Frestun á fundum Alþingis

103. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 19:50:59 (4895)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Fyrir jólahlé þingsins var flutt hliðstæð tillaga um frestun á fundum Alþingis og þá kom alveg hliðstætt mál til umræðu. Því var hreyft af alþingismönnum í umræðum um þá tillögu að engin þörf væri á því að samþykkja slíka þingfrestun með sérstakri till. til þál. Ég tel fráleitt að taka upp þann hátt á Alþingi, að breyttum þingsköpum 1991, að fresta þingfundum með þáltill. Alþingi starfar allt árið. Alþingi getur tekið sér hlé frá störfum með samkomulagi eins og hefur verið síðan og ber enga nauðsyn til að flytja um það sérstakar þáltill. Mér finnst slæmur svipur á því ef hafa á þennan hátt á framvegis í sambandi við þinghald og í rauninni verið að viðhalda hér algerlega að ástæðulausu gamalli hefð frá því að þingsköp og starfshættir þingsins voru með allt öðrum hætti en nú er. Ég hefði talið skynsamlegt að tillagan væri dregin til baka og menn hættu slíkri tilhögun í sambandi við þinghlé að gera um það sérstaka samþykkt.