Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 14:45:02 (3465)

     Geir H. Haarde (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég hef verið beðinn um að tjá mig um fréttir í fjölmiðlum sem ég hef sjálfur hvorki heyrt né séð og er að sjálfsögðu ekki heimildarmaður að. Ég treysti mér alveg til að tjá mig um þingstörfin undir fullu nafni og vil ekki liggja undir einhverjum svigurmælum um að ég sé að tjá mig nafnlaust við fréttamenn um þau mál sem eru til meðferðar í þinginu.

    Að því er varðar samkomulag um meðferð EES-málsins, þá hefur í raun og veru aðeins verið gert eitt heildarsamkomulag sem var gert á síðasta vori. Það var um ljúka meðferð þessara mála í heild sinni í nóvembermánuði. Nú vitum við það, eins og fram kom í máli hv. þm. Ragnars Arnalds, að það tafðist að gera hinn svokallaða sjávarútvegssamning. Það voru þess vegna eðlilegar ástæður fyrir því að hv. utanrmn. lauk ekki störfum fyrr en 30. nóv. varðandi það mál en hún skilaði nefndaráliti sínu tveimur dögum eftir að sjávarútvegssamningurinn lá fyrir.
    Að því er varðar hins vegar þetta mál að öðru leyti, þá vil ég benda á að 2. umr., sem hefði farið fram á fimmtudegi væntanlega í þeirri viku sem nefndarálitinu var skilað, var seinkað að ósk hv. þm. Steingríms Hermannssonar, formanns Framsfl. sem átti þá erindi til útlanda. Það var orðið við því að seinka þeirri umræðu. Það kom fram af hans hálfu að hann gerði ekki ráð fyrir miklum umræðum af hálfu síns flokks um það mál og ég hlýt að láta það koma fram að af hans hálfu var aldrei nokkur einasti fyrirvari að því er varðaði atkvæðagreiðsluna í Sviss um þetta mál. Ég veit að hann getur staðfest það ef ástæða þykir til að draga þessi ummæli í efa.
    Ég vil jafnframt benda á það, virðulegi forseti, að sagt hefur verið um þennan samning að hann væri dauður samningur, að það væri eins og að gifta dauðan mann að ætla að fara að taka þennan samning til umræðu. Það var hv. þm. Páll Pétursson sem viðhafði þessi smekklegu ummæli í þinginu fyrir nokkru síðan. Þeir hafa greinilega ekki hlustað mikið á hann úti í Liechtenstein nema þeir séu vanir að gifta dauða menn þar í landi því að þeir eru búnir að samþykkja samninginn fyrir sitt leyti í nákvæmlega sömu stöðu og við erum í á Alþingi.
    Í öðrum þjóðþingum hefur þessi samningur alls staðar verið afgreiddur. Í fjölmennum þjóðþingum hafa menn ekki talið sig þurfa að ræða þetta mál nema í svona tvo daga, t.d. í norska þinginu, jafnvel þó að hinn málefnalegi ágreiningur sé ekkert minni þar en hér. Það er alveg jafnmikill ágreiningur um þetta mál, andstaða af hálfu tveggja stjórnmálaflokka, þar í landi og hér. Samt sem áður hefur mönnum tekist að ljúka umræðunni á þessum tíma.
    Ég hlýt að láta þetta koma fram, virðulegi forseti, um leið og ég vek athygli á því að nú hefur fimm stundarfjórðungum verið varið í umræður um þingsköp og ég held að tími sé kominn til að ræða þetta mál efnislega um leið og ég fagna því að forseti hyggst boða til fundar þingflokksformanna síðar í dag til þess að ræða frekari málsmeðferð. ( Gripið fram í: . . .  samkomulag?) Ég er búinn að svara þessu, virðulegi þingmaður.