Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 15:55:03 (3723)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar nota það sér helst til málsbóta hér þegar talið berst að atvinnuleysi að ástandið hér sé þó skömminni skárra en það er í Evrópu. Við séum ekki hér með atvinnuleysi á evrópskan mælikvarða. Ég vil segja að við siglum hraðbyri inn í þennan evrópska mælikvarða ef fram heldur sem horfir. Á sumum sviðum erum við með evrópskan mælikvarða í atvinnuleysi. Við erum t.d. komin á evrópskan mælikvarða í atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum þar sem við erum komin yfir 10% og hefur verið lengi svo. Við erum líka komin á evrópskan mælikvarða varðandi atvinnuleysi ungs fólks. Fólks á aldrinum 16--20 ára þar sem atvinnuleysi er 16%. Þetta eru evrópskir mælikvarðar sem við erum að tala um þarna. Það er auðvitað það alvarlegasta sem mun gerast hér ef fram heldur sem horfir, eins og

ég sagði áðan, að það mun gerast nákvæmlega það sama og úti í Evrópu. Atvinnuleysið mun hitta fyrst og fremst fyrir ungt fólk og konur. Þegar þetta tvennt er lagt saman þá fáum við út ungar konur og það eru þær sem verða helst fyrir barðinu á þessu og það er atvinnuleysi upp á 25% sem við erum komin með í löndum eins og Frakklandi og Þýskalandi.
    Aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Það hefur verið talað hér um námskeið og ýmislegt sem hægt væri að gera til að láta fólk nýta tíma sinn sem er atvinnulaust og margt af því er góðra gjalda vert og margt er auðvitað gert með það fyrir augum að fólk geti skapað sér vinnu eða fengið aðra vinnu, skipt um störf. En þessar aðgerðir eru eins og að skvetta vatni á atvinnuleysisgæsina ef ríkisstjórnarstefnan breytist ekki í aðalatriðum. Það sem ríkisstjórnin er að gera núna er að skrúfa allt hagkerfið niður með álögum á fjölskyldurnar í landinu og með þessum aðgerðum elur hún á ótta og þessi ótti leggst eins og lamandi hönd á frumkvæði fólks.
    Í gær var verið að gera grín að því að Evrópubandalagið væri með atvinnuskapandi hugmyndir sem væru byggðar á sálfræði. Þær byggja að 50% til á sálfræði. Auðvitað hefur sálfræði mikið að segja í þessum málum og það er einmitt sálfræði sem þessi ríkisstjórn beitir núna á fólkið í landinu sem dregur úr frumkvæði þess, sem dregur úr möguleikum þess til að skapa sér framtíð sjálft. (Forseti hringir.) Ég vil bara benda á eitt að lokum, forseti. Í stað þess að leggja á álögur þá væri hugsanlegt að létta þeim af eins og matarskattinum sem Danir tala um að gæti skapað 10 þúsund störf í Danmörku.