Afstaða Spánar til EES-samningsins

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 18:16:59 (4051)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Alþingi er nú komið fram yfir þann tíma sem gert var ráð fyrir að þingmenn fengju jólahlé og störfum þingsins væri lokið fyrir jól. Því veldur dráttur hér á þingstörfum varðandi mál sem ríkisstjórnin hefur viljað knýja fram og ekki aðeins það mál sem við vorum að greiða atkvæði um, frv. til fjárlaga, heldur sú krafa af hálfu stjórnvalda að halda inni á dagskránni fram undir þetta samningi um Evrópskt efnahagssvæði og því frv. sem honum tengist sem og tvíhliða sjávarútvegssamningi milli Evrópubandalagsins og Íslands. Forusta þingflokka ásamt forsætisnefnd hefur fjallað um þessa stöðu og við höfum verið að fá fregnir af því núna í dag hvernig ríkisstjórnin hugsar sér framhaldið, þar á meðal að ræða þessa samninga sem ég nefndi varðandi Evrópskt efnahagssvæði og sjávarútvegsmál sitt hvorum megin áramóta milli jóla og nýárs og strax að loknu þessu ári.
    Nú vorum við að fá fregnir um það að framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins hefði ekki samningsumboð. Það var að gerast á utanríkisráðherrafundi Evrópubandalagslandanna í dag í Brussel að Spánn neitaði að vera með í að veita framkvæmdastjórninni umboð til samninga og frágangs eftir þeim hugmyndum sem fram höfðu komið og utanríkiskommissar EB hafði mælt með, þ.e. það sem hæstv. utanrrh. hefur nefnt tæknilegar breytingar á samningnum. Það liggur því fyrir að þarna er ekkert samningsumboð þess aðila sem EFTA-ríkin þyrftu þá að tala við, en hæstv. utanrrh. hefur tjáð þinginu og alþjóð það að hér væri aðeins um minni háttar mál að ræða sem hægt væri að kippa í liðinn mjög fljótlega. Í fréttatilkynningum sem fyrir liggja frá NTB-fréttastofunni, frétt sem þaðan er komin, er greint frá því að ekki séu líkur á því að framkvæmdastjórnin fái samningsumboð fyrr en í fyrsta lagi á utanríkisráðherrafundi Evrópubandalagsríkjanna 1. febr. nk. og þá fyrst reyni á það hvort Spánn geri alvöru úr því að krefjast samningaviðræðna um breytingar á efni EES-samningsins. Hið sama kemur fram í fréttatilkynningu sem framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins hefur gefið út og þar er talað um samningaviðræður eða ,,negotiations`` á enskunni en ekki aðeins tæknilegar breytingar.
    Ég tel, virðulegur forseti, að þessar fréttir sem við vorum að fá hér undir atkvæðagreiðslu um fjárlög breyti þeirri stöðu sem fyrir hefur verið, að vísu ekki mati stjórnarandstæðinga á þessu máli heldur því sem hæstv. utanrrh. hefur fram haldið og samningamenn ríkisstjórnarflokkanna hér í sambandi við þinghaldið. Því tel ég nauðsynlegt og það er ósk mín til hæstv. forseta að þessi staða verði endurmetin í ljósi þeirra frétta sem fram hafa komið og menn reyni að ganga hér frá þinghaldi nú á næstu klukkustundum og þar til að þing aftur tekur til starfa samkvæmt starfsáætlun síðla í janúarmánuði. Það er ósk mín við hæstv. forseta að hann hlutist til um að svo verði.