður gengið eins og um væri að ræða stofnun nýs hlutafélags. Það er ákvörðun Alþingis hins vegar að til þess hlutafélags falli eignir Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Ég bendi á, eins og áður hefur komið fram í umræðunni, að eins og frá tillögunum er gengið í bandorminum, þá er ekki gert ráð fyrir því að um nein viðskiptatengsl sé að ræða milli vélbátaábyrgðarfélaganna og Samábyrgðar. Auðvitað skal ég fúslega viðurkenna að frv. er ekki nema hálfkarað vegna þess að það vantar hinn helminginn sem þar átti að vera sem er sem sagt hvernig menn ætla þá að ráðstafa vélbátaábyrgðarfélögunum og hver eiga að vera samskipti vélbátaábyrgðarfélaganna og Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Ég get alveg fallist á það sjónarmið, sem menn hafa komið fram með, að það sé ekki eðlilegt að stilla frv. um breytingu á lögum um almannatryggingar og frv. um stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum saman. Ég brá hins vegar á það ráð einfaldlega til að sýna í frv. hvaða ráðagerðir væru uppi í ríkisstjórninni til þess að fylla út í þann ramma um lækkun útgjalda og hækkun tekna sem snerta mitt ráðuneyti og varða fjárlagaafgreiðsluna. Ég á hins vegar ekki von á því satt best að segja að hv. heilbr.- og trn. afgreiði II. kafla frv. eins og hér er frá honum gengið. Því á ég ekki von á en ég á von á því að athugunin á þessu máli hefjist í nefndinni og ég mun fúslega leggja inn til nefndarmanna það sem á vantar í þennan frumvarpstexta þannig að hann sé fullburðugur sem slíkur.
    Ég hafði ekki séð, virðulegi forseti, eða heyrt um samþykkt stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga fyrr en hv. 5. þm. Vestf. las upp úr samþykktinni áðan. Ég get því ekki svarað því, um það hefur ekki verið rætt í ríkisstjórn. Okkur hefur ekki borist þessi samþykkt þannig að ég get ekki svarað því hvort ríkisstjórnin muni ræða þetta mál sérstaklega við sveitarfélögin. Við skulum gera okkur grein fyrir því að ef við lítum á það mál sem sjálfstætt mál, þ.e. hækkun barnalífeyris og þar með meðlags án tillits til þess hvað kynni að vera gert til breytinga á mæðralaunum, hvort þeim yrði breytt eða ekki, er það alveg ljóst undir öllum kringumstæðum, þótt aðeins væri verið að gera þá aðgerð eina að hækka barnalífeyri og þar með meðlag, að það hefði eitt út af fyrir sig áhrif á afkomu Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Ég bið menn að hugleiða í því sambandi, þegar menn eru að ræða það mál eitt út af fyrir sig, þá einföldu spurningu: Telja menn líklegt að barnsmeðlag upp á 7.551 kr. sé raunverulega helmingur af framfærslukostnaði barns? Almenna reglan í íslensku réttarfari varðandi greiðslu meðlags á að vera sú að framfærslubyrðinni sé skipt jafnt á milli beggja foreldra. Ég trúi því vart að fólk telji að 7.551 kr. sé raunverulega helmingur af framfærslukostnaði barns. Sé svo ekki, sé framfærslukostnaður barns meiri en 15.102 kr., hver á þá að bera mismuninn? Eins og framkvæmdin er í dag er það móðirin eða sá sem með umönnun barnanna fer. Er það réttlátt?
    Þá hafa líka borist hér nokkuð í tal tvær misvísandi tölur. Annars vegar um fjölda þeirra barna sem meðlög eru greidd með samkvæmt upplýsingum Innheimtustofnunar sveitarfélaga, sem eru á sextánda þúsund, og hins vegar fjöldi þeirra barna sem liggur til grundvallar útreikningnum sem heilbrrn. hefur gert á áhrifum þessara aðgerða og eru eitthvað á níunda þúsund. Menn hafa spurt: Hver er skýringin á þessum mikla mun? Skýringin er sú að Innheimtustofnun sveitarfélaga gefur upp fjölda þeirra barna sem meðlög eru greidd með, líka þeirra sem eru börn foreldris sem er í sambúð. Þær tölur sem við erum að vinna með í heilbrrn. ná hins vegar eingöngu yfir fjölda barna þeirra foreldra sem eru skráð einstæð því við erum að vega og meta hver áhrif þessara breytinga eru fyrir afkomu einstæðra foreldra. Báðar tölurnar sem upp eru gefnar eru því réttar, það eru á sextánda þúsund barna sem meðlög eru greidd með en þá eru menn að ræða um bæði börn einstæðra foreldra sem ekki eru í sambúð og börn foreldra sem eru í sambúð.
    Börn einstæðra foreldra sem ekki eru í sambúð eru hins vegar á níunda þúsund eins og rætt hefur verið um og eins og þingmenn hafa verið upplýstir um í þeim gögnum sem við höfum verið að vinna með í heilbrrn. þegar reynt er að meta áhrif þessara aðgerða, lækkun feðra- og mæðralauna annars vegar og hækkun barnalífeyris hins vegar, á afkomu einstæðra foreldra, þ.e. foreldra sem ekki eru í sambúð með öðrum. Ég er að sjálfsögðu ekki að tala um hjónafólk.
    Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi svarað öllum spurningum. Auðvitað er fjölmörgum öðrum ósvarað. Ég treysti því að við getum gefið svör við þeim í vinnu með þessi mál í nefnd en ég ítreka þakkir mínar til þeirra þingmanna sem rætt hafa þetta frv. efnislega, gagnrýnt það með rökum og lýst stuðningi sínum við sum atriði þess. Þann stuðning þakka ég að sjálfsögðu.