Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 00:12:01 (3508)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það gengur orðið mikið á þegar það prúðmenni, 8. þm. Reykv., fer upp með ræðu eins og hann gerði hér áðan um þingsköp. Ég held reyndar að það séu ekki þingskapaumræður stjórnarandstöðunnar sem hafa raskað ró hans og jafnvægi. Ég held að ástæðu þess sé frekar að leita innan dyra á stjórnarheimilinu.
    En það var ekki það sem var erindi mitt. Ég bendi virðulegum forseta á það að í þeim lista, sem var lagður fram í dag um forgangsmál, eru mörg mjög stór mál sem verða að fá framgang ef núv. hæstv. ríkisstjórn á að geta sinnt sínu samstarfi í upphafi næsta árs. Þess vegna vil ég biðja virðulegan forseta að fara nú til hæstv. utanrrh., því eins og við vitum, ræðir hæstv. utanrrh. ekki lengur við þingið öðruvísi en í gegnum fjölmiðla, og leiti eftir því í því þinghléi eða umræðuhléi, sem nú á að gera, hvaða dagsetningar er um að ræða varðandi fullgildingu EES-samningsins á Alþingi. Hæstv. utanrrh. ræðir alltaf um að það verði að liggja ljóst fyrir áður en hann fari til fundar með öðrum foringjum EFTA-þjóða um framgang málsins.
    Hæstv. forseti. M.a. af störfum mínum úti í efh.- og viðskn. veit ég hve gífurlega mikil vinna liggur hér fyrir til þess að hægt sé að afgreiða fjárlög og fylgifrv. þess þá vil ég biðja hæstv. forseta að ganga í það að fá þær upplýsingar frá hæstv. utanrrh. hvenær hann þurfi að hafa þetta í höndunum. Er það virkilega svo að utanríkisráðherrar EFTA-landanna ætli að hittast um jólin eða er það í byrjun janúar eða er það ráðgert í seinni hluta janúar? (Gripið fram í.) Jólin, segir hv. 8. þm. Reykv. Það getur vel verið að utanríkisráðherrarnir ætli að halda jólin saman einhvers staðar á góðum stað í hinu tilvonandi Evrópska efnahagssvæði og fjalla um þessi mál. En þetta segi ég í fullri alvöru að ég leita til virðulegs forseta um það að hann gangi í það að fá þessar upplýsingar frá utanrrh. svo að við vitum á hverju hann byggir þann sterka vilja sinn að drífa umræðuna í gegn á þeim tíma þegar svo mikið liggur við að hægt sé að vinna áfram í nauðsynlegum skattamálum og öðrum breytingum.