Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 00:08:28 (3506)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst miður ef ræða mín hefur orðið til þess að hv. þm. Geir Haarde taldi

nauðsynlegt að fara upp með þau ummæli sem hann viðhafði. Ég bað einfaldlega um að stutt hlé yrði gert þannig að menn gætu rætt þetta mál utan við þingsalinn af því að mér finnst það eiginlega ekki nokkur framkoma gagnvart hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í ljósi sögu málsins og vinnunnar að ætla henni að gera þinginu grein fyrir henni hér um miðnætti. Meira en helmingurinn af þeim tíma, hv. þm. Geir Haarde, sem hefur verið varið í þingskapaumræðu í dag, er vegna yfirlýsingar utanrrh. utan þings. þannig að ef hv. þm. hefur einhver tök á því að fækka yfirlýsingum hæstv. utanrrh. utan þings þá mundi það mjög bæta hér og greiða fyrir málum. Kem ég þeirri ósk á framfæri. ( GHH: Það hafa margir reynt það.) Já, það hafa margir reynt það, ég veit það. En stundum hefur það borið árangur.
    Það er hins vegar alveg rétt að ég fékk umræður utan dagskrár í dag í hálftíma. Ég þakkaði fyrir það. En ég vil þó geta þess að það var farið fram á það við mig að ég biði með þá utandagskrárumræðu þar til um korter í fjögur til þess að hv. þm. Björn Bjarnason fengi að ljúka sínu máli og það þyrfti ekki að slíta þá umræðu í sundur. Ég varð við þeirri ósk þó að það kæmi sér ekki endilega mjög vel fyrir mig. Við höfum því í sameiningu reynt að ná samkomulagi til þess að taka tillit til óska hvers annars og það var greinilega ósk frá hv. þm. Birni Bjarnasyni að hann þyrfti ekki að slíta ræðu sína í sundur og ég varð við þeirri ósk og frestaði þannig umræðu minni.