Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 17:49:04 (4209)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er lítill vafi á því að þjóðinni væri mikill greiði gerður með því að taka frá henni þennan jólaglaðning hæstv. ríkisstjórnar í skattamálum. Ég hygg þó að hæstv. ríkisstjórn sjálfri væri í raun enn þá meiri greiði gerður ef þetta frv. væri fellt nú og annað og betra afgreitt á fyrstu mánuðum komandi árs.
    Sú skattastefna hæstv. ríkisstjórnar sem hér birtist í þessum bandormi er í raun og veru ævintýralegur samsetningur ef frv. er skoðað í heild. Hér er slengt saman í einu frv. hækkun tekjuskattsprósentu og lækkun persónufrádráttar á móti. Venjan hefur verið hið gagnstæða, að hærri tekjuskattsprósentu hafi jafnframt fylgt hækkun persónufrádráttar. Hér eru mikil nýmæli á ferð í þessum efnum, að sameina þetta tvennt, hækkun skattprósentu og lækkun persónufrádráttar. Maður hlýtur að óska hæstv. ríkisstjórn til hamingju með þetta afrek, þessa hugkvæmni í skattlagningu.
    Í öðru lagi er hér á ferðinni skerðing vaxtabóta, þar með svikin margítrekuð loforð núv. hæstv. félmrh. um að á móti hækkun vaxta á húsnæðislánum á undanförnum árum stæðu vaxtabætur.
    Í þriðja lagi er hér lagður virðisaukaskattur á ferðaþjónustu, á bækur og húshitun sem er einhver fráleitasti skattstofn fyrir Íslendinga sem hægt er að hugsa sér vegna þess hversu misjafn sá kostnaður er fyrir.
    Við þetta rangláta frv. er ekki nema eitt að gera, þ.e. að fella það hér og nú og semja annað betra

og afgreiða það á fyrstu mánuðum næsta árs. Slíkt frv. yrði ívilnandi launamönnum og þar af leiðandi ekkert því til fyrirstöðu að það öðlist gildi einhvern tímann á nýbyrjuðu ári. Ég segi nei.