Evrópskt efnahagssvæði

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 22:27:27 (3774)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Sú fyrsta spurning sem íslensk þjóð hlýtur að velta fyrir sér varðandi þær umræður sem fara fram á Alþingi Íslendinga og hafa farið fram að undanförnu er það um hvað er deilt. Það er deilt um tvennt. Það er deilt um það hvort íslenska þingið hafi heimildir til að samþykkja þann samning sem lagður hefur verið hér fram í formi þingskjals til samþykktar og það er deilt um það hvort skynsamlegt sé að samþykkja samninginn.
    Fyrra atriðið fjallar um það umboð sem þeir menn hafa sem hér eru. Þeir hafa ekki hlotið vald sitt frá guði. Það hefur ekki komið utan úr geimnum. Það vald er stundlegt, það fékkst í seinustu alþingiskosningum. Rammi þess er settur af stjórnarskránni og það á í lengsta falli að vera til fjögurra ára. Við heyrðum menn tala um það mjög ákveðið að samningar sem gerðir væru fram yfir þann tíma ættu ekki rétt á sér. Ég minnist þess að formaður Alþfl. talaði um búvörusamninga sem væru gerðir fram í tímann og ættu ekki rétt á sér. Það væri verið að framlengja vald manna sem væru með umboð til fjögurra ára. Ég minnist þess að núv. landbrh. taldi það óhæfu að kosið yrði á þeim tíma sem íslensk lög gera ráð fyrir vegna þess að þá væru menn búnir að hafa völd í þessu landi lengur en fjögur ár upp á dag.
    Ég hef ekki setið á Alþingi Íslendinga lengi miðað við þá sem hafa hér mesta þingreynslu. En ég hef aldrei á þeim tíma, sem ég hef setið, fengið bréf frá lagaprófessor þar sem hann heldur því fram að Alþingi Íslendinga hafi ekki heimildir til að samþykkja frv. sem er til umræðu. Þetta er lagaprófessor við Háskóla Íslands. Alþingi hefur hugsað sér að verja miklu fé frá skattborgurunum til þess að þar sé haldið uppi kennslu, m.a. í lagadeild. Sá sem skrifar þetta bréf hefur farið í gegnum rannsóknarnefnd sem háskólinn stendur að þar sem lagt er mat á það hvort hann sé hæfur til að gegna þeirri stöðu sem hann gegnir í dag. Og Alþingi Íslendinga ætlar að veita fjármagni til þess að halda áfram kennslu í lagadeildinni. En Alþingi Íslendinga hefur ákveðið að lýsa því yfir að maðurinn sé óhæfur til að gefa þá lýsingu sem hann gaf á því hvað væri löglegt að samþykkja hér. Forseti hefur úrskurðað að það sem hann sendi hér skriflega til þingsins standist ekki.
    Utanrrh. hefur afhent okkur skjal sem er vel prentað á góðan pappír. Okkur er sagt að þetta skjal sé lögfræðiálit en gallinn við skjalið er aftur á móti sá að ekki nokkur maður skrifar nafnið sitt undir það. Það kannast ekki nokkur maður við það að vera höfundur að þessu skjali. Þetta skjal er til utanrmn. frá utanrrh. og er gert vegna þess, eins og hér segir, með leyfi hæstv. forseta, að óskað var eftir því við utanrrn. að það léti nefndinni í té lögfræðilegt álit er tæki mið af þessum tillögum og því frv. til tillagna um EES er liggur fyrir Alþingi. Greinargerðin var unnin í samráði við starfsmenn dómsmála- og viðskiptaráðuneyta. Ekkert nafn undir. Engin æra lögð að veði fyrir því að hér sé um lögfræðilegt álit að ræða. Við könnumst við það stundum þegar menn setja poka yfir höfuðið á sér og koma fram í fylkingum og vilja ekki að það sjáist hverjir þeir eru. Er það marktækt út frá vísindalegu sjónarmiði að hampa skjali sem enginn höfundur er að en halda því engu að síður fram að það sé unnið á vísindalegan hátt? ( EJK: Nei, það er ekki marktækt.) Það er ekki marktækt, segir hér sá sem er nú löglærður í þeim hópi sem hér er inni.
    Mig undrar það stórum að það skuli geta gerst að menn leggi fram skjal sem kallað er lögfræðilegt álit sem ekki er skrifað undir. Ég hef lesið þó nokkra dóma Hæstaréttar. Þar koma oft fram sérálit. Þeir sem skrifa þau sérálit hverju sinni setja nafnið sitt undir. Þeir sem kveða upp dóminn gera það líka. Þannig standa þeir að verki sem leggja sæmd sína í það verk sem þeir vinna. Og sá sem skrifar þetta bréf til forseta Alþingis hefur legið undir því ámæli að það hafi enginn beðið hann að skrifa bréfið. Það er nú skaði að hv. 5. þm. Norðurl. v. er ekki í salnum. Ég hef nefnilega fengið ógrynni af bréfum frá Verslunarráði Íslands. Ég hygg að þeir séu eiginlega í sérflokki með útgáfustarfsemina. Ég hef aldrei litið þeim það til lasts að ég hafi ekki beðið um þessi bréf, aldrei. Ég hef fengið þau. Ég hef aldrei staðið hér upp með reigingi í þessum stól og sagt: Hvað eru þessir menn að senda mér bréf óumbeðið? Það hefur eitt bréf borist óumbeðið í þessu máli, það er rétt, frá Háskóla Íslands sem við segjum að sé æðsta menntastofnun þessa lands. Þá rísa menn upp og telja af því að það sé óumbeðið sé það ekki marktækt. ( Gripið fram í: En hann hefur þorað að skrifa undir það samt.) En hann setti nafnið sitt undir það. Hann lagði æru sína að veði fyrir því að það sem hann setti á þetta blað væri rétt, heiður sinn, starfsheiður. Svo lengi sem hann verður við Háskóla Íslands liggur það fyrir að sérhver nemenda hans getur skoðað þetta bréf, lesið það og metið hvort maðurinn sem skrifaði það hafi verið að segja einhverja vitleysu eða hvort það standist. Og ástæðan fyrir því að hann skrifar bréfið er sú að tveir aðilar hafa gert með sér samning sem var bundinn því fororði að hann yrði samþykktur af þeim löndum sem standa að þessum stofnunum og eitt landið, Sviss,

fellir samninginn. Það er sá rökstuðningur sem hér kemur fram. Og með leyfi forseta, ætla ég að lesa hér:
    ,,Lagatextinn samkvæmt því frv. sem nú liggur fyrir Alþingi er því ekki í samræmi við raunveruleikann. Af því leiðir að mínu viti að íslensk lög leyfa ekki að lagafrv. verði afgreitt frá Alþingi í óbreyttri mynd, hvorki með samþykki eða synjun.``
    Nú er það svo að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson gerði samning við Efnahagsbandalagið eins og flestir muna. Gallinn var bara sá að Efnahagsbandalagið skrifaði ekki undir þann samning. Hvernig hefði nú mönnum orðið við hefði þingmanninum dottið í hug að leggja til að hann yrði samþykktur hér og sagt: Svo verður bara að koma í ljós hvort þeir fást til að skrifa undir þetta. Við samþykkjum þetta hér sem lagafrv. Ætli mönnum hefði ekki þótt það nokkuð skrýtið? Er hugsanlegt að einhverjir sjálfstæðismenn hefðu farið í málþóf út af slíku? Beðið um umræður um þingsköp? Nei, það er ekki hugsanlegt.
    Þá komum við að hinum fáránleikanum í þessari athugun. Ef bókari í fyrirtæki vinnur sitt verk, gerir upp fyrirtækið á ársgrundvelli og skilar til stjórnar sínu verki, þá er það hefð í þessu landi að þessum blessuðum bókara er ekki treyst betur en svo en endurskoðandi verður að fara yfir verkið.
    En hvernig snýr þetta að þinginu og utanrrh.? Jú. Utanrrh. sér í þessu tilfelli um framkvæmd verksins og endurskoðunina líka. Nafnlausir sérfræðingar utanrrn. eru endurskoðendurnir að verkinu. Eigum við nú ekki að spara þessari þjóð kostnað og leggja niður þessa fjandans endurskoðendur sem eru að fara yfir reikninga fyrirtækja út um allt og við erum borgandi stórfé og það er halli á mörgum fyrirtækjum í landinu? Hugsið ykkur sparnaðinn að leggja þetta allt niður. Kannski fengju þeir vinnu erlendis og gjaldeyristekjur rynnu heim til Íslendinga. En það getur ekki bæði verið rétt hvað vinnubrögð snertir að hafa endurskoðendur á bókarana, sem auðvitað eru ekki valdir af eigendum fyrirtækjanna nema þeir séu heiðarlegir menn, en þegar við látum endurskoða og meta það hvort það sé rétt að standa að verki eins og utanrrn. leggur til sér utanrrn. sjálft um endurskoðunina. Þetta er náttúrlega fáránleiki í vinnubrögðum og leiðir hugann að því að t.d. Finnar hafa komið sér upp lögfræðiaðstöðu sem leggur mat á það áður en frv. eru samþykkt á þeirra þingi hvort þau standast stjórnarskrána.
    Um úrskurð forseta ætla ég ekki að hafa önnur orð en þau að hans er valdið til að hafa rangt fyrir sér. Það deili ég ekki um sem þingmaður. Hans er það vald að mega hafa rangt fyrir sér. En eru menn að taka sér meiri völd en þeir hafa? Hér er knattspyrnuþjálfari og ágætur þingmaður í okkar hópi. Hann hefur heimild til að stýra sínu liði samkvæmt vissum leikreglum. Hins vegar má hann ekki hlaupa inn á völlinn og skora mark þó að mikið liggi við og fyrirséð að tap gæti orðið ef hann léti þetta tækifæri fara fram hjá af því að þá er hann að brjóta þær leikreglur sem samið hefur verið um að fara eftir. Í knattspyrnu dugar ekki að setja höndina á boltann og koma honum í markið. Jafnvel þó að það sé eini möguleikinn á erfiðum stundum þá verður að nota aðrar aðferðir.
    Hér hefur líka verið samið um leikreglur. Það hefur verið samið um þær leikreglur að Alþingi Íslendinga megi samþykkja lög sem eru innan ramma stjórnarskrárinnar. Ef Alþingi samþykkir lög sem ekki eru innan ramma stjórnarskrárinnar, þá ber Alþingi að hafa í heiti frv. upplýsingar um að þetta sé frv. til stjórnarskipunarlaga og um leið og frv. er samþykkt verður að rjúfa þing og efna til kosninga. Þetta eru leikreglurnar sem eru í gildi. Svo einfalt er það.
    Þeir sem aftur á móti hugsa sem svo: Það er allt í lagi að brjóta þessar leikreglur. Það koma þá bara athugasemdir seinna. Þeir eru í reynd að taka sér vald sem þeir hafa ekki. Það deilir enginn um það að núverandi stjórnarmeirihluti komst til valda á löglegan hátt. Hann gerði það. Það deilir enginn um það. En við höfum dæmi um það í hinni siðmenntuðu Evrópu að valdhafar komust til valda á löglegan hátt en tóku sér svo meira vald á eftir. Nú væri hugsanlegt að hv. þm. Tómas Ingi Olrich hugleiddi það í sínum þekkingarheimi á sögunni hvort ekki sé hægt að finna nokkuð örlagarík atvik úr evrópskri sögu þar sem menn komu til valda en tóku sér svo meiri völd.
    Það er mjög skiljanlegt að núv. ríkisstjórn hafi ekki áhuga á því að breyta stjórnarskránni og fara í kosningar. Hún situr í erfiðri glímu í efnahagsmálum. Skoðanakannanir boða slæma útreið ef hún færi í kosningar og hún hefur tekið þá ákvörðun að mínu viti að taka sér meira vald en hún hefur. Hún hefur tekið þá ákvörðun að taka ekki mark á lagaprófessor við Háskóla Íslands. Hún hefur tekið þá ákvörðun að taka ekki mark á lærðasta þjóðréttarfræðingi Íslendinga og hún siglir áfram fullum seglum undir því merki að taka sér meira vald en hún hefur.
    Ég held að það sé óhjákvæmilegt af því að við hér erum margir sakaðir um að við sýnum ekki næga stillingu, það séu ekki nógu friðsamir menn á þingi og tali jafnvel á Alþingi Íslendinga þó að það sé komin nótt, að lesa örstutt upp úr bókinni ,,Dómsmálaráðherrann`` til þess að það komi fram hvernig menn brugðust við þegar þeir töldu að sitjandi ríkisstjórn væri að taka sér meira vald en hún hefði. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa upp á bls. 215 úr bókinni ,,Dómsmálaráðherrann`` sem er skrifuð af Guðjóni Friðrikssyni:
    ,,Bernharð Stefánsson, einn af þingmönnum Framsfl., hefur skýrt frá því sem gerðist í þinginu þennan dag. Hann segir:
    ,,Svo rann upp hinn eftirminnilegi 14. apríl 1931. Þingfundur var boðaður í sameinuðu þingi og á dagskrá var vantraust á ríkisstjórnina og skyldi umræðunni útvarpað. Þingmenn settust í sæti sín og Jón Þorláksson tók upp blöð, sem án efa var ræðan sem hann ætlaði að halda, og fór að blaða í þau. En eftir að fundur var settur kveður forsætisráðherra, Tryggvi Þórhallsson, sér hljóðs utan dagskrár. Ekki verður ræða hans rakin hér, enda stendur hún í Alþingistíðindunum, en auðsætt var að andstæðingarnir skildu ekki fyrst lengi vel hvert hann stefndi en héldu að hann ætlaði að segja af sér án vantrausts. Heyrðist t.d. Sigurður Eggerz tauta: ,,Þetta er alveg rétt af honum að segja bara af sér.``
    Ólafur Thors kom ekki inn á fundinn fyrr en nokkuð var liðið á ræðu Tryggva. Held ég að hann hafi orðið einna fyrstur til að skilja hvað Tryggvi var að fara. Leit hann í fyrstu allt í kringum sig, mjög undrandi á svip, svo fór andlit hans að roðna en að lokum sló á það fölva miklum. Magnús Jónsson prófessor sat við hlið mér. Sá ég að hann gaf mönnum nánar gætur, ekki síst Ólafi Thors og var nokkuð kíminn á svip. Engin ókyrrð var á meðan Tryggvi talaði heldur sátu allir eins og í kirkju. Að lokum lýsti hann í umboði konungs yfir því að Alþingi væri rofið.
    Samstundis vék forsetinn, Ásgeir Ásgeirsson, úr forsetastólnum. Þá varð hið mesta uppþot. Fyrstur varð Héðinn Valdimarsson til, spratt upp, lamdi í borðið og hrópaði: ,,Niður með stjórnina og kónginn.`` Ólafur Thors varð næstur og hrópaði: ,,Já, niður með stjórnina.`` ,,Og kónginn,`` bætti Héðinn við.
    Síðan óð Ólafur fram á gólfið og varpaði óþvegnum orðum á ráðherrana og þjófkenndi þá. Fleiri stjórnarandstæðingar fylgdu dæmi hans. Hákon Kristófersson, þingmaður Barðstrendinga, óð fram og sagði: ,,Eigum við ekki að kasta þessum helvítis mönnum út um gluggann,`` en Magnús Guðmundsson stöðvaði hann.
    Ekki datt né draup af Jóni Þorlákssyni. Sat hann kyrr í sæti sínu og sagði ekkert. Ég býst við, þó að ég viti það ekki, að hann hafi orðið alveg lamaður af reiði því hann var víst þá farinn að kenna hjartabilunar.````
    Ég hygg þegar menn lesa þetta að það hátterni sem hér er um að ræða verði að skoða í því ljósi að þessir menn trúðu því að sitjandi ríkisstjórn Íslands væri að taka sér vald sem hún hefði ekki. Og það er ekki skrýtið þó að þeir reiddust. Hins vegar fer það ekki á milli mála að slíkur hiti var í mönnum næstu viku, eins og kemur hér fram á eftir, að það er ekki hægt að líta svo á að ástandið hafi verið hættulaust. Það má þakka fyrir að það leiddi ekki til þeirra atburða að einhver félli.
    Hér hefur einn af okkar reyndu þingmönnum orðað það svo að ef menn vaði áfram með þá hluti sem hér eru lagðir til geti það leitt til þess að bræður muni berjast. Það eru stór orð. En þeir sem haga þannig vinnubrögðum sínum að þeir virða ekki leikreglur, kalla á stóra hluti og stóra atburði.
    Í þessari bók kemur það fram á öðrum stað að fræðimenn deildu um það eftir á hvort þetta hefði verið löglegt. En sá sem bókina ritar fullyrðir m.a. að Bjarni Benediktsson hafi komist að þeirri niðurstöðu að þingrofið hafi verið lögleg aðgerð á sínum tíma. Eitt er víst að þingrofi hefur verið beitt síðan og allir hafa litið á það sem löglega aðgerð.
    Ég vek athygli á því að ekkert af þeim þjóðþingum sem hefur haft til umfjöllunar þann samning sem íslenska þjóðþingið hefur nú til umfjöllunar hefur talið að hægt væri að afgreiða hann með einföldum meiri hluta. Ekkert þjóðþing hefur talið að svo væri. Öll þjóðþing hafa viðurkennt, og það viðurkenndu líka þeir lögfræðingar utanrrh. Íslands sem skrifuðu undir nafni, að það væri um valdaafsal að ræða í þessum samningi en deilt hefur verið um hversu mikið.
    Ég hygg þess vegna að það sé rétt að taka næst fyrir þann þátt hvernig utanrrh. hefur unnið að málinu. Það er verulegt umhugsunarefni. Hann fær það samþykkt á fjárlögum að varið sé þó nokkru fé til kynningarstarfa. Þetta fé fékk hann til ráðstöfunar. Þessu fé er ráðstafað af utanrrn. án þess að með nokkrum skipulegum hætti sé vitað um að það hafi verið notað til þess að fræða íslenska þjóð um þennan samning, heldur fyrst og fremst verið áróðursfjármagn fyrir Alþfl. til þess að misnota í þessari stöðu. Eftir að fræðslan hafði farið fram notaði hann hluta af þessum peningum til að kanna hvaða viðhorf væru nú hjá íslenskri þjóð gagnvart samningnum. Niðurstaðan bar ekki vitni um að mikil kennsla hefði átt sér stað. Það hafði ekkert tekist neitt betur að kenna alþýðuflokksmönnum en hinum. Þeir virtust meira að segja ruglaðastir í því hvar við stæðum yfir höfuð í þessu efnum. Sumir töldu að við værum þegar komnir inn í EB. Ýtir það náttúrlega mjög á þá skoðun að það sé búið að ræða það miklu meira á bak við í Alþfl. en menn almennt vita að markmiðið sé að fara inn í EB. ( Gripið fram í: Í Sjálfstfl. líka.) Ég vil svara því strax, sem hér var gripið fram í, með Sjálfstfl. að mér létti --- og lái mér það hver sem er --- þegar hæstv. forsrh. lýsti því yfir að það kæmi ekki til greina að ganga í EB. Mér létti við að heyra þau tíðindi. Mér fannst þau skipta miklu máli. Og ég vil segja að þau orð voru sögð við þær aðstæður og í því andrúmslofti og á þann hátt að ég trúi því að þar hafi full meining legið að baki.
    Það næsta sem hæstv. utanrrh. gerði í þessu máli, eftir að hann sá að málið var tapað ef það yrði lagt fyrir þjóðina, var að beita sér heiftarlega gegn því að þetta mál færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann beitti sér heiftarlega. Hann beitti sér svo fast að hann bar við að þjóðin væri ófær um að dæma. Það er dálítið sérkennilegt að ráðherra skuli ganga eins langt og hann gerði í þeim efnum.
    Næsta spurning hlýtur þá að vera: Getur íslenska þjóðþingið treyst ráðherranum? Erlendis er það svo að ef ráðherra er staðinn að því að segja ósatt vitandi vits hefur í þeim ríkjum þar sem þinghefð er sterk alltaf komið fram krafa um að maðurinn segi af sér. Þær þjóðir vilja ekki una því. --- Mér þætti vænt um ef það yrði slökkt á tölvukerfinu í hliðarsalnum. Það er ekki gott að hafa tölvurnar í gangi þannig að þær valdi hávaða hér inni.
    Ég ætla að gera örlitla athugun á því hvort við höfum það metið af fréttastofum Íslands hvort hæstv. utanrrh. segir satt eða ekki þegar hann vill koma sínu máli fram.

    Það vill svo til að Ingimar Ingimarsson spyr ráðherrann mjög ákveðið varðandi þau vinnubrögð sem eigi að viðhafa ef samningurinn verði felldur af einu aðildarríkinu. Okkur berast svokölluð ljósvakahandrit og hér er ég með ljósvakahandrit sem er frétt 7. des. 1992. Fréttin ber nafnið: Sagði Jón Baldvin ósatt? Fréttamaður er Ingimar Ingimarsson, sá sem mests trúnaðar hefur notið allra fréttamanna hjá sjónvarpinu í þessu máli. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa fréttina:
    ,,Í EES-samningnum er hvergi tekið fram að ríki sem eiga eftir að fullgilda samninginn fái ekki að taka þátt í ráðstefnu ríkja sem boðað yrði til ef eitthvert ríki hafnaði honum. Utanrrh. hélt öðru fram í fréttum Sjónvarpsins í gær eftir að ljóst var að Svisslendingar hefðu hafnað samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu.``
    Hvað er það kallað þegar menn halda öðru fram en satt er? Þá hefur það á íslensku máli verið orðað á þann veg að þeir segðu ósatt. ( EKJ: Gæti verið misskilningur.) Ég ætla að lesa svolítið meira. Við hv. þm. Eyjólfur Konráð höfum ekki verið að tala um einhvern sem veit lítið um málið. Hér höfum við verið að tala um þann mann sem efar það ekki augnablik sjálfur að hann viti mest allra um málið. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa hér áfram:
    ,,Jón Baldvin Hannibalsson utanrrh.: Við höfum ekki aðgang að því borði ef við erum ekki búnir að samþykkja núna fyrir jólin.`` Að hvað borði höfum við ekki aðgang? Það er að samningaborðinu þar sem ráðstefnan verður haldin um það hvernig beri að standa að framhaldi málsins.
    ,,Ingimar Ingimarsson: Það er beinlínis kveðið á um það í bókun með samningnum.
    Jón Baldvin: Já, já.``
    Það er þetta já, sem Ingimar Ingimarsson, fréttamaður Sjónvarpsins, kannar með þeim vitsmunum að sjálfsögðu sem honum eru gefnir, með þeirri nákvæmni sem fréttamanninum eru gefnir, eftir þeim gögnum sem hann hefur hvort sé rétt svar undir þessum kringumstæðum. Hann kemst að þeirri niðurstöðu sem nú skal lesin, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hvorki í texta bókunarinnar né í samþykktum með þeirri grein sem um er að ræða er hægt að finna þessum orðum ráðherrans stað, aðeins að ráðstefna skuli haldin með öðrum samningsaðilum en þeim sem ekki hafi ákveðið að hafna samningnum. Og utanrrh. notaði annað orðalag í þinginu í dag.``
    Það er umhugsunarefni hvernig dómstólar taka á því ef einhver sem leiddur er fram sem vitni segir ósatt og það er hægt að sanna það að vitnið hefur sagt ósatt í umræddu máli. Þá komast dómstólarnir einfaldlega að þeirri niðurstöðu að um ónothæft vitni sé að ræða. Trúverðugleiki þess sé ekki meiri en svo að ekki sé hægt að nota það sem vitni. Frammi fyrir hvaða vanda stendur íslensk þjóð þegar þeir hlutir sem jafnauðvelt er að sannreyna og hérna voru til umræðu um formsatriði eru ósannir? Þá hlýtur íslensk þjóð að standa frammi fyrir þeirri spurningu: Getur hún trúað einu einasta orði sem þessi maður segir? Ef hún ætlar að vinsa það úr hvað sé satt og hvað sé e.t.v. ósatt, þá verður hún að hafa jafnmikla þekkingu og hæstv. ráðherra. Annars er vonlaust hjá henni að meta það hvenær hann sé að segja satt og hvenær ekki.
    Ég verð að segja eins og er að þetta minnir mig á þá sögu sem mér var sögð einu sinni af manni sem þótti fara á kostum oft með sannleikann. Það var sagt að það hafi aldrei komið að sök í hans heimasveit því þar þekktu hann allir. Þar kom það aldrei að sök. Hitt er svo aftur á móti umhugsunarefni hvort þetta kemur að sök erlendis því að þó að sumir séu þekktir, þá er ekki víst að þeir séu svo þekktir alls staðar að það komi hvergi að sök. Og þegar það gerist að utanrrh. Íslands telur skynsamlegast hjá sér í stöðunni af því að Alþingi Íslendinga afgreiði mál ekki jafnhratt og hann vill að spotta þingið á erlendri grund, þá hljótum við að leiða hugann að því hvort svo sé komið að þessi maður, hæstv. utanrrh., sé svo grátt leikinn af Alþingi Íslendinga að innri þörf knýi hann til slíkra yfirlýsinga.
    Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að taka örlítið dæmi úr mannkynssögunni.
    Churchill mátti þola það á millistríðsárunum að Bretar trúðu honum ekki þegar hann hélt sínar ræður í þinginu. Þeir trúðu honum ekki fyrr en stríðið brast á. Þá gerðu þeir hann að forsætisráðherra Bretlands. Þessi maður mátti þola það í kosningunum eftir að vera felldur. Hann hafði verið nógu góður til að vaka dag og nótt þegar stríðið stóð yfir og standa með sinni þjóð. Þegar stríðið er búið er hann felldur og annar ráðherra úr hans ríkisstjórn verður forsætisráðherra. Það var Attlee. Winston Churchill varð ævareiður og spottaði Attlee miskunnarlaust. Háðið var svo biturt að það var með ólíkindum. Hann byrjaði t.d. þingræðu með því að segja: ,,Tómur leigubíll kom niður að Downing-stræti 10. Út úr bílnum sté Attlee.`` Og eftir þessu voru hans athugasemdir. Svo fór þessi maður til Bandaríkjanna og fréttamennirnir hópuðust í kringum hann. Nú ætluðu þeir að hafa skemmtiefni. Nú átti að fá Winston Churchill til að segja eitthvað gott á kostnað breska Verkamannaflokksins. En svarið sem hann gaf lifir: ,,Heima er ég stjórnarandstæðingur en erlendis er ég stjórnarsinni.``
    Þannig hefja mikilmenni sig yfir daganna þras en sumir virðast ekki ná því að stækka í neinu samræmi við það sem þeir þyrftu að stækka miðað við það embætti sem þeir bera.
    Þá ætla ég að koma að þeim þætti sem fjölmiðlar íslenskir hafa, sumir hverjir og það er misjafnt, leyft sér í sambandi við kynningu á þingstörfunum sem hér hafa farið fram varðandi þetta mál. Ég gat um virðingarvert atvik þegar Ingimar Ingimarsson kannar það og sannreynir hvort þær upplýsingar sem hann er að fá hjá ráðherra séu réttar eða ekki, en ég ætla að taka sýnishorn af öðrum vinnubrögðum. Hér hef ég ljósvakahandrit sem er dagsett 15. des 1992 og það er Bylgjan, hádegisfréttir. Ég ætla að hlífa fréttamanninum við því að nafngreina hann, en heiti fréttarinar er ,,Málþóf á Alþingi?`` og hér stendur:

    ,,Búast má við áframhaldandi hörku af hálfu stjórnarandstöðunnar á þingi í dag þegar EES-málið verður tekið aftur til umræðu. Samkvæmt þingskapalögum er hægt að takmarka ræðutíma en þingmenn stjórnarandstöðu héldu mjög langar ræður fram á nótt og töfðu þannig afgreiðslu málsins.
    Klukkan var farin að ganga þrjú þegar Ragnar Arnalds, þingmaður Alþb., lagði til að þingfundi yrði frestað eftir að þingmenn stjórnarandstöðunnar töfðu umræðuna og afgreiðslu málsins með löngum ræðuhöldum, t.d. talaði Steingrímur Hermannsson Framsfl. sleitulaust í tvær og hálfa klukkustund.``
    Ég hef aldrei vitað það áður að þegar verið er að tala fyrir nál. manns sem er í þeirri nefnd sem málið kemur úr, þá sé maðurinn með málþóf. Ég verð að óska hv. 3. þm. Reykv., Birni Bjarnasyni, til hamingju með það að þeir skuli ekki taka það líka fram að hann hafi verið með málþóf því að hann flutti þó nokkuð skörulega ræðu um þetta mál og skildi engan undra. Málið er talið eitt það stærsta sem komið hefur og er örugglega það stærsta á seinni hluta þessarar aldar. Og um hvað deildu menn? Menn deildu um það hvort það væri sanngjarnt að eftir að klukkan var orðin 12 ættu fulltrúar minni hlutans að þurfa að tala fyrir sínum nál. Það er málþóf. Svartasta skammdegið eftir miðnætti var talinn sá tími sem boðlegur var fyrir fulltrúa minni hlutans.
    Það er kannski engin furða þó að hátterni hæstv. utanrrh. og svona einföld fréttamennska þegar menn telja að það sé einfaldasta lausnin til að vinna fyrir kaupinu sínu að senda bara eina frétt: Málþóf, málþóf, málþóf. Það þarf hvorki mikla hæfni í réttritun né stíl til þess að koma slíku frá sér. En það er ekki mikil fræðsla sem þjóðin fær um það hvað er að gerast á Alþingi ef slík fréttamennska er viðhöfð. Og íslenskir fréttamenn verða að gera sér grein fyrir því að á þeim hvílir gífurleg ábyrgð.
    Það er viðurkennt í hinum vestræna heimi að frjálsir fjölmiðlar og heiðarlegir eru undirstaðan fyrir því að lýðræðið haldi velli. Svo einfalt er það mál. Ef þeir telja að þeir hafi rétt til þess og eigi að skrumskæla allt sem gert er í þjóðþinginu eru þeir að vinna að falli lýðræðisins. Svo einfalt er það mál.
    Þá er ég kominn að seinni spurningunni sem spurt er um: Er rétt að samþykkja þennan samning út frá hagsmunum lands og þjóðar?
    Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa hér upp úr 1. gr. hina bókstafssettu liði sem stundum hafa verið taldir aðalatriði þessa samnings, þ.e. frelsin fjögur. Fyrsta atriðið þar eru frjálsir vöruflutningar. Við Íslendingar höfum verið að berjast fyrir því að fá viðskiptafrelsi og við vorum búnir að ná samningum um frjálsa sölu á iðnaðarvöru en í reynd getum við sagt: Við vorum búnir að kaupa aukið tollfrelsi með sjávarafurðir með því að samþykkja frjálsa sölu á iðnaðarvarningi til landsins frá ákveðnum svæðum. Því að svo mjög þrengdi þetta að íslenskum iðnaði að megnið af iðnaðinum sem var til þegar þetta var gert, húsgagnaiðnaði og mörgu fleiru, lagði upp laupana. Það er ömurlegt að horfa á það í dag hvílík fækkun hefur orðið í iðnaðarstörfum í ráðherratíð hæstv. iðnrh. Það eru daprir dagar fyrir íslenskan iðnað að horfa á það hve mörg störf hafa tapast.
    En við viljum vissulega vinna að frjálsari vöruflutningum. Það eru alveg hreinar línur. Það vilja allir Íslendingar. Þar aftur á móti þurfum við, eins og fleiri, að gá að okkur út frá tveimur sjónarmiðum. Annars vegar út frá öryggissjónarmiði og hins vegar út frá því sjónarmiði að hafa vald á hámarksverði sem hugsanlega gæti orðið á ákveðnum vöruflokkum. Bretum var það ærið umhugsunarefni í stríðinu þegar þeir áttu eins mánaðar matarbirgðir hvort hægt væri að búa við það að þjóðin framleiddi ekki verulegan mat fyrir sig sjálfa. Og þeir tóku upp þó nokkra vernd fyrir sinn landbúnað á eftir til þess að tryggja það. Það hefur EB gert meira en nokkrir aðrir að vernda sinn landbúnað af öryggisástæðum. Nú segja menn: Það eru siglingar um allt. Það skellur ekki á stríð. En eitt kjarnorkuslys á meginlandi Evrópu gæti komið mönnum til að hugsa um öryggi í þessum efnum og það munaði nú ekki miklu.
    Ég held þess vegna að út frá öryggissjónarmiðum sé óhjákvæmilegt annað en Íslendingar framleiði þó nokkuð mikið af sinni landbúnaðarvöru. Við flytjum inn gífurlega mikið af landbúnaðarvörum, korn og sykur og margt, margt fleira að sjálfsögðu. En þetta hefur ekki verið deiluefni. Við höfum viljað auka frelsið í vöruinnflutningi.
    Þá komum við að hinu atriðinu, þ.e. næsta frelsinu, sem eru frjálsir fólksflutningar. Ég held að menn séu svo rökheldir að það sé lítil von að skoðunum verði breytt hjá hv. þm. miðað við það hvað þeir eru búnir að tala sig fasta margir hverjir í þessu máli. En ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp úr ræðu Bjarna Benediktssonar sem hann flutti á Þingvöllum í júní 1993. ( Gripið fram í: Ekki getur það nú verið rétt ártal.) Hér er strax einn búinn að lýsa því yfir að rangt sé frá sagt. ( Gripið fram í: Ekki 1993.) Ég vil nú leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa þetta sem hér er skrifað og treysta betur ártölum prentaðs máls en minni hæstv. umhvrh. og láta svo á það reyna hvort reynist rétt. Í þessari ræðu sem flutt var á Þingvöllum í júní 1943 þegar sjálfstæðismálið var að komast á lokastig er m.a. gerð grein fyrir ástæðum þess að sambandinu við Danmörku var ekki slitið á árunum 1941--1943. Reifuð rök Íslendinga fyrir algerum skilnaði landanna og svarað úrtölum þeirra sem lögðust gegn stofnun lýðveldis á Íslandi fyrir lok heimsstyrjaldarinnar. E.t.v. hefur hæstv. umhvrh. talið að hann hafi flutt þetta þegar Ísland varð lýðveldi. Það er kannski hugsanlegt að þarna hafi skotist til. Þá er skiljanlegt að hann hafi talið að það hafi átt að vera 1944, ég held að við deilum nú ekki um það. Með leyfi hæstv. forseta vil ég þá hefja lestur ræðunnar:
    ,,Á síðustu tímum eru sumir menn farnir að kalla alla lífsbaráttu þjóðarinnar sjálfstæðisbaráttu hennar. Um þetta væri eigi nema allt gott að segja ef það væri gert til að efla skilning þjóðarinnar á mikilvægi þessarar baráttu en í þess stað sýnist það beinlínis gert til að villa þjóðinni sýn. Draga huga hennar frá hinni eiginlegu sjálfstæðisbaráttu, fá hana til að trúa að stjórnskipulegt sjálfstæði sé algert aukaatriði sjálfstæðismálsins heldur séu það allt önnur málefni sem þar hafi mesta þýðingu.
    En hvert er þá hið rétta eðli sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar?
    Hún er hliðstæð baráttu ánauðugs manns fyrir því að fá fullt frelsi og mannréttindi. Sá sem í ánauð er heldur lífi og limum þrátt fyrir ánauð sína. Hann getur haft nóg að bíta og brenna. Og vel má vera og honum líði allt eins vel eða betur en sumum frjálsum mönnum. Þrátt fyrir það unir enginn, sem einhver manndómur er í blóð borinn, því að vera í ánauð. Hann finnur og veit að ánauðin skerðir manngildi hans og er ósamboðin hverjum manni. Honum er og fullljóst að þótt vel sé séð fyrir efnahagslegum þörfum hans, þá eru samt alls staðar líkur til að hann beri meira úr býtum ef hann er sjálfur eigandi starfsorku sinnar en ef annar ráðstafar henni fyrst og fremst sjálfum sér til hags.
    Aðstaða þjóðar, sem seld er undir yfirráð annarrar, er hin sama og þess sem í ánauð er. Slík var aðstaða íslensku þjóðarinnar allt til 1918 þrátt fyrir nokkra rýmkun á rétti hennar síðustu áratugina þar á undan.
    En sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar að þessu leyti lauk með sigri 1918, segja sumir. Vissulega má til sanns vegar færa að þá hafi ánauð hennar verið lokið. En var fullt stjórnskipulegt frelsi hennar þar með fengið? Var verkefni hinnar eiginlegu sjálfstæðisbaráttu þar með úr sögunni?
    Mundi sá bóndi telja sig að fullu frjálsan sem að vísu mætti ákveða sjálfum sér og heimafólki sínu reglur til að fara eftir en þyrfti þó að leita samþykkis óðalsbónda á fjarlægri jörð til þess að fyrirmælin hefðu nokkra þýðingu? Ef hann mætti ekki hafa skipti við nágranna sína nema fyrir milligöngu óðalsbóndans eða öllu heldur vinnumanna hans, yrði að hafa einhvern þessara vinnumanna með í förinni ef hann skryppi í kaupstað, og engin þessara viðskipta hefðu lögformlegt gildi nema óðalsbóndinn samþykkti? Ef hann að vísu mætti hafa eigin hund til að reka úr túninu en hefði þó, til þess að víst væri að fjárreksturinn færi fram eftir öllum listarinnar reglum, jafnframt sérstaklega vaninn hund frá óðalsbóndanum til túngæslunnar? Og mundi bóndi telja þann eignarrétt á jörð sinni mikils virði sem því skilyrði væri háður að 30 menn aðrir mættu hafa af henni öll hin sömu not og sjálfur hann?
    Slíku frelsi mundi enginn íslenskur bóndi una til lengdar. Auðvitað þættu honum þessi kjör betri en alger ánauð. En honum mundi þykja það furðulegt ef honum væri sagt að nú væri frelsisbaráttu hans lokið. Og honum mundi þykja það óþörf spurning ef hann væri að því spurður hvort hann vildi nú ekki una þessum kjörum sínum enn um sinn þegar sá tími væri kominn að hann ætti rétt á algeru frelsi.
    En aðstaða íslensku þjóðarinnar er eftir sambandslögunum einmitt hin sama og bónda þess sem nú var lýst.
    Íslendingar mega að vísu setja sér lög en þau hafa ekki stjórnskipulegt gildi nema konungurinn í Kaupmannahöfn samþykki þau. Íslendingar fara ekki sjálfir með utanríkismál sín og mega enga samninga gera við önnur ríki nema í samráði við eða fyrir atbeina danska utanríkisráðuneytisins og konungurinn í Kaupmannahöfn verður að samþykkja þá til þess að þeir hafi nokkurt gildi. Íslendingum er að vísu heimilt að hafa eigin varðskip til gæslu landhelgi sinnar en þeim eru jafnframt til frekara öryggis fengin dönsk skip til gæslunnar. Íslendingar eiga að vísu sjálfir land sitt en þeir eru skyldir til að þola 30 sinnum mannfleiri þjóð, Dönum, öll hin sömu not af landinu og þeir sjálfir hafa.
    Ætla mætti að ekki þyrfti að hvetja neinn Íslending til að una slíku frelsi eigi lengur en hann er skyldur til samkvæmt ströngustu lögum. En sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar er orðin löng og í henni hefur margt furðulegt fyrir komið.``
    Hvað er það sem er inntakið í upphafsorðum þessarar ræðu? Það er sú staðreynd að 30 sinnum fjölmennari þjóð á að hafa sama rétt á Íslandi og íslenska þjóðin. Það er það atriði sem dr. Bjarni Benediktsson, seinna formaður Sjálfstfl. og fyrrv. forsrh., taldi gersamlega óaðgengilegan kost fyrir íslenska þjóð. En hversu mjög hefði honum þá ekki fundist um það ef við hefðum nú verið að ákveða að veita milli 200--300 millj. manna sama rétt og Íslendingum í þessu landi? Honum þótti það vonlaus staða að 30 sinnum fjölmennari þjóð hefði sama rétt, hvað þá með þegar það eru fleiri hundruð milljónir sem eiga fá sama rétt.
    Ég hygg að það sé ærið umhugsunarefni að átta sig á þessum orðum. Þau eru ekki sögð út í bláinn. Þau eru sögð af því tilefni að hann er að brýna það fyrir sínum tilheyrendum að það skipti höfuðmáli að vera húsbóndi á sinni landareign hvað það snertir að þar hafi ekki aðrir sama rétt. Og ef Íslendingar láta sér detta það í hug að hægt sé fyrir þjóðina að komast óskemmd frá því tiltæki að ætla öllum þeim hópi sem býr á þessu svæði frjálsra fólksflutninga til landsins eins og hverjum sýnist þá hefur stórt og mikið gerst og alvarlegt gerst.
    Við erum með útlendingaeftirlit ( Gripið fram í: Hvar er stjórnarandstaðan?) sem við höfum verið að greiða laun. Þeir hafa verið að vísa mönnum frá landinu, neita mönnum frá hinni mætu Evrópu um landvist, mönnum sem voru með sakaskrá fyrir eitt og annað. Eftirleiðis mun þetta lið allt hafa fulla heimild til að koma hingað til lands. Skjátlaðist fyrrv. forsrh. þessarar þjóðar? Var hann að tala um aukaatriði í upphafi sinnar ræðu? Ég viðurkenni það að ég hef mikið brotið um það heilann hvort sú kynslóð, sem nú er í landinu og hefur aldrei búið við það sem sá sem flutti þessa ræðu þekkti af eigin raun, sé dómbær að gera sér grein fyrir því hvað verið er að tala um.
    Ég hef sagt úr þessum ræðustól: Vilja menn að mafían hafi frjálsa umferð um Ísland eins og henni

sýnist? Ég veit að sumum finnst það alveg voðalegt að maður skuli segja svona lagað. Það vill nú samt svo til að mafían er á Ítalíu og Ítalía er hluti af þessu svæði. Við höfum verið að berjast við löggæslu í þessu landi. Við höfum verið að berjast við það að draga úr eiturlyfjainnflutningi. Hvernig halda menn að sú glíma standi eftir þetta? Ég held að það sé hollt að hugleiða þessi orð ræðunnar, það sé hollt að hugleiða það hvað af því getur hlotist ef við veitum þessum hóp sama rétt í okkar landi og við höfum sjálfir.
    Ég get ekki stillt mig um það, herra forseti, að lesa hér örstutt um annað atriði sem heyrist svo oft í dag að það hefði getað verið sagt í gær:
    ,,Hafa þá verið til Íslendingar sem eigi vildu algert stjórnskipulegt frelsi þjóðar sinnar? Vonandi ekki. En hinir hafa stundum verið allt of margir sem töldu þjóðina frekar hafa þörf fyrir eitthvað annað en þetta. Sögðu að fyrst bæri að tryggja efnahaginn eða þjóðernið sjálft eða eitthvað enn annað sem þeim þá sýndist á glötunar barmi.``
    Kannist þið við þessi orð úr daglegri umræðu? Kannist þið við þau? Þau glymja stöðugt. Fullveldið skiptir ekki máli, segja menn. Það sem skiptir máli er efnahagurinn. En þessi foringi Sjálfstfl. hikaði ekki við að fullyrða hvað skipti höfuðmáli. Það var stjórnskipulegt frelsi þjóðarinnar sem skipti öllu máli. Hitt er svo umhugsunarefni þegar maður hugsar um danska kónginn og EB að EB er að því leyti tæknilega skipulagðara fyrirbrigði að það setur ramma um það hvað Íslendingar mega gera. Og innan þess ramma mega þeir svo dansa ef þeir skrifa undir samninginn. En ef þeir brjóta þá verður það sjálfkrafa óvirkt.
    Það er nú svo að stundum fellur maður í freistni og ég ætla að falla í þá freistni hér af því að hæstv. umhvrh. heiðrar salinn með nærveru sinni að lesa hér upp örlítið úr ræðunni sem var ætlað Alþýðublaðinu. Svo segir í bókinni ,,Land og lýðveldi`` úr sömu ræðu:
    ,,Í ályktun þessari er þeirri eindregnu áskorun beint til stjórnar og Alþingis að fresta úrslitum sambandsmálsins ,,þangað til báðir aðilar hafi talast við. Sambandsslit án þess að viðræður hafi farið fram eru líkleg til að vekja gremju gegn Íslandi annars staðar á Norðurlöndum og gera aðstöðu Íslendinga þar erfiðari þar sem einhliða ákvörðun Íslendinga í þessu máli yrði talin andstæð norrænum sambúðarvenjum``.
    Eftir að þessi skilaboð bárust frá Danmörku hefur svo við brugðið að Alþýðublaðið hefur birt hverja greinina á eftir annarri þar sem hvatt er til undanhalds. Er þetta framferði blaðsins í algerri andstöðu við skýlausar yfirlýsingar fulltrúa flokksins í stjórnarskrárnefndinni. En þar lögðu bæði formaður flokksins [Stefán Jóhann Stefánsson] og annar aðalmaður [Haraldur Guðmundsson] eindregið til að lýðveldi yrði eigi stofnað síðar en 17. júní 1944. Bendir þessi klofningur til að rétt sé það sem Þjóðviljinn hvað eftir annað hefur sagt að alger sundurþykkja sé með forráðamönnum Alþýðublaðsins og þingflokknum. Vonandi verða hin góðu öfl þingflokksins ráðandi í flokknum í heild um þetta mál áður en lýkur.``
    Það hefur nú verið svo og er enn vandamál að það eru ekki alltaf hin góðu öfl sem ráða í Alþfl.
    Ég vil halda því fram sem staðreynd að Bjarni heitinn Benediktsson, fyrrv. forsrh., hafi haft mjög mótandi áhrif á marga sjálfstæðismenn sem enn eru uppi. Og ég vil vitna hér í grein eftir Tómas Inga Olrich sem hann kallar ,,Tvöfeldni framsóknarmanna.`` Þar segir svo, með leyfi forseta, á einum stað:
    ,,Það breytir ekki þeirri staðreynd að ríkisstjórnin hefur hafið umræður um að hleypa útlendingum inn í auðlind þjóðarinnar. Á sama tíma auglýsir Framsókn forsrh. sem sérstakan riddara íslenskra hagsmuna sem berst með oddi og egg gegn því að útlendingar fái hér ítök með landakaupum eða með samningum um aðgang að fiskimiðum. Þessari tvöfeldni Framsfl. og ríkisstjórnarinnar skulum við hafna. Veitum þeim ekki tækifæri til að ganga þessi skref. Refsum þeim fyrir að sigla undir fölsku flaggi. --- Tómas Ingi Olrich.``
    En hann gaf eina yfirlýsingu sem hann hefði nú kannski ekki átt að gefa miðað við þá afstöðu sem hann virðist hafa tekið í dag en þessi yfirlýsing, með leyfi forseta, er í sömu grein og er svohljóðandi:
    ,,Ég tek það skýrt fram að ef ég verð kosinn til starfa á Alþingi Íslendinga mun ég aldrei samþykkja að útlendingar fái sama rétt til að kaupa land hér og við Íslendingar. Hér er um grundvallaratriði að ræða. ( Gripið fram í: Hver sagði þetta?) Þetta sagði núv. hv. 5. þm. Norðurl. e., Tómas Ingi Olrich, áður en hann var kosinn.
    Ég held að það sé rétt að kynna það örfáum orðum hvernig sú Evrópa hefur blasað við sem við erum nú að tala um að stór hluti eigi að fá frjálsa flutninga til Íslands. Heimild mín er Morgunblaðið, grein sem Ólafur Pálsson skrifaði 17. des.
    ,,1908. Austurríska keisaradæmið leggur undir sig Bosníu og Hersegovínu.
    1911. Ítalir fara í stríð við Tyrki. Leggja undir sig Trípolís og fleira.
    1912. Búlgaría, Serbía, Grikkland og Montenegró ráðast á Tyrkland.
    1913. Tyrkir eru þvingaðir til að láta af hendi til Grikklands eyjar í Miðjarðarhafi.
    1914. Írland á barmi borgarastyrjaldar. Þessa óróa gætir enn í dag.
    1914. Heimsstyrjöldin brýst út. Álfan einn blóðvöllur, grimmdin óskapleg.
    Bylting í Rússlandi. Eitt atriði er fróðlegt að staldra hér við og það var í ársbyrjun 1918 að Rússland gafst upp fyrir Þjóðverjum. Vopnahlésskilmálarnir voru þeir hörðustu sem þá þekktust á síðari tímum og sýnir það hroka og græðgi Þjóðverjanna. Rússar urðu að láta af yfirráðum Úkraínu og Svartahafshafna, landsvæðis með 56 millj. manna eða 32% af íbúunum, þriðju hluta járnbrautakerfisins, 73% af járnnámunum, 89% af kolanámunum og annað eftir því. Það sama var uppi á teningnum rúmum þremur áratugum síðar og sýnir hve rík drottnunargræðgin er í blóð borin með Þjóðverjum. Alls mun styrjöldin hafa kostað 10 millj. manna lífið og 22 millj. urðu örkumla.
    Þó friður hafi verið saminn 1918 hélt óróinn áfram með byltingum og blóðsúthellingum.
    1919 hertóku Grikkir borg í Litlu-Asíu með vitund Breta og Frakka en fjölmargir menn af grísku bergi brotnir bjuggu þar víða við hafið. Tyrkir brugðust hart við og ráku Grikkina burt. Þ.e. þá sem eftir voru. Áætlað hefur verið að milljón manns hafi verið slátrað þarna í námunda við strönda, mörgum með sveðjum og hnífum.
    1920. Pólland var ekki stórt land eftir friðarsamningana og það árið réðust þeir með aðstoð Frakka inn í Rússland og lögðu undir sig 200 km landsvæði meðfram endilöngum landamærunum í austri. Í Eystrasaltslöndum ríkti sannkölluð ógnaröld sem entist í áratugi. Mussolini hrifsar völdin á Ítalíu. Pyndingar og morð þar ekki úr sögunni.
    1933. Hitler náði völdum í Þýskalandi og náði sömu ógnartökum á þjóðinni og á nágrönnum sínum.
    1935. Mussolini ræðst á Abessiníu af mikilli grimmd.
    1936. Spænska borgarastyrjöldin hófst. Þar komu Þjóðverjar og Ítalir mikið við sögu.
    1938. Þýskaland hertók Austurríki án blóðsúthellinga.
    1939. Þýskaland hernam Tékkóslóvakíu.
    Sama ár réðist það á Pólland og síðari heimsstyrjöldin var hafin með þeirri ógnarskelfingu sem engin orð fá lýst. Hún kostaði alls um 50 millj. manna lífið. Alls enginn veit hve örkumla mennirnir voru margir. Eftir það ríkti ógnarjafnvægi þar til fyrir ári, en nú hefur aftur losnað um böndin og við getum þá séð af dæminu um Júgóslavíu hvað enn getur gerst. Í fleiri löndum er þung undiralda og þar eru minnihlutahópar sem bíða færis að rísa upp.``
    Hér stendur hver þingmaðurinn upp eftir annan og segir: Þessar þjóðir eru líkastar okkur. Við eigum að leggja kapp á að kynnast menningu þeirra, hátterni og siðum. Þetta eru nú afreksverkin.
    Er þá ekkert að gerast í dag í þessum löndum? Er allt stillt? Er friðurinn kominn? Hefur það gerst að lömbin og ljónin leika sér saman? ( ÖS: Í Alþfl.) Það má vel vera að það hafi gerst í Alþfl. Það er margt sem gerist í draumaheimum manna og margt gerist í Alþfl. og menn hafa meira að segja minnst á Lísu í Undralandi þegar þeir hafa viljað vera skáldlegir hér í þessum stól. En trúir því nokkur maður sem fylgist með þeim suðupotti þjóðernisátaka og illinda sem Evrópa er að blóðbaðinu mikla sé lokið á þessu svæði? Ég segi bara fyrir mig, mér fannst Danir sýna skynsemi þegar þeir höfnuðu því að verða þátttakendur í sameiginlegum her í Evrópu. Þeir höfnuðu því og þeir höfnuðu sameiginlegri mynt.
    Hér tala menn um að það verði frjálsir fólksflutningar til landsins. Ef við mundum nú samþykkja bæði frjálsa fólksflutninga og frjálsa fjármagnsflutninga, þá værum við í reynd að afhenda þessum þjóðum jafna aðstöðu á við Íslendinga í að nota auðlindir þjóðarinnar. Þá er svo komið í minni ræðu að ég verð að vitna, og geri það með glöðu gerði, í Eyjólf Konráð Jónsson sem hefur oftar en nokkur annar í þessum ræðustól vakið athygli á því hvílíkan gífurlegan auð Íslendingar eiga. Og með leyfi forseta ætla ég að lesa upp örlitla frétt í Morgunblaðinu þar sem fram kemur hvað Færeyingar eru að glíma við þessa dagana. Fréttin er frá Færeyjum:
    ,,Vonir um olíuundur. Talsmaður British Petroleum, Jamie Jardine, hefur staðfest við Morgunblaðið að borað hafi verið eftir olíu milli Færeyja og Hjaltlands á bresku yfirráðasvæði, 22 km utan við færeysku lögsöguna. Talið er að olíulindin sé um 470 milljarða íslenskra króna virði en heildarskuldir Færeyinga nema 82 milljörðum. Danir undirrituðu á mánudag samning um afsal réttar yfir hafsbotni innan 200 mílna fiskveiðilögsögu Færeyinga. Þá er ein hindrun eftir á vegi olíurannsókna Færeyinga, deilur við Breta um miðlínu milli Færeyja og Hjaltlands. Næsti fundur um miðlínu er boðaður í mars. Thomas Arabo, ráðherra í landsstjórninni, vonast eftir að hægt verði að hefja mælingar innan lögsögunnar í sumar. Eyjólfur Konráð Jónsson alþingismaður segir að taka þurfi upp samninga um Rockall-svæðið í ljósi olíufundarins við Færeyjar. Bretar hafa að undanförnu mælt skjálftavikni á hafsbotni nær Rockall til að kanna möguleika á olíu. Niðurstöðum hefur verið haldið leyndum.``
    Allar skuldir Færeyinga gufa upp eins og náttfall við sólaruppkomu ef þeir finna olíuauð innan sinnar landhelgi. En hæstv. iðnrh. hefur ekki þurft að bíða eftir því að Danir undirrituðu neina heimild til þess að hefja rannsókn á því svæði sem Íslendingum tilheyrir. Framtakið hefur einfaldlega ekki verið til staðar. Það er alvarlegt að þurfa að segja þetta, en þannig er staðan. Þannig er staðan. Hæstv. iðnrh. horfir á það að mönnum sem vinna við iðnað í landinu fækkar og telur hafsbotninn í kringum Ísland ekki það verkefni að það hafi forgang að athuga hvort þar finnist olía. Þetta er vissulega umhugsunarefni. En hitt er ekki minna umhugsunarefni að hugleiða það hvaða þjóð það er sem hefur tryggt þessari litlu þjóð sjálfstæði í reynd.
    Það voru að sjálfsögðu stærstu tíðindin fyrir Íslendinga á sínum tíma þegar við lýstum yfir lýðveldisstofnuninni að Bandaríki Norður-Ameríku viðurkenndu okkur sem frjálsa og fullvalda þjóð. Og hvert getum við leitað eftir stuðningi til þess að þau réttindi sem hafréttarsáttmálinn veitir okkur tryggi okkur það að enginn hafi þau réttindi af okkur með ofbeldi? Við getum ekki treyst nema á eina þjóð í því sambandi

að hún muni standa með Íslendingum og tryggja að við njótum þess auðs sem við eigum. Eftir að við urðum sjálfstæð þjóð höfum við nefnilega átt í deilum við Evrópu meira og minna allan tímann vegna þess að nýlenduveldin gömlu hafa engu gleymt. Þau hafa engu gleymt. En landhelgin sem Íslendingar hafa til að rannsaka og leita í er margföld að stærð miðað við Færeyjar. Hún er svo stór að það má undrum sæta að svo fámenn þjóð skuli sitja yfir öðrum eins auð.
    Og hvers vegna skyldu þá fulltrúar EB leggja slíkt ofurkapp á að fá að veiða karfa við Íslandsstrendur? Er það eitthvað sem skiptir þá stóru máli í dag að fá að veiða þann karfa? Nei. Það sem skiptir þá stóru máli er að koma sínum skipum inn fyrir íslenska landhelgi og skapa hér veiðiréttarhefð á ný eins og þeir mundu orða það vegna þess að þeir sem eiga yfirborð og veiða þar munu fá botninn til yfirráða eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur sagt oftar en aðrir í þessum ræðustól. Halda menn að þeir séu í þessari glímu að eiga við þessa karfatitti? Þeir eru fyrst og fremst í glímunni um það hverjir fá að drottna yfir þessu hafsvæði í framtíðinni. Og þjóð eins og Íslendingar sem eiga meiri auðæfi á mann en nokkur önnur þjóð í Evrópu er aldeilis að breiða út faðminn þegar hún býður frjálsa fólksflutninga inn á sitt svæði.
    Vitið þið hvað Hong Kong væri reiðubúið til að borga fyrir svo sem eina sýslu á Íslandi ef þeir mættu flytja þangað? Vita menn það? Þeir hafa leitað eftir því að fá að setjast að á Reykhólum og spurt hversu mikið fjármagn þeir þyrftu að setja þar í atvinnuuppbyggingu til þess að mega flytja áður en Kína tekur yfir. Við svörum ekki svoleiðis málaleitan. Við virðumst aftur á móti vera reiðubúnir að afhenda það sem dýrmætast er nokkurri þjóð og það er landið. Hafa menn ekki fylgst með því hvaða áhyggjur Sameinuðu þjóðirnar hafa af þeirri fólksmergð sem er að verða á jörðinni? Vita menn að í Kína er fólksmergðin svo mikil að af þeirri ástæðu einni saman gætu þeir ekki tekið upp bílaumferð vegna þess að það væri ekki pláss fyrir alla bílana? Það væri ekki pláss fyrir þá og þeir verða að nota reiðhjólin. Hafa menn hugleitt þessa stöðu? Hafa menn hugleitt hvílíkur auður liggur í þeirri aðstöðu sem Íslendingar eiga?
    Í Newsweek er því haldið fram að það hráefni sem e.t.v. komi næstu heimsstyrjöld af stað á þessum hnetti sé vatnið. Skorturinn á vatni sé það sem muni leika mannkynið verst á næstu árum. Við höfum séð upphaf slíkra átaka þar sem þjóðir hafa stoppað fljót á landamærum, safnað vatninu úr ánni í stöðuvatn og ætlað að nýta það sjálfir á þurrkatímum, en hinir sem búa neðar í öðru landi fá ekki dropa. Skynja menn hvað er að gerast? Og þjóð sem hefur þessa möguleika ætlar hún núna, þegar hún er búin að ná því eins og hún hafði náð í lok stjórnartíðar seinustu ríkisstjórnar að vera í 6.--7. sæti með þjóðarframleiðslu á mann og hefur hæst náð því að vera í 4. sæti með þjóðarframleiðslu, á mann að snúa við og jafna út sínum lífskjörum, sem hún hefur náð með því að vinna hörðum höndum, miðað við þá aðila sem Evrópa er búin að taka innan sinna vébanda og hafa náð miklu, miklu styttra? Er það þetta sem menn ætla að bjóða börnunum sínum á næstu árum?
    Hvað tekur það langan tíma þangað til Íslendingar verða orðnir minnihlutaaðili í þessu landi ef við samþykkjum þetta? Hvað tekur það langan tíma þangað til það verða fleiri útlendingar í landinu en Íslendingar og hvaða afleiðingar á það eftir að hafa á viðhorf manna? Hvaða afleiðingar fylgja slíku yfirleitt þar sem það hefur gerst annars staðar? Vita menn það? Þar verða átök, þar verða kynþáttafordómar og þar verða deilur sem endar í blóðugum innbyrðis átökum. Ætla Þjóðverjar að bíða eftir því að Tyrkirnir verði fleiri í Þýskalandi en Þjóðverjar? Eru þeir að bíða eftir því? Ég held nú ekki. Þeir eru farnir af stað og byrjaðir að kveikja í flóttamannabúðunum og þeir hóta og hóta og hóta. Fólkið sem hefur leitað þar athvarfs getur ekki búið við öryggi stundinni lengur. Þeir vilja fá það út úr landinu vegna þeirra siða sem það hefur og þýska ríkið virðist ekki ráða við það að halda aga á þessu. Jú, jú. Þeir segja: Við setjum lög. Gott og vel. Þeir stoppa kannski Tyrkina með lögum. En þeir stoppa hvorki Spánverja, Portúgali eða Ítali með lögum.
    Spurningin er einfaldlega þessi: Er það rétt sem bandarískir félagsfræðingar halda fram? Þetta ævintýri, sem sett hefur verið af stað um Bandaríki Evrópu, Rómarsáttmálinn og það ævintýri, gengur það upp? Þeir halda því fram að það muni ekki ganga upp.
    Bandaríkin fóru í gegnum sinn hreinsunareld með borgarastyrjöld eins og allir vita. Þar er dreifing á fólkinu. Dreifingin er mikil. Þeldökkir menn dreifast um Bandaríkin, indíánar dreifast um Bandaríkin, Ítalir dreifast um Bandaríkin, Bretar dreifast um Bandaríkin og Frakkar. Vegna þessarar gífurlegu dreifingar hafa þeir náð þeim árangri að mynda þá þjóðernisvitund að þeir séu fyrst og fremst Bandaríkjamenn. Hvað á eftir að gerast í Evrópu áður en Frakkinn lítur á sig sem Evrópubúa nr. eitt en Frakka nr. tvö? Hvað á eftir að gerast í Þýskalandi áður en Þjóðverjinn lítur á sig sem Evrópubúa nr. eitt og Þjóðverja nr. tvö? Vitið þið það? Hvenær upplifum við það að knattspyrnuleikur á milli Þýskalands og Frakklands verði talinn á þann veg að það skipti engu máli hvor vinni af því að það sé Evrópa sem sigri? Búast menn við því að slíkur knattspyrnuleikur verði spilaður á þessari öld? Hvar er skilningur manna á félagsfræði sem telja að hægt sé að sópa saman þjóðum með þessum hætti? ( Gripið fram í: Það er ekki hægt.) Hvar hefur það gengið upp?
    Ég segi eins og er að þennan lið, b-liðinn, frjálsa fólksflutninga, tel ég gersamlega vonlaust að Íslendingar geti samþykkt.
    Liðirnir frjáls þjónustustarfsemi og frjáls flutningur fjármagns hafa nefnilega allt annað vægi ef frjálsir fólksflutningar fylgja með. Ef fjármagn kemur inn í landið án þess að fólk fylgi með, þá fylgir því

fjármagni atvinna fyrir Íslendinga. En ef fjármagnið kemur inn í landið og jafnhliða þúsund Portúgalar til að vinna við að byggja álver og þúsund Spánverjar til að vinna við að virkja Fljótsdalsvirkjun, þá eru menn að tala um allt aðra hluti.
    Ég veit ekki hvort menn telja að þó að öllum fyrirvörum sé rutt frá, sem settir voru fram þegar þessi mál voru rædd í Ósló á sínum tíma, sé endalaust hægt að berja á okkur óbreyttum liðsmönnum fyrri ríkisstjórnar og segja: Þið voruð búnir að samþykkja þetta. Ég hef aldrei samþykkt þetta. Það er staðreynd málsins. Tvisvar var það borið undir atkvæði í þingflokki Framsfl. hvort hæstv. utanrrh. ætti að fá ótakmarkað umboð til að semja um þessi mál og við sögðum nei.
    Ég hef það eftir þingflokksformanni Alþfl. að stefnt hafi verið að því að þessari umræðu ætti að ljúka á miðnætti en jafnframt að það miðnætti kæmi þegar ég væri búinn að ljúka minni ræðu. Og af því að um lærðasta manninn í röðum Alþfl. á Alþingi Íslendinga er að ræða, þá lít ég svo á að ekki sé nauðsyn að segja allt sem hægt er að segja um þetta mál í þessari ræðu. Ég hef heimild til að tala aftur við þessa umræðu ef svo færi. En ég vil segja sem mín lokaorð --- þeir vita mína afstöðu sem hafa fylgst með þannig að ég þarf ekki að uppljóstra neinu leyndarmáli --- ég lýsti því yfir í vor að ég teldi að hér væri um óaðgengilegan hlut að ræða. Við gætum ekki samþykkt þetta. En ég vil jafnframt lýsa því yfir að ég lít á mína dvöl á Alþingi Íslendinga sem mjög tímabundið fyrirbrigði. Þjóð ein hafði það fyrir reglu þegar hún lét hylla sína leiðtoga til að taka við sem leiðtoga að hann var jafnframt minntur á það stöðugt að hann ætti eftir að deyja og hans vera við völdin væri stundleg. Það er aðalatriðið að skila því til þess næsta, geta afhent það og sagt: Þetta var það Ísland sem mér var falið að gæta. Þetta er það Ísland sem ég ætla ykkur að taka við. Og það má skamma mig fyrir alla hluti varðandi það að þessi þjóð hafi fjárfest í ýmsu sem ekki hafi skilað arði. Það fylgir öllum fjárfestingum að sumt heppnast og annað ekki. En ég ætla ekki að ganga frá leiknum á þann hátt að ég afhendi ekki þeim næsta það sem mér var falið að gæta. Og í ljósi þess kemur það aldrei til að ég geti treyst mér til þess að samþykkja þennan samning, hvort sem stjórnarskrá eða eitthvað annað leyfði að ég gerði það. Stjórnarskráin leyfir það ekki heldur að mínu viti en hin ástæðan ein er ærin.