Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 22:17:47 (3660)

     Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hef í gegnum tíðina lagt mig nokkuð eftir því sem sá þingmaður sem hér talaði síðast hefur skrifað og sagt um þessi mál, enda ástæða til því hann undirbýr yfirleitt sitt mál vel og heldur sínum málum mjög vel til haga. En eftir að hafa hlustað á hann tala hér í kvöld var ég einmitt að velta því fyrir mér að ég skil ekki söguskoðun þessa þingmanns. Það væri náttúrlega gaman að fá einhverja útlistun á henni hér.

Hann hefur alið allan sinn aldur í sósíalískum samtökum og ég hefði haldið að hann þekkti hugtök eins og sögulega efnishyggju sem heldur alveg gildi sínu hvað sem mönnum finnst annars um sósíalisma eða marxisma eða annað slíkt. En ég fæ ekki séð að slíkt rúmist í hans hugmyndum heldur líti hann á heiminn eins og statískt fyrirbæri, fyrirbæri sem ekki sé í þróun og ekki hreyfist. Og mér sýnist að þarna sé á ferðinni það sem ég mundi vilja kalla ómengaða þjóðernishyggju sem er síðan búin í einhvern félagslegan búning. En þetta tvennt fer illa saman hjá þingmanninum.
    Hann talaði um efann og honum finnst ekki mikil og merkileg leiðsögn í því fólgin af minni hálfu að vera með efa í þessum málum og vera að sitja klofvega á einhverri girðingu. Honum finnst það ekki mjög merkilegt í pólitík. Ég vil benda þingmanninum á að ég held að miklu fleiri sitji uppi með þennan efa t.d. það fólk sem er í pólitík úti um alla Evrópu. Það eru ekki voðalega margir sem eru eins trúaðir í þessum málum og hv. þm. Ég bendi honum á einkaviðtal í Vinnunni við Jens Peter Bonde sem er einn af mönnunum sem hafa barist hvað harðast gegn Maastricht. Hann er spurður um afstöðu sína til samningsins um EES og hann segir: ,,Afstaða mín er mjög klofin. Annars vegar tel ég að samkomulag um frjáls viðskipti milli EB-landanna tólf og EFTA-landanna sjö sé í sjálfu sér mikill ávinningur.``
    Hins vegar segir hann: ,,Þetta er önnur skoðun mín. Hin er sú að verði t.d. samþykktir staðlar fyrir vinnuumhverfi, öryggi í umhverfismálum og heilbrigðis- og neytendavernd eru í samningnum ákvæði sem EFTA-löndin geta notað til að tryggja góða stöðu sína gagnvart EB í þessum málum. Ég álít því að þótt samningurinn sé nýlendusamningur á pappírnum sé hann vel nothæfur í samstarfi EFTA-landanna annars vegar og hins vegar þróaðri landa EB og Evrópuþingsins sem hefur haft grænan meiri hluta í mörgum málum.``
    Bonde er partur af þessum lýðræðisöflum sem þingmaðurinn var að tala um áðan og hann sér ákveðna von í þessu fyrir lýðræðisöflin í EB.