Evrópskt efnahagssvæði

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 22:07:13 (3763)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vil þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir hans málefnalegu ræðu. Ég held að það hafi stuðlað mjög að þeirri samstöðu sem hann rakti hér og taldi nauðsynlega og ég er honum alveg hjartanlega sammála um að er nauðsynleg og mér þótti það nú eiginlega liggja í hans orðum að honum væri lítið að vanbúnaði að styðja þetta frv. sem er til umræðu hér og það hefði stuðlað mjög að því að skapa þá samstöðu sem hvatt er til. Og ég heyrði ekki nokkurt atriði í hans ræðu sem í raun og veru kemur í veg fyrir að hann geti lagt þessu máli lið.
    Hann spurði tveggja spurninga í upphafi varðandi framhald málsins þegar þetta frv. hefur orðið að lögum og við stöndum frammi fyrir nýrri bókun eða nýjum texta til þess að taka mið af þeim breytingum sem eru óhjákvæmilegar vegna brottfalls Sviss. Það hefur verið rætt í utanmrn. hvernig að því máli yrði staðið. Það liggur fyrir að það yrði í formi bókunar. Við lögfestum eina af þeim bókunum sem fylgja þessum samningi, bókun 1, eins og kemur fram í frv. sem við erum hér að ræða. Hvort þessi bókun verður í því formi að það þurfi að lögfesta hana eða unnt sé að veita heimild til fullgildingar á henni með þál. er óráðið og ræðst af efni bókunarinnar. En ég vil aðeins nefna það að þetta hefur verið rætt í utanrmn. án þess að komast að niðurstöðu, enda held ég að það verði ekki unnt að komast að niðurstöðu um þennan þátt málsins fyrr en við sjáum nákvæmlega hvernig þessi bókun verður. En í frv. sem við erum að ræða er gefið fordæmi um það að ein af þessum bókunum er lögfest en hinar eru fullgiltar með hefðbundnum hætti að því er varðar þjóðréttarlegar skuldbindingar.