Evrópskt efnahagssvæði

92. fundur
Mánudaginn 04. janúar 1993, kl. 15:14:45 (4258)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það má vera að þeir séu þrír framsóknarmennirnir sem hafa boðað þessa afstöðu. Eitthvað mun það hafa verið erfið fæðing hjá þeim þriðja sem hér var nefndur til sögunnar, en látum það gilda fyrst framsóknarmenn vilja túlka það svo. Varðandi stjórnarskrárþátt málsins hafði ég litið svo á að spurningin væri ekki um afdrif tillögu á Alþingi sem varðaði endurskoðun stjórnarskrárinnar sem vísað hefur verið til ríkisstjórnarinnar hvernig menn réðu atkvæði sínu með tilliti til þess flokksvilja sem ég las út úr flokksþingi Framsfl., að stjórnarskráin ætti að eiga inni vafann. Ég sé ekki að hægt sé að útfæra slíkt með öðrum hætti en að greiða atkvæði gegn ef menn eru þeirrar skoðunar að líkurnar á stjórnarskrárbroti séu miklar í sambandi við samninginn.
    Varðandi hinn málsþáttinn tel ég að stofnanaþáttur samningsins, sem við ræðum hér, sé svo samofinn efni samningsins að öðru leyti að ekki verði klippt á hann með einum hætti. Evrópubandalagið segir: Við skulum bara klippa þetta af og þið hafið hitt. Samningurinn gerir ráð fyrir ferli og þetta mál er ekki búið með samþykkt samningsins heldur verður hér gangandi færiband með löggjöf frá Evrópubandalaginu. Menn eru að stíga inn á vagn sem heldur áfram að rúlla og hann verður ekki stöðvaður í einu vetfangi og menn segja: Ég ætla að búa við það sem komið er af löggjöf Evrópubandalagsins og sjáum svo til með afganginn. Það held ég að verði erfitt og ég minni líka á það að Evrópubandalagið er að tryggja sig með þessum samningi og tvíhliða sjávarútvegssamningnum að geta tekið árlega upp sjávarútvegsmálin gagnvart Íslendingum. Ætli þumalskrúfurnar verði ekki hertar varðandi veiðiheimildirnar sérstaklega sem menn hafa tekið inn í þetta mál til þess að fá niður tollaafléttingu að hleypa útlendingum inn í auðlindina eins og er hluti af þessu máli?