Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 15:47:56 (3720)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Böl atvinnuleysisins brýtur niður sjálfsvirðingu einstaklinga og jafnvel heilla samfélaga. Kostnaðurinn við það getur orðið hár, svo hár að betur getur borgað sig að verja nokkrum fjármunum til að spyrna við fótum þegar að kreppir eins og nú gerir. Smánarlega lágar atvinnuleysisbætur auka ekki á sjálfsvirðinguna. Hvorki á virðingu okkar samfélags né þeirra sem þær verða að þiggja. Steininn tekur þó úr því ýmsir njóta ekki einu sinni þessara smánarbóta. Tvennt einkennir atvinnuleysið nú. Það er í flestum atvinnugreinum og ekki bundið við einstaka hópa eins og oft hefur verið áður og þar af leiðandi þarf miklu víðtækari aðgerðir heldur en oft hefur áður verið hugað að þó kannski hafi ekki verið gripið til þeirra sem skyldi. Hins vegar er staðbundið atvinnuleysi á Suðurnesjum sem virðist vera að verða viðvarandi einnig um vertíðartímann og sérstaklega hjá konum. Í fimmtán mánuði hefur atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum verið í kringum 10%, það er nú 10,3% og í heild er atvinnuleysi á Suðurnesjum 5,8%.
    Fyrir örfáum vikum stóðum við hér og ræddum þetta sérstaklega og þá viðurkenndi hæstv. forsrh. að sértækra aðgerða væri þörf og ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Finnst henni að þær aðgerðir sem hún boðaði muni duga eða þarf meira til? Ég er dálítið hrædd um það. En allt sem gert er er auðvitað af hinu góða. Það sem er óvissa nú og verður áfram er það hvað ríkisstjórnin er að gera. Hér breytast hugmyndir og tölur á klukkutíma fresti ef maður er hér stöðugt og ég treysti ekki þessari stjórn.