Fjáraukalög 1992

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 17:09:56 (3740)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég held nú að hv. þm. sleppi ekki svona vel frá þessari umræðu um atvinnuleysið því ef við skoðum atvinnuleysi og ríkisstjórnir í Evrópu þá kemur náttúrlega fljótt í ljós að það er engin sérstök fylgni á milli þessa tvenns sem hv. þm. nefndi. Þvert á móti hafa ýmsir haldið því fram --- og meira að segja innan alþýðuflokkanna á Norðurlöndum en þar eru ríkjandi vinstriflokkar --- að það sem gerst hafi verið það að velferðarkerfið var orðið allt of dýrt, svo dýrt að atvinnulífið treysti sér ekki til að standa undir því lengur. Það má kannski segja að samningurinn, sem gerður var í lok september á milli stjórnar- og stjórnarandstöðuflokkanna í Svíþjóð, beri þess merki að einmitt sé skilningur á slíku. Ég held því að þó að hv. þm. vilji trúa því að það sé markmið íhaldsstjórna að hækka atvinnuleysistölur þá er það ekki svo. Það sem hins vegar einkennir stundum stjórnir, sem hún kallar íhaldsstjórnir og eru væntanlega hér á landi stjórnir sem Sjálfstfl. á aðild að, er að slíkar stjórnir hafa þá döngun í sér til að takast á við vandamálin á kostnað okkar sem njótum þess að vera hér í dag og njótum þjónustu ríkisins en reynum ekki eins og stundum hefur verið gert að koma kostnaðinum yfir á komandi kynslóðir.