Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 23:53:36 (3667)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég tók sérstaklega eftir því að hv. ræðumaður taldi að af hugmyndafræðilegum ástæðum gæti hann ekki staðið að því að samþykkja aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Hugmyndafræðin á bak við samninginn væri þess eðlis að hv. þm. gæti ekki stutt samninginn. Og síðan þegar hún rakti þessa hugmyndafræðilegu ókosti var m.a. látið að því liggja að það væri af því að stefnt væri að auknum hagvexti og það væri af hinu illa að auka eða efla hagvöxt og þess vegna gæti þingmaðurinn ekki stutt aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta finnst mér mjög athyglisvert því að í hinu orðinu er þingmaðurinn sífellt að tala um nauðsyn þess að styrkja íslenskt efnahagslíf, efla atvinnu í landinu o.s.frv. en þingmaðurinn er sem sagt á móti því að hagvöxtur aukist, væntanlega bæði hér og annars staðar. Ég skil ekki hvernig stefna þetta er sem þingmaðurinn er að boða, hvort þetta sé stefna Kvennalistans. Og einnig þótti mér sérkennileg túlkun þingmannsins á hugtakinu einsleitur, homogen, eins og það leiddi til þess að ekki gæti verið fjölbreytni. Homogent þjóðfélag er t.d. það íslenska, allir eru sammála um það, en allir vita að hér á landi er mikil fjölbreytni og hér dafnar margt þótt þjóðfélagið sé homogent þannig að mér finnst að þessi túlkun þingmannsins að þarna sé verið að steypa öllu í sama mót eigi ekki við rök að styðjast.