Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 15:52:32 (3722)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Fimm þúsund Íslendingar eru atvinnulausir núna. Það eru fimm þúsund Íslendingar, sem hafa ekki tækifæri til að selja vinnuafl sitt, það eina sem þetta fólk á. Það má gera ráð fyrir því að um fimmtán þúsund Íslendingar búi við atvinnuleysi með beinum eða óbeinum hætti. Það liggur fyrir að nærri fimmti hver unglingur á aldrinum 16--20, ára sem vill vera á vinnumarkaði, hefur enga vinnu og er skráður atvinnulaus. 17% þeirra sem eru skráðir atvinnulausir hafa verið atvinnulausir í meira en hálft ár. Hv. síðasti ræðumaður sagði að hæstv. félmrh. hefði vafalaust frekar en aðrir ráðherrar tilfinningar í þessu efni og ég vona að svo sé. En ég segi: Furðu vel tókst ráðherranum að leyna þeim tilfinningum í svari sínu áðan. Hæstv. ráðherra lét sér sæma að nefna það í þessari ræðu sinni þegar við stöndum frammi fyrir meira atvinnuleysi á Íslandi en nokkru sinni á þessari öld að það væri sem betur fer minna en annars staðar. Hæstv. ráðherra lét sér sæma að nefna EES sem von fyrir þetta fólk. Hæstv. ráðherra lét sér sæma að lýsa því yfir að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til væru einhver vonarglæta fyrir þetta fólk líka. Ég tel að ræða hæstv. félmrh. beri með sér alvarlegasta sjúkdóm ríkisstjórnar Íslands í dag sem er sá að hún er veruleikasvipt á öllum sviðum. Hún gerir sér ekki grein fyrir þeim vandamálum sem hér er við að glíma hjá því fólki sem hér er um að ræða. Þess vegna er það rétt sem Verkamannafélagið Dagsbrún sagði í gær:
    Í fyrsta lagi: Ríkisstjónin fari frá. Í öðru lagi: Alþingi fari heim. Í þriðja lagi: Efnt verði til kosninga. Að lokum segir í ályktun Verkamannfélagsins Dagsbrúnar: Tekið var undir með lófataki. Ég er sannfærður um það, virðulegur forseti, að það er í rauninni ekkert annað svar en að koma þessari stjórn frá og að kveikja líf milli samtakaviljans úti í þjóðfélaginu og pólitísks vilja á Alþingi til að skapa nýja stjórnarstefnu sem hrekur helstefnuna á braut.