Málefni aldraðra

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 00:02:34 (4098)


     Frsm. 1. minni hluta heilbr.- og trn. (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mjög mikið. Ég mælti hér fyrir nál. 1. minni hluta áðan og gerði nokkuð glögga grein fyrir afstöðu okkar sem hann mynda og eins hefur hv. þm. Svavar Gestsson gert það. Það væri dálítið mikilvægt, virðulegi forseti, ef hæstv. heilbrrh. væri tilbúinn til að hlusta eitt augnablik vegna þess og það er nú meginástæðan fyrir því að ég kem hér aftur upp við þessa umræðu að mér finnst í raun og veru ekki allt koma heim og saman í þeim efnum sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan um hvernig hægt væri að sinna þeirri brýnu þörf sem er fyrir hjúkrunarþjónustu hér á höfuðborgarsvæðinu og þá sérstaklega í Reykjavík.
    Það þarf ekkert að orðlengja það og það hefur komið fram við þessa umræðu að auðvitað er það hörmungarástand að þurfa að taka þær 160 millj. kr. sem Framkvæmdasjóður aldraðra hefur átt og á að hafa til uppbyggingar nú á næsta ári til reksturs. Og þau sjónarmið sem 1. minni hluti, sem við skipum hv. þm. Svavar Gestsson og Sigurður Þórólfsson, leggur til grundvallar, eru fyrst og fremst þau að það er til lítils að okkar mati að vera búinn að byggja hér upp glæsilegt húsnæði en hafa enga peninga til að reka viðkomandi stofnanir. Þær stofnanir nýtast auðvitað sáralítið og ekki neitt því fólki sem er í brýnni þörf og þarf að komast inn á þessar stofnanir. Því fannst okkur vera réttlætanlegt að standa að því núna tímabundið í eitt ár að þessar 160 millj. kr. væru teknar og þeim ráðstafað á árinu 1993 með þessum sérstaka hætti.
    Nú veit ég ekki, virðulegur forseti, hvort hæstv. heilbrrh. er hér einhvers staðar í námunda við þingsalinn og hvort hann heyrir til mín. ( Forseti: Forseti hefur gert ráðherranum viðvart og væntir þess að hann komi í salinn innan tíðar eða sé nærstaddur.) Þegar litið er yfir þennan lista sem hv. heilbr.- og trn. barst frá heilbrrn. og Framkvæmdasjóði aldraðra um það hvaða upphæðir það væru sem út af stæðu og hversu þeir aðilar, sem bíða eftir styrkveitingum á næstu 3--5 árum frá Framkvæmdasjóði, mega vænta, þá er það dálítið merkilegt að Reykjavík sker sig alveg úr í þessum efnum. Rúmlega helmingurinn af öllum þeim upphæðum sem gert er ráð fyrir að ráðstafa á næstu 3--5 árum eru upphæðir sem ætlað er að fara hingað til Reykjavíkur eða 620 millj. kr. af þeim 1.109 millj. sem gert er ráð fyrir að sjóðurinn þurfi á að halda á næstu 3--5 árum til þess að standa undir þeim loforðum sem gefin hafa verið um að hann muni fjármagna þessar byggingar.
    Þessi umræða sem hérna hefur farið fram hefur farið nokkuð vítt um völl og það er í sjálfu sér ágætt. Hún hefur farið út fyrir það að einskorðast eingöngu við Framkvæmdasjóðinn og þá fjármuni sem þar eru til ráðstöfunar. Hún hefur almennt fjallað um þau vandamál sem uppi eru í öldrunarþjónustunni og þá kannski ekki síst hér á þessu svæði. Það er mat okkar sem skipa þennan 1. minni hluta heilbr.- og trn. að einmitt það atriði að gera þessa breytingu aðeins til eins árs í senn tryggi það að þessi umræða muni fara fram á ári hverju.
    Hæstv. heilbr.- og trmrh. sagði það hér áðan að með því að setja þessar 70 millj. kr. í Eir á næsta ári væri hægt að sinna verulega brýnni þörf fyrir hjúkrunarsjúklinga í Reykjavík. Þetta er auðvitað alrangt. Við gleðjumst yfir því ef svo er að vistunarmatið sýni að það sé ekki nema 157 manns sem eru í brýnni þörf að komast inn á hjúkrunarheimili. Þetta er auðvitað mikil fækkun á hjúkrunarsjúklingum vegna þess að fyrir einu ári síðan var það mat öldrunarlækna hér í höfuðborginni að það væru 260--300 einstaklingar sem væru í brýnni þörf fyrir að komast inn á stofnun. Við skulum vona að sá árangur hafi orðið á undanförnum fáum mánuðum í raun þó að þessi árangur hafi náðst.
    Þessar 70 millj. kr. sem hefur verið ákveðið að ráðastafa í rekstur Hjúkrunarheimilisins Eirar í Grafarvogi, ef sú stofnun væri rekin allt árið fyrir þessar 70 millj. og ef mark má taka á þeim rekstraráætlunum sem frá heilbrrn. hafa komið um það hver kostnaður sé við hvert rúm á einu ári, þá er þarna ekki um að ræða nema 25 rúm vegna þess að það er gert ráð fyrir því í þeim áætlunum sem við sáum í heilbr.- og trn. frá heilbrrn. að hvert rúm á þessari stofnun muni á þessu ár kosta 2 millj. 750 þús. kr. þannig að þarna yrði ekki um nema 25 rúm að ræða. Og ef um 157 sjúklinga er að ræða sem eru í brýnni þörf að komast inn, þá vantar auðvitað mikið á að þörfinni sé að öllu fullnægt.
    Hins vegar er það svo að það verða á árinu 1993 yfir 100 rúm á sjúkrahúsunum í Reykjavík sem ekki munu verða í notkun vegna þess að þar er sparnaðurinn það mikill að menn hafa ákveðið að loka heilu

deildunum til þess að ná sparnaðarmarkmiðunum sem viðkomandi stofnunum eru sett. Væru þessi rúm hins vegar tekin í notkun, þá snerist myndin auðvitað örlítið við. En það eru bara engir peningar á fjárlögum til að taka þessi rúm í notkun á árinu 1993 til að sinna þeirri þörf sem þarna er fyrir hendi. En þegar maður lítur hins vegar yfir þennan lista um það hver loforðin séu í raun og hvernig Framkvæmdasjóðurinn sé búinn að binda útlán sín eða ráðstöfunarfé sitt á næstu þremur til fimm árum --- og það ber auðvitað að þakka fyrir það að fá þennan lista í hendur --- þá kemur nú ýmislegt í ljós. Og það er dálítið merkilegt og ég fullyrði að mér finnst að þeim peningum sem á að ráðstafa á næstu þremur til fimm árum sé ekki nógu vel ráðstafað ef þeim verður ráðstafað í samræmi við það sem þarna er veitt fyrirheit um. Vegna þess að af þeim 620 millj. kr., sem gert er ráð fyrir og loforð hafa verið veitt um að til ráðstöfunar verði, fara á milli 160 og 170 millj. kr. til þess að byggja upp þjónustumiðstöðvar í kringum íbúðir fyrir aldraða sem hafa verið að rísa á vegum og í samvinnu við Reykjavíkurborg.
    Hins vegar er rétt, sem fram kom hjá hæstv. ráðherra, að tekist hefur með skipulögðum hætti, og það er þakkarvert, að sinna mjög vel þjónustu við aldraða á árinu 1992 í gegnum heilsugæsluna í Reykjavík og kannski betur en oft áður. Hins vegar er það ekki einvörðungu heilsugæslan. Það er einnig sá samningur sem í gildi er milli Hjúkrunarfélags Íslands og Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga um þá þjónustu sem sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðingar veita, vegna þess að stór hluti af þeim hjúkrunarfræðingum sem starfa samkvæmt þessum samningi veita einmitt þjónustu á sviði öldrunarþjónustu. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort það sé rétt sem heyrst hefur að það standi til að gera grundvallarbreytingar á þessum samningi og binda hann einvörðungu við það að þarna sé um sérfræðiþjónustu af hálfu hjúkrunarfræðinganna að ræða.
    Menn verða að hafa í huga að það er grundvallaratriði að byggja upp heilsugæslustöð til þess að hægt sé að sinna þjónustu við gamla fólkið frá viðkomandi stofnun og breyta því fyrirkomulagi sem hefur verið í gildi, fyrirkomulagi sjálfstætt starfandi heimilislækna, vegna þess að þeir sinna ekki þessari þjónustu. Það eru einvörðungu heilsugæslustöðvarnar sem það gera. Á undanförnum árum hafa margar heilsugæslustöðvar verið byggðar upp, sérstaklega í Reykjavík og stöðvar sem þjóna Reykvíkingum, t.d. heilsugæslustöðin í Garðastræti, á Seltjarnarnesi, í Grafarvogi og í Mjódd. Þegar hæstv. heilbrrh. var að vígja heilsugæslustöðina í Mjódd kom það fram í máli hans, sem mér fannst vera mjög athyglisvert, að ekki nema 2.000 Reykvíkingar hafa í dag ekki aðgang að heilsugæslu eða heimilislæknum. Þetta er mikil breyting frá árunum 1989 og 1990 þegar 13 til 15 þúsund Reykvíkingar höfðu ekki aðgang að heilsugæslu og heimilislæknum.
    Hins vegar kom fram í grein eftir varaborgarfulltrúa Sjálfstfl. í Dagblaðinu í dag að þessar upplýsingar hæstv. heilbr.- og trmrh. sem komu fram við vígslu þessarar nýju heilsugæslustöðvar --- ég tók þær upp í blaðagrein sem ég skrifaði í Dagblaðið fyrir nokkru síðan --- væru rangar. Ég hef ekki gengið úr skugga um hvort svo sé með samtölum við starfsfólk sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins en ég treysti því auðvitað að það væri rétt sem hæstv. ráðherra sagði að þessi árangur hefði náðst og tekist hefði að fækka um 12 þúsund í hópi þeirra Reykvíkinga sem ekki hafa aðgang að heilsugæslu og heimilislæknum. Það er árangur og núv. hæstv. heilbrrh. á sinn þátt í honum.