Tekjustofnar sveitarfélaga

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 00:32:07 (4105)

     Frsm. meiri hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta félmn. á þskj. 496 um frv. til laga um breyting á lögum nr. 90 1990, um tekjustofna sveitarfélaga. Nefndin hefur fjallað um frv. þetta en með því er lagt til að innheimta álagðs aðstöðugjalds verði felld niður á árinu 1993 og að í kjölfar þess verði sveitarfélögum bætt tekjutapið til bráðabirgða á því ári með hlutdeild í tekjuskatti ríkisins árið 1993.
    Á fund nefndarinnar komu frá Sambandi ísl. sveitarfélaga Þórður Skúlason og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Enn fremur komu á fund nefndarinnar Húnbogi Þorsteinsson frá félmrn. og Maríanna Jónasdóttir frá fjmrn.
    Nefndin sendi frv. þetta til umsagnar efh.- og viðskn. sem fjallaði um málið annars vegar út frá ráðstöfunum í efnahags- og skattamálum og hins vegar með tilliti til landsútsvars. Nefndinni bárust þrjú álit frá efh.- og viðskn.     Í umsögn Vilhjálms Egilssonar og fleiri er lagt til að frv. verði samþykkt óbreytt. Meiri hluti félmn. er samþykkur því áliti.
    Nefndin telur ástæðu til að árétta að ákvæði 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I, er varðar breytingar á framlagi ríkissjóðs sem yfirferð framtala og úrskurður á kærum kann að leiða til, gildir eingöngu um árið 1992.
    Undir nál. rita Rannveig Guðmundsdóttir, Guðjón Guðmundsson, Einar K. Guðfinnsson, Gunnlaugur Stefánsson og Árni M. Mathiesen.
    Ég vildi gjarnan geta þess að það ákvæði 5. mgr. frv., sem áréttað er í nál., hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Leiði breytingar skattstjóra, við yfirferð framtala og við úrskurð á kærum á aðstöðugjaldsstofni, til þess að sýnilegt er að framlag ríkissjóðs, sbr. 4. mgr., hafi verið of hátt eða of lágt í einstöku sveitarfélagi, skal ákvarða að nýju umrætt framlag. Félmrh. skal í samráði við fjmrh. og Samband ísl. sveitarfélaga setja í reglugerð nánari ákvæði um hvernig staðið skuli að þeirri ákvörðun.``
    Þetta ákvæði á við um árið 1992 og skoðun sem kæmi til á árinu 1993 en ekki síðar.
    Nál. fylgja þrjú fylgiskjöl og eru það þau álit sem félmn. bárust frá efh.- og viðskn.
    Ég vil geta þess að í efh.- og viðskn. var frv. fyrst og fremst rætt og um það fjallað frá skattalegu sjónarmiði en félmn., sem fjallar um tekjustofna sveitarfélaga sem og önnur málefni sveitarfélaganna, hefur fjallað um málið frá þeim sjónarhóli og ekki síst hvort breyting hefði áhrif á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
    Þá ber þess að geta að þetta frv. er eins árs aðgerð og á þeim tíma verður leitt til lykta hvernig tekjustofna sveitarfélögin skuli hafi í stað aðstöðugjaldsins. Það er eðlilegt að álykta að í þeirri vinnu sem fram undan er verði jafnframt fjallað um landsútsvar og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, þar sem um er að ræða hluta af tekjuöflunar- og tekjujöfnunarkefi sveitarfélaganna, og að í þeirri vinnu komi niðurstaða í umræðuna um framtíð landsútsvars.
    Ég vil líka geta þess, virðulegi forseti, að það kom fram hjá fulltrúum Sambands ísl. sveitarfélaga að þetta væri samkomulagsmál nema það hefði mótmælt IV. lið frv., sem lýtur að skerðingu á Lánasjóði sveitarfélaga. Á heildina litið væri Samband ísl. sveitarfélaga sátt við þessa aðgerð.