Umræður um dagskrármál

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 17:02:27 (3422)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég kannast ekki við það samkomulag að hér ætti einungis

að hafa framsögu fyrir nefndarálitum en síðan að fresta umræðu. Það var ekki það sem um var rætt á fundum þingflokksformanna með forseta. Ég vil að það komi fram.
    Ég er mjög þakklátur hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir að vilja aðstoða ríkisstjórnina í þessu erfiða máli og ég vil til endurgjalds reyna að aðstoða hann við að koma á friði innan síns flokks í þessu máli og skora á hann að leyfa hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að tala í þessu máli. Það hefur komið fram að hún hefur einungis léttvægar athugasemdir fram að færa. Hún hefur sagt að það taki ekki langan tíma og mér finnst sjálfsagt að hún fái að koma fram með þær og tel raunar rétt að þessi mál verði rædd örlítið lengur.
    Það var heldur ekki samkomulag um að hætta um klukkan fimm heldur taldi ég að samkomulagið hefði verið um að við yrðum hér til klukkan sex og ég vil til samkomulags . . .  (Gripið fram í.) Til klukkan sex. Ég vil, ef það flýtir eitthvað fyrir afgreiðslu mála, lýsa því yfir að ég er alveg reiðubúinn til að vera hér til klukkan sjö.