Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 16:26:18 (3646)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mig langar til að koma á framfæri einni athugasemd og tveimur spurningum til hv. 1. þm. Norðurl. v. Í fyrsta lagi komu fram í máli hans athugasemdir um fræðimanninn Björn Þ. Guðmundsson og trúverðugleika hans. Vitnaði hann þar í ljósrit sem

hafa verið að berast um þingsalinn og taldi að um augljóst spaug væri að ræða. Ég verð að taka það fram að hér er um að ræða tilvitnanir í tímarit lögfræðinga og þar á meðal í skýrslu um Lagastofnun Háskóla Íslands frá 15. febr. 1991 til 15. febr. 1992, þar sem talin eru upp rannsóknastörf nokkurra prófessora og rektora, þar á meðal eftir Davíð Þór Björgvinson, 24 greinar í tímaritum og blöðum. En meðal rannsóknastarfa og ritstarfa Björns Þ. Guðmundssonar, sem hann hefur væntanlega kosið að skrá, er þessi grein, Ný námskrá fyrir lagadeild, sem hv. þm. Páll Pétursson kaus að kalla augljóst spaug. Mér finnst það nokkuð kaldar kveðjur að nota þau orð um það sem prófessorinn kýs að nota sér sem dæmi um rannsóknastörf sín.
    Af þeim tveimur spurningum sem mig langaði til að leggja fyrir hv. þm. er sú fyrri á þessa leið. Þingmaðurinn rakti fjölmörg atriði stjórnarskrárinnar sem hann taldi að væru annaðhvort brotin með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða hugsanlega brotin. Nú minnir mig að hv. þm. hafi verið flm. að tillögu til breytinga á stjórnskipunarlögum Íslands. Sú tillaga tók ekki til þessara atriða sem þingmaðurinn taldi upp. Ég vil því spyrja hvers vegna hann hafi látið undir höfuð leggjast að gera tillögu um breytingar á þessum atriðum sem hann telur að hafi verið brotin.