Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 16:33:09 (3649)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Það er fjarri lagi að ég hafi verið að flytja þá ræðu sem hv. 7. þm. Reykn. flutti í fyrradag. Ég hlustaði með athygli á ræðu þingmannsins. Ég fékk útskrift af henni og las hana sérstaklega til að það henti mig ekki að ég væri að fjalla um sömu atriði og hann ef ég hafði nákvæmlega sömu sýn til þeirra og hann. Ég vil alltaf og kappkosta að flytja stuttar ræður. Og ég vonast eftir því að hv. þm. Tómas Ingi hafi ekki heyrt mig tala í mjög löngu máli fyrr en þá þetta. Þetta er lengri ræða en ég hefði kosið að flytja. En það er vegna þess að málið er stórt og efnismikið og ég taldi mig ekki komast hjá því að drepa á þau atriði sem ég gerði. Það verður bara að hafa það. Málið er stórt, veigamikið og afdrifaríkt og það er ekkert annað að gera. Ég er trúnaðarmaður flokks míns í utanrmn. og taldi mig þurfa að gera grein fyrir þeim viðhorfum sem ég hef til málsins. ( Gripið fram í: Nefndarálitið?) Það er að vísu rétt að nál. er stutt. Þar koma þó fram meginniðurstöður um það hvernig við framsóknarmenn komum ekki til með að samþykkja þetta frv.
    Það er matsatriði hvað nál. eiga að vera löng. Ég veit ekkert hvort það hefði verið betra fyrir okkur að fara að leggja fram einhverja prentaða bók í formi nál. sem síðan enginn hefði lesið. Nú fullyrði ég það ekki að allir þingmenn lesi nál. hv. meiri hluta nefndarinnar sem er mjög langt og ítarlegt. Ég hef að vísu flett því en ég er ekki viss um að allir hafi gert það. Það eru meginniðurstöðurnar sem máli skipta.