Evrópskt efnahagssvæði

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 22:22:15 (3771)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu ekki tími til þess í umræðum um andsvör að ræða þá hluti sem hæstv. iðnrh. nefndi í lok síns andsvars áðan. Ég tel að aðalatriðið sem hefur komið fram og skiptir máli í þessu og er mikilvægt sé að það er ljóst að þó að menn kjósi að ljúka þessu máli núna að hluta til fyrir hátíðarnar og eftir hátíðarnar þá kemur málið inn áfram, en auðvitað geng ég út frá því að miðað við það hvernig menn hafa staðið að meðhöndlun frv. sjálfs í hv. utanrmn. þá muni menn líka vanda sig við afgreiðslu á þessari viðbótarbókun ef til kemur. Það er ljóst að ef hún á að hafa sömu stöðu og aðrar bókanir, sem gert er ráð fyrir að lögfesta í frv., þá verður auðvitað að vera um að ræða frv. til breytinga á lögum eða um staðfestingu á þessari bókun. Þetta mál verður bersýnilega hér til meðferðar meira og minna fram eftir öllum vetri og ekkert skrýtið við það, en mér finnst að þessi andsvaralota staðfesti það sem við höfum verið að reyna að segja í stjórnarandstöðunni: Þessi afgreiðsla á málinu nú er hálfgert ómark vegna þess að það er ekki fullburða. Það verður fleira að koma til.