Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 16:47:06 (4012)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Við 2. umr. um fjárlög fyrir 1993 gerði ég grein fyrir því að ég teldi nánast útilokað að reka Kristnesspítala miðað við þær fjárveitingar sem frv. til fjárlaga gerir ráð fyrir fyrir, fyrir um það bil 100 millj. kr. sem er niðurskurður um 40 millj. frá því sem er í ár. Það hlyti að kalla á verulegar breytingar á rekstri þessarar stofnunar og lama vissa rekstrarþætti ef svo yrði að málum staðið sem virtist blasa við. Ég vænti þess að milli umræðna yrðu mál spítalans skoðuð nánar og það kæmi þá fram ef það yrði niðurstaðan að flytja stofnunina frá Ríkisspítölum til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri hvað Fjórðungssjúkrahúsið teldi sig þurfa til þess að geta haldið þarna óbreyttum rekstri.
    Nú fengum við engar upplýsingar í fjárln. um það milli umræðna hvaða tillögur eða hugmyndir væru uppi um það hvernig standa ætti að þessum rekstri fyrir 100 millj. en ég þykist hafa haft af því fréttir síðan, í gær og núna í morgun, að þrátt fyrir ýtrasta aðhald og breytingar sem mundu leiða til þess að dregið yrði úr kostnaði við yfirstjórn, það yrði dregið úr kostnaði við rekstur eldhúss og þvottahúss og ýmiss konar öðrum hagræðingaraðferðum beitt, þá mundu 100 millj. samt ekki duga, það þyrfti a.m.k. að hækka þetta um 15--20 millj. kr. til þess að ekki yrði þarna verulegur samdráttur í þeirri þjónustu sem Kristnesspítali hefur hingað til veitt. Því er þessi tillaga borin upp hér um að fjárveitingarnar hækki um 20 millj. og vænti ég þess að hv. alþm. séu sammála um það að hækka svo fjárveitingar.
    Ég vil einnig taka það fram, hæstv. forseti, að í 6. gr. í brtt. fjárln. er gert ráð fyrir því að ráðherra sé heimilt að semja við stjórn Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri um rekstur Kristnesspítala og gera þá tilfærslu á fjármagni sem til þarf. Þó að þarna sé ekki getið um tölu eða neina upphæð, þá hefur verið rætt um það að tilfærslan frá Ríkisspítölum til FSA yrði ekki meiri en 100 millj. kr., enda teldi ég að það væri ekki lausn á málunum að flytja hærri upphæð frá Ríkisspítölunum og vona að það sé sameiginlegur skilningur þingmanna og hæstv. heilbr.- og trmrh. að þar séu menn þó þrátt fyrir allt aðeins að tala um 100 millj. frá Ríkisspítölunum og það verði að leysa málefni Kristnesspítala með öðrum hætti, með aukafjárveitingu á næsta ári ef ekki vill betur til og þessi tillaga fæst ekki samþykkt. Ég segi því já.