Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 13:18:36 (3896)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ef þessi grein verður samþykkt blasir við samdráttur, ef ekki gjaldþrot, í bóka- og blaðaútgáfu. Með þeim 14% virðisaukaskatti sem ríkisstjórnin ætlar að leggja á má reikna með að allt að 100 störf muni leggjast niður eða flytjast úr landi að mati Þjóðhagsstofnunar. Í greinargerð Þjóðhagsstofnunar segir að samkvæmt þessu megi ætla að bóka-, blaða- og tímaritaútgáfa muni dragast saman um 10--11% í heild í kjölfar 14% verðhækkunar.
    Í því vaxandi atvinnuleysi sem við okkur blasir er þetta óafsakanleg og óskynsamleg aðgerð enda magnar hún þann samdrátt sem þegar blasir við okkur. Jafnframt felur þessi tillögugrein í sér atlögu að bókmenntum og menningu þjóðarinnar.
    Stjórnarandstaðan mótmælir þessari tillögu harðlega og mun greiða atkvæði gegn henni.